Sveitarstjórn

66. fundur 25. ágúst 2021 kl. 14:00
Nefndarmenn
  • Anna Sigríður Valdimarsdóttir
  • Ástráður Unnar Sigurðsson í stað Björgvins Skafta Bjarnasonar oddvita
  • Einar Bjarnason varaoddviti
  • Haraldur Ívar Guðmundsson í stað Matthíasar Bjarnasonar
  • Ingvar Hjálmarsson
Starfsmenn
  • Auk þess sat Sylvía Karen Heimisdóttir sveitarstjóri fundinn og ritaði fundargerð

Einar Bjarnason sá um fundarstjórn í fjarveru oddvita
Spurðist varaoddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera

Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:

1. Leikskólavist utan lögheimilis

Umsókn barst um leikskólavistun barns í leikskólanum Leikholti tímabundið fram að áramótum þrátt fyrir að lögheimili barnsins væri í öðru sveitarfélagi. Um flutninga milli sveitarfélaga er að ræða og er því um tímabundna vistun að ræða. Lögheimilissveitarfélag hefur samþykkt að greiða til sveitarfélagsins fyrir vistun barnsins.

Sveitarstjórn samþykkir leikskólavistun barnsins og fer gjaldtaka eftir viðmiðunargjaldskrá Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna leikskóladvalar utan lögheimilissveitarfélags.

 

2. Umsókn um námsvist utan lögheimilissveitarfélags

Umsókn barst til sveitarfélagsins frá hjónum sem hyggjast flytja tímabundið í sveitarfélagið um þátttöku sveitarfélagsins v. kostnaðar við skólagöngu barna þeirra í öðru sveitarfélagi frá janúar 2022 til loka skólaárs 2021-2022.

Haraldur Ívar vék af fundi við afgreiðslu þessa liðar v. fjölskyldutengsla.

Sveitarstjórn fól sveitarstjóra að afla frekari upplýsinga um kostnað vegna skólagöngu m.t.t. þarfa barnanna.

 

3. Samþykki um gatnagerðargjöld í þéttbýli Skeiða- og Gnúpverjahrepps

Samþykkt um gatnagerðargjöld voru tekin til annarra umræðu.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða samþykkt um gatnagerðargjöld í þéttbýli Skeiða- og Gnúpverjahrepps og felur sveitarstjóra að ganga frá henni til birtingar.

 

4. Reglur um úthlutun lóða í Skeiða- og Gnúpverjahreppi

Úthlutunarreglur lagðar fram í annað sinn. Búið er m.a. að taka tillit til athugasemda sem komu fram í fyrri umræðu um frekara gagnsæi við úthlutun lóða. Í stað reglunnar fyrstur kemur fyrstur fær var lagt til að dregið verði úr umsóknum séu umsækjendur um lóð tveir eða fleiri

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða reglur um úthluun lóða í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

 

5. Framtíðarsýn tjaldsvæðisins í Árnesi

Leigutaki að tjaldsvæðinu í Árnesi kynnti fyrir sveitarstjórn hugmyndir sínar að frekari uppbyggingu á tjaldsvæðinu í Árnesi.

Sveitarstjórn fagnar hugmyndum að frekari uppbyggingu í sveitarfélaginu og felur sveitarstjóra að skoða hugmyndirnar með tilliti til rekstrar tjaldsvæðisins.

 

6. Fráveita Traðarlandi- umsókn

Umsókn frá Traðarland um þátttöku sveitarfélagsins við niðursetningu rotþróar í samræmi við deiliskipulag á landinu. Skv. deiliskipulagi skal tengja svæðið við fráveitu sveitarfélagsins við frekari uppbyggingu á svæðinu.

Skv. núgildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir 8 húsum á lóðinni. Skv. skilmálum deiliskipulagsins skulu frístundahús tengjast rotþró til að byrja með. Með frekari uppbyggingu skal tengjast fráveitu sveitarfélagsins. Misræmi er í deiliskipulagi varðandi stærð rotþróar og siturlagnir. Afgreiðslu málsins frestað og leitað frekari upplýsinga.

