Íbúafundur í Árnesi 10. feb. kl.14:00 um friðlýsingu Þjórsárdals

Fimmtudagur, 6. febrúar 2020
Gjáin í Þjórsárdal

Í tilefni af áformum um friðlýsingu mennigarlandslags í Þjórsárdal blæs Minjastofnun Íslands til opins kynningarfundar um verkefnið í Árnesi þann 10. febrúar kl. 14:00. Friðlýsinginarskilmála má nálgast á heimasíðu Minjastofnunar www.minjastofnun.is og hér að neðan. Allir eru velkomnir á fundinn.

Umfang friðlýsingar menningarlandslags Þjórsárdals. Friðlýsingi.tekur til menningarlandslags[ii] Þjórsárdals og er gerð á grundvelli 18 gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 (hér eftir nefnd: minjalög) þar sem segir m.a.: „Friðlýsa má samfelld svæði þar sem fleiri en einn minjastaður teljast hafa sérstakt menningarsögulegt gildi“. Aðgerð þessi miðar ekki síst að því að sameina sem minjaheild – menningarlandslag – undir eina friðlýsingu allar þær fornleifar í Þjórsárdal sem friðlýstar voru á þriðja áratug 20. aldar. Um er að ræða minjar 22 fornbýla í dalnum (sjá viðauka 1). Undir friðlýsinguna fellur einnig umhverfi þessara 22 friðlýstu fornbýla sem og aðrar þær minjar sem nú eru aldursfriðaðar[iii] samkvæmt minjalögum og umhverfi þeirra. Umræddar minjar og umhverfi þeirra mynda hið friðlýsta menningarlandslag sem er afmarkað og hnitsett á meðfylgjandi uppdrætti (viðauki 2). Ef áður óþekktar minjar finnast innan hins friðlýsta svæðis falla þær undir skilmála friðlýsingar þessarar.[i] Friðlýsing: Fornleifar, mannvirki og hús sem tekin hafa verið í úrvalsflokk minja – þjóðminjar. Friðlýsing þeirra er þinglýst á viðkomandi jörð. Ráðherra friðlýsir og afléttir friðlýsingum á menningarminjum að fenginni tillögu Minjastofnunar Íslands. Um friðlýstar minjar gilda strangari verndar- og umgengnisreglur en um aldursfriðaðar minjar. Friðhelgað svæði umhverfis friðlýstar fornleifar eru 100 m út frá ystu mörkum. Óheimilt er að raska slíkum minjum nema að fengnu leyfi Minjastofnunar Íslands. Heimilt er að friðlýsa yngri minjar en þær sem náð hafa 100 ára aldri. Sömuleiðis er heimilt að friðlýsa stærri varðveisluverðar heildir minja.

[ii] Menningarlandslag: Landslag sem maðurinn hefur hagnýtt – lifað og hrærst í – þannig að  þess sjáist ekki endilega merki. Menningarlandslag nær þannig allt frá bæjarhólum þar sem greinileg ummerki mannsins sjást á náttúrunni, s.s. hús og mógrafir, til öræfajaðarsins þar sem farið hefur verið á grasafjall eða búpeningi haldið til beitar.

Búsetulandslag: Landslag sem maðurinn hefur hagnýtt – lifað og hrærst í – þannig að þess sjáist merki. Með áherslu á búsetu og þær breytingar sem búseta mannsins hefur haft á landið, sérstaklega heimalandið. Dæmi um búsetulandslag utan heimalands eru varðaðar leiðir.

Í eftirfarandi friðlýsingarskilmálum verður notast við hugtakið menningarlandslag til einföldunar en hugtakið nær einnig yfir búsetulandslag.

[iii] Friðun: Á við um allar fornleifar, mannvirki og hús sem náð hafa 100 ára aldri. Friðhelgað svæði er 15 m út frá ystu mörkum fornleifa. Óheimilt er að raska slíkum minjum nema að fengnu leyfi Minjastofnunar Ísland. Minjastofnun Íslands getur aflétt friðun á aldursfriðuðum fornleifum, húsum og mannvirkjum.

Friðlýsing viðauki 1

Friðlýsingarsvæði Þjórsárdalur endanlegt