Tengsl við nátttúruna eru leiðarljós í starfi Þjórsárskóla

Sunnudagur, 21. ágúst 2016

Nú styttist í skólabyrjun og mörg spennandi verkefni eru framundan hjá Þjórsárskóla. Nú í ágúst tóku kennarar þátt í tveggja daga námskeiði, sem sett var af stað af Skólaþjónustu Árnesþings. Verkefnið verður í gangi í allan vetur og markmiðið með því er að efla teymiskennslu og auka fjölbreytni í kennsluháttum þannig að nám verði sem mest við hæfi hvers og eins.

Skólinn verður settur mánudaginn 22. ágúst og í þeirri viku fara nemendur og starfsfólk skólans í árlega útilegu inn í Þjórsárdal. Þá er unnið í náttúrunni að fjölbreyttum markmiðum bæði félagslegum og námslegum og gist er eina nótt í tjöldum.  Útikennsla, umhverfismennt  og náin tengsl við náttúruna eru leiðarljós í skólastarfinu í Þjórsárskóla og við erum sífellt að efla okkur í þessum þáttum. Á starfsdögum í október fer starfsfólk skólans til Noregs til þess að bæta við sig frekari fróðleik um útikennslu, en skólinn fékk Erasmus styrk til þessa verkefnis.  Við í Þjórsárskóla hlökkum til að takast á við verkefni vetrarins.

Bolette Höeg Koch skólastjóri.