Upp í sveit

Sveitahátíðin Upp í sveit er hátíð sem þróast hefur síðan árið 2009. Vísir að þessari hátíð var svokallaður Landnámsdagur eða Landnámshelgi sem haldin var í sveitarfélaginu árin 2009 - 2016 í tengslum við Þjóðveldisbæinn. Árið 2016 var dagskrá hátíðarinnar breytt lítillega og nafninu breytt í Uppsprettuna. Þar var dagskráin meira almenns eðlis og ýmsir viðburðir í boði í Árnesi og í sveitinni í kring. Árið 2019 var nafni hátíðarinnar enn breytt og þá fékk hún nafnið Upp í sveit. Hátíðin hefur þó verið allan tíman með svipuðu sniði þó áherslurnar hafi etv. breyst lítillega.

Reynt er að vera með viðburði eða afþreyingu sem höfðar til allra aldurshópa.  Viðburðir sem eru nær öll ár eru einhverskonar handverksmarkaður þar sem fólki gefst kostur á að sýna og selja allskonar heimavinnslu og handverk. Opin hús, þar sem gestum er boðið að skoða ýmist fjós, fjárhús, minkabú eða annað er alltaf vinsælt. Gönguferðir eru fastur liður í hátíðum sem þessum, oft hefur verið gengið um skóginn í Þjórsárdal, að fossinum Búða í Þjórsá eða aðrar skemmtilegar gönguleiðir í sveitarfélaginu. Nú síðustu ár hefur verið boðið upp á sameiginlegan morgunverð eða hádegisverð og hafa þessir viðburðir verið mjög vel sóttir af sveitungum.

Frá því 2019 hefur verið ákveðið leiðarstef í skipulagningu að vera með eitthvað sem virkjar unga fólkið og hefur verið boðið upp á Leikjakerru  frá Ungmennafélagi Íslands þar sem börn og fullorðnir keppa sjálfir í allskonar skemmtilegum leikjum og þrautum.


Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Svo hægt sé að hafa samband við þig.