Menningarmál

Menningarstarf í sveitarfélaginu er blómlegt og fjölbreytt. Fyrir hönd sveitarfélagsins starfar Menningar- og æskulýðsnefnd sem skipuleggur ýmsa viðburði. Ýmis félög, kórar og einstaklingar standa einnig fyrir fjölbreyttu menningarstarfi- og viðburðum.

Menningar- og æskulýðsnefnd sveitarfélagsins hefur undanfarin ár staðið fyrir sumarhátíð sem áður hét Uppsprettan en hefur núna síðustu 3 ár fengið nafnið Upp í sveit. Hátíðin er alla jafn haldin í byrjun júní, oft í kringum þjóðhátíðardaginn en hann er alltaf haldinn hátíðlegur með tilheyrandi fjallkonu, hátíðarræðu og kökuhlaðborði. Myndir og frekari upplýsingar um hátíðina og 17. júní hátíðarhöld má finna hér hægra megin undir „Upp í Sveit“

Skeiða og Gnúpverjahreppur er hluti að svokallaðri Héraðsnefnd Árnesinga, sem er byggðarsamlag nokkurra sveitarfélaga í Árnessýslu. Héraðsnefndin rekur nokkrar stofnanir og eru þar á meðan Byggðarsafn Árnesinga, Listasafn Árnesinga og Héraðsskjalasafn Árnesinga. Frekari upplýsingar um Héraðsnefndina og stofnanir hennar má finna hér.

Eins og víða í dreifbýli landsins voru félagsheimilin kjölfestan í öllu félags- og menningarlífi. Í Skeiða- og Gnúpverjahrepp eru tvö félagsheimili; í Árnesi og Brautarholti. Með breytingum á félagsheimilinu í Brautarholti þar sem leikskóli sveitarfélagsins er til húsa er verið að bæta aðstöðu fyrir félagsstarf  eldriborgara og litla innansveitar viðburði. Í Árnesi er nú rekið mötuneyti fyrir grunn- og leikskóla sveitarfélagsins auk þess að þar er opinn veitingastaðurinn Brytinn.  Í Árnesi er haldið árlegt þorrablót sem hefur verið vel sótt, sveitahátíðin Upp í sveit, handverksmarkaður, kóræfingar og stundum böll og tónleikar.

Í sveitarfélaginu eru tvær kirkjur: Stóra-Núpskirkja og Ólafsvallakirkja og eru starfræktir kirkjukórar við báðar kirkjurnar og  samstarf er oft með kirkjukór Skálholtskirkju. 

Vörðukórinn er samkór sem starfar í uppsveitum Árnessýslu og æfir til skiptis í Árnesi, Brautarholti og Flúðum. Auk árlegra tónleika heldur Vörðukórinn af og til baðstofukvöld og hefur gefi út geisladiska, síðast árið 2019.

Karlakór Hreppamanna æfir á Flúðum og starfar almennt frá réttum að hausti og fram í miðjan apríl. Karlakórinn heldur yfirleitt þrenna tónleika á hverju starfsári á mismunandi stöðum. Einnig standa þeir fyrir föstum viðburðum eins og karlakvöldi í nóvember. Frekari upplýsingar um Karlakór Hreppamanna má finna hér.

Í sveitarfélaginu starfa tvö Kvenfélög: Kvenfélag Skeiðahrepps og Kvenfélag Gnúpverja. Ungmennafélög eru líka tvö: Ungmennafélag Gnúpverja sem heldur m.a. úti fótboltaæfingum í Árnesi. Ungmennafélag Skeiðamanna hefur staðið fyrir spilakvöldum og leikjanámskeiði á sumrin. Hestamannafélagið Smári starfar á öllu svæðinu og heldur m.a. úti mjög öflugu ungmennastarfi í samstarfi við hestamannafélög í uppsveitunum.  Innan Ungmennafélags Gnúpverja er starfandi öflug leikdeild sem sett hefur upp leiksýningar með reglulegu millibili, sumar allstórar og viðamiklar.

Menningarlíf í sveitarfélaginu er auðvitað mikið litað af landbúnaði. Mikil hestamennska er stunduð og rík hefð fyrir hestaferðum. Góðar reiðleiðir liggja víðast um hreppinn og tengjast bæði nágranna byggðalögum sem og afréttum Gnúpverja, Flóa og Skeiða sem liggja inn að miðhálendi. Þar hafa verið byggðir upp glæsilegir fjallaskálar til að hýsa fjallmenn á haustin en eru mikið notaðir í hestaferðir sem og gönguferðir um hálendið. Frekari upplýsingar um fjallaskála sveitarfélagsins má finna undir „Ferðaþjónusta“  hér til hægri. Tvær fjárréttir eru í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, annars vegar Reykjarétt á Skeiðum, þangað sem fé af Flóa-og Skeiðamannaafrétt er rekið. Hinsvegar Skaftholtsrétt, þar sem fé af Gnúpverjaafrétt er réttað. Réttað er í Skaftholtsrétt á föstudegi 10.- 16.   september og í Skeiðarétt  11.-17. september. Fyrir þessar réttir eru afréttir Flóa- og Skeiðamanna og Gnúpverja, sem allir liggja samsíða inn að miðhálendi, smalaðir á sama tíma. Þeir sem lengst fara eru í 10 daga í fjallferð og fara, ef aðstæður leyfa, alveg inn í Arnarfell hið mikla.

 


Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Svo hægt sé að hafa samband við þig.