- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Þjórsárdalur liggur á milli Búrfells við Þjórsá í austri og Skriðufells í vestri. Dalurinn er nokkuð sléttlendur og vikurborinn eftir endurtekin eldgos í Heklu. Merkisstaðir í Þjórsárdal eru t.d. Stöng, Gjáin, Háifoss, Þjóðveldisbærinn og Vegghamrar.
Náttúrufar
Þjórsárdalur skiptist í tvo dalbotna um Rauðukamba, þar sem Fossá rennur í austari dalbotninum og Bergólfsstaðaá (framar Sandá) í hinum vestari.
Innst í báðum dölum er Fossalda, en austan við Fossá er Stangarfell. Næsta fjall til suðvesturs er Skeljafell, þar næst Sámsstaðamúli og loks Búrfell. Þjórsá lokar dalnum til suðurs. Vestan við Fossöldu eru Flóamannafjöll, næst Dímon, Selhöfði, svo Skriðufell og Ásólfsstaðafjall. Undir Hagafjalli eru höfðarnir Bringa og Gaukshöfði og er oft talað um að Þjórsárdalur opnist við þann síðarnefnda.
Inn í dalkróknum hjá Ásólfsstöðum og Skriðufelli er mikill skógur, bæði frá náttúrunnar hendi og Skógrækt ríkisins. Þetta er gróðursælasta svæði Þjórsárdals, ásamt Búrfellsskógi. Þó hefur Landgræðsla ríkisins staðið fyrir landgræðslu á vikrunum svokölluðu, meðal annars með lúpínu og grastegundum. Vestan Fossár hafa vikrarnir líka verið græddir upp, mest innan afréttargirðingar Gnúpverja, en þar eru ólíkar grastegundir. Framar er meira um melgresi. Í kringum Búrfellsvirkjun og Þjóðveldisbæinn hefur Landsvirkjun grætt landið upp og er þar meðal annars golfvöllur.
Í Gjánni og á Kjóaflöt er gróðursælt, og er einstaklega friðsælt í Gjánni þar sem Rauðá leikur sér um hamra í gljúfrinu. Þar er mikið hvannastóð í kringum uppspretturnar, einnig margar tegundir mosa og grasa. Á eyrum Bergólfsstaðaár er nú verið að græða upp með grasi, en hægt er að segja að landið sé gróðursnautt allt frá dalbotni fram að þjóðvegi 32, en þar taka lúpínubreiður við.
Áhugaverðir staðir
Á Stöng í Þjórsárdal bjó Gaukur Trandilsson á 10. öld. Bærinn er talinn hafa farið í eyði árið 1104 eftir mikið öskugos í Heklu. Þá er talið að byggð í Þjórsárdal hafi alveg lagst af, jafnt á Stöng, Skeljastöðum, sem var framar í dalnum, og fjölda annarra bæja. Árið 1939 var Stangarbærinn grafinn upp og byggt yfir hann svo fólk geti áttað sig á búsháttum frá þeim tíma.
Í tilefni af 1100 ára afmæli byggðar á Íslandi 1974 var ákveðið að byggja Þjóðveldisbæinn undir Sámsstaðamúla. Fyrirmynd Þjóðveldisbæjarins eru rústir af fyrrum höfuðbýlinu Stöng í Þjórsárdal. Þjóðveldisbærinn ber vitni um að húsakynni forfeðra okkar voru ekki ómerkilegir moldarkofar heldur vandaðar og glæsilegar byggingar. Enginn Íslendingur ætti að láta tækifæri til að upplifa fortíð sína fram hjá sér fara.
Háifoss í Fossá er 122 m hár, annar hæsti foss landsins. Allt fram undir aldamótin 1900 var fossinn nafnlaus, en þá tók Dr. Helgi Pétursson sig til og nefndi hann. Rétt austan Háafoss er annar litlu lægri, Granni. Auðveldasta leið að fossinum er frá línuveginum milli Tungufells og Sandafells að útsýnispalli sem er við fossinn. Þaðan þarf aðeins að ganga stuttan spöl niður í mót, en fara verður gætilega á brúnum gilsins.
Hjálparfoss er tvöfaldur foss neðst í Fossá í Þjórsárdal, rétt áður en hún sameinast Þjórsá. Svæðið umhverfis hann heitir Hjálp og er tiltölulega gróið. Það ber þó merki um stöðugar ásóknir Heklu gömlu í gegnum aldirnar.
Blágrýtismyndarnirnar umhverfis fossinn eru fallegur rammi um hvítfyssandi vatnið. Nafnið Hjálp varð til í munni þeirra, sem komu úr erfiðum ferðum yfir Sprengisand og fundu þar snapir fyrir hestana.
Vegghamrar eru berghamrar miðja vegu milli Hallslautar og Rauðukamba. Undir þeim liggur