Í samkomubanni

Sunnudagur, 19. apríl 2020

Flest gengur tiltölulega eðlilega fyrir sig hér í Skeiða- og Gnúpverjahreppi þessa dagana. En vissulega er flest öðruvísi en í normal ástandi. Starfsemi í grunnskóla og leikskóla hér hefur að mínu mati gengið virkilega vel. Það ber að þakka starfsfólki skólanna, kemur þar til gott skipulag og samstarf starfsfólk.

Við munum hafa skrifstofuna lokaða fyrir heimsóknum um óákveðinn tíma eins og verið hefur frá 16 mars. sl. Líklega opnum við aftur 4 maí. Ekki er útilokað að það verði eitthvað endurskoðað fyrr.

Eins og kunnugt er hefur sorpgámsvæði verið opnað á ný með breyttum áherslum.

Ég mun sitja í stólnum mínum eins og verið hefur. Mun ég leitast við að annast þau verkefni sem berast. Samstarfskonur mínar vinna heima og gengur það mjög vel að mínu mati.

Ég hef átt samtöl við allmarga íbúa að undanförnu, bæði atvinnurekendur og aðra. Mun ég reyna að gera meira af því á næstunni. Almennt er hljóðið nokkuð yfirvegað í fólki.

Eins og við er að búast eru ferðaþjónustuaðilar áhyggjufullir. Engu að síður halda þeir sínu striki og ég veit ekki til að neinn þeirra hafi lokað. En eitthvað er um uppsagnir.

Stærstu vinnustaðir sveitarfélagsins, Búrfellsstöð og Landsstólpi eru ekki að horfa fram á breytingar hjá sér að svo stöddu, nema hvað varðar skipulag starfa í ljósi ástandsins.

Síðastliðinn föstudag var haldinn fundur að frumkvæði SASS með öllum sveitar- og bæjarstjórum á Suðurlandi auk þingmanna kjördæmisins. Þar kom fram að aðstæður innan Suðurlands eru mjög misjafnar. Þar sem ferðaþjónustan spilar stórt hlutverk eins og til dæmis í Skaftafellssýslum, er ástandið mjög alvarlegt og er atvinnuleysi orðið þegar mikið og stefnir þar í enn verri stöðu.

Þó að ástandið hér i okkar sveitarfélagi sé betra en víða annarsstaðar, stefnir engu að síður í 8,7 % atvinnuleysi þennan mánuðinn.

Langt er í land þar til ástand í þjóðfélaginu verður orðið nálægt því að vera eðlilegt og mikilvægt að fara varlega. En það styttist í 4.maí. Þá verða að öllum líkindum tekin skref til afléttingar. Ekki er laust við að maður hlakki til þess dags.

Hafið það sem allra best. Kristófer sveitarstjóri