 

7. Samningur v. framkvæmda við stofnlagir á Skólabraut

Samningur í samræmi við verkútboð vegna framkvæmda við Skólabraut í Árnesi lagður fram til samþykktar. Skv. 2.1.7 lið í verklýsingu skal leggja malbik á framkvæmdarsvæði. Lagt er til að verktaka verði veitt svigrúm fram til júlí 2022 til að klára malbikun á svæðinu í ljósi þess að framkvæmdir fara fram að vetri til. Frágangur á svæðinu fram að því skal þó með þeim hætti að hann sé snyrtilegur og að ekki stafi hætta af.

Sveitarstjórn staðfestir samning við Ólafsvelli ehf. um framkvæmdir við stofnlagnir á Skólabraut í Árnesi og að veita svigrúm til að klára malbikunarframkvæmdir til júlí 2022.

 

8. Samningur um sorphirðu 2021-2025

Afgreiðslu frestað.

 

9. Samkomulag um námsleyfi

Samkomulag vegna námsleyfis starfsmanns í leikskólanum Leikholti, sem samþykkt var í skólanefnd 18. maí sl. og í sveitarstjórn 19. maí sl., lagður fram til staðfestingar.

Sveitarstjórn staðfestir framlagðan samning vegna námsleyfis.

 

10. Samningur um fjallaskála – breytingartillaga

Lagðar fram tillögur að breytingu á samningi um Fjallaskála sem gerður var vorið 2021.

Sveitarstjórn samþykkir umræddar tillögur að breytingu á samningi með fyrirvara um leiðréttingu á tillögu sveitarstjórnar að orðalagi og felur sveitarstjóra að ganga frá samningi að nýju.

 

11. Fjárhagsáætlun- viðauki

Lagður var fram viðauki III við fjárhagsáætlun 2021. Gert er ráð fyrir hækkun vegna félagsmála um 10 millj. kr. og hækkun á leiguíbúðum v. reksturs og viðhalds um 2,4 millj. kr. Nettó hækkun á málaflokkum er 3 millj. kr. Útgjaldaauka er mætt með styrk v. til félagsmála og teknu tilliti til hækkunar á útsvarstekjum auk lækkunar á fjárfestingu v. framkvæmda við stofnlagnir. Útgjaldaauki skv. viðauka er því enginn.

Afgreiðslu viðauka frestað til nánari útfærslu.

 

12. Starfssamningur sveitarstjóra

Starfssamningur v. áframhaldandi ráðningar sveitarstjóra lagður fram. Sylvía Karen vék af fundi við afgreiðslu þessa liðar.

Starfssamningur sveitarstjóra var samþykktur með fjórum greiddum atkvæðum.

Anna Sigríður Valdimarsdóttir sat hjá við afgreiðslu málsins og lagði fram eftirfarandi bókun:

Ég sit hjá við þessa afgreiðslu. Ég hef áður bókað að ég hefði kosið að staða sveitarstjóra hefði verið auglýst, enda sé það í samræmi við stefnu Grósku. Það er þó ekki þar með sagt að ég sé ósátt við störf Sylvíu sem sveitarstjóra nema síður sé.

 

13. Tímabundið starfsleyfi til niðurrifs mannvirkja

Tímabundið starfsleyfi v. hreinsunar og niðurrifs asbests í Breiðanesi, Skeiða- og Gnúpverjahreppi lagt fram til kynningar. Frestur til athugasemda er til 15. september 2021.

 

14. Erindi frá Kjartani Ágústssyni

Íbúi kom með fyrirspurn um hvort sveitarstjórn telji sveitarfélagið skaðabótaskylt verði framkvæmdaleyfi v. Hvammsvirkjunar ekki samþykkt og óskaði eftir frekari rökstuðningi á svari sveitarstjórnar á hvorn veginn sem það er.

Á fundi sveitarstjórnar 11. ágúst sl. var samþykkt tillaga Önnu Sigríðar Valdimarsdóttir þar sem ákveðið var að halda opinn fund um þessi álitaefni og fá sérfræðinga í málinu til að svara þessum spurningum og öðrum sem lúta að málinu.

Anna Sigríður Valdimarsdóttir leggur fram eftirfarandi bókun, aðrir í sveitarstjórn taka undir bókun Önnu Sigríðar.

Ég hafði áður svarað samskonar fyrirspurn frá Kjartani í tölvupósti, en fyrst hún er komin hér inn opinberlega er mér ljúft og skylt að svara. Eins og segir í bókun, þá hafði ég áður kallað eftir opnum fundi um þessi mál sem var samþykkt á síðasta sveitarstjórnarfundi. Ég tel þó fyrir mitt leyti óeðlilegt að sveitarfélagið sé skaðabótaskylt hafni það téðu leyfi og set þá spurningarmerki hvers vegna slíkt ferli væri yfir höfuð. Ég tel hins vegar vissara að fá rétt og skyldur sveitarfélagsins á hreint í þessu máli og öðrum skyldum málum.

 

15. Svar við umsókn um fjárveitingu til styrkvega

Svar við umsókn um fjárveitingu til styrkvega lagt fram og kynnt. Vegagerðin úthlutaði styrk að fjárhæð 4.000.000 kr. í afréttavegi á Gnúpverjaafrétti.

Lagt fram til kynningar. Sveitarstjórn telur það ánægjulegt að fá styrk sem slíkan og er vinna við lagfæringar á afréttavegum á Gnúpverjaafrétti nú þegar hafin.

 

16. Umhverfis- og Auðlindaráðuneytið: Afgreiðsla umsóknar um styrk vegna framkvæmda við fráveitur í Flatholti (Seyrustaði).

Veittur var styrkur frá ráðuneytinu vegna framkvæmda við fráveitur við Seyrustaði. Nemur styrkfjárhæðin 30% af framkvæmdakostnaði.

Lagt fram til kynningar.

 

17. Umhverfis- og Auðlindaráðuneytið: Styrkumsókn Seyruverkefnis

Ekki fékkst samþykktur styrkur frá ráðuneytinu vegna seyruverkefnisins til að stuðla að eflingu hringrásakerfisins. Lagt fram til kynningar.

Sveitarstjórn lýsir yfir vonbrigðum með að ráðuneytið styðji ekki þá nýsköpun sem felst í verkefninu til að stuðla að eflingu hringrásakerfisins. Hrunamannahreppur er einnig aðili málsins og hefur þegar bókað og óskað skýringa á niðurstöðu ráðuneytisins. Tekur sveitarstjórn undir þá bókun Hrunamannahrepps.

 

18. 571. fundur stjórnar SASS

Fundargerð lögð fram til kynningar

 

19. Samtalsósk frá frambjóðanda

Samtalsósk fulltrúa Vinstri grænna um málefni og áherslur sveitarstjórnarfulltrúa fyrir komandi kosningar, lögð fram.

Sveitarstjórn fagnar erindinu en til að gæta jafnræðis mun sveitarstjórn ekki taka á móti frambjóðendum fyrir komandi kosningar.

20. Tún vottunarstofa - Aðalfundarboð

Fundarboð lagt fram.

Sveitarstjórn samþykkir að veita Guðfinni E. Jakobssyni umboð til að sækja fundinn í umboði sveitarstjórnar.

 

21. Önnur mál löglega fram borin

Umsókn um aukastöðugildi við Leikholt

Trúnaðarmál. Máli vísað til skólanefndar.

 

15. fundur Afréttamálanefndar

Fundargerð lögð fram og kynnt.

 

16. fundur Afréttamálanefndar

Fundargerð lögð fram og kynnt.

 

Tillaga að fjárhagsáætlun Afréttamálanefndar (Fylgiskjal m. fundargerð nr. 16)

Tillaga að fjárhagsáætlun lögð fram og kynnt. Kostnaður er áætlaður 2.184.673 kr. og er kostnaði mætt með innheimtu fjallskila. Það er því enginn útgjaldaauki við fjallskilin skv. útlagðri fjárhagsáætlun.

Sveitarstjórn samþykkir framlagða fjárhagsáætlun.

 

Hitaveita Gnúpverja- Aðalfundarboð

Fundarboð lagt fram.

Sveitarstjórn veitir sveitarstjóra umboð til að sitja aðalfundinn fyrir hönd sveitarfélagsins.

 

Fundi slitið kl. 17.05. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 15. september nk. kl 14.00. í Árnesi.

 

Gögn og fylgiskjöl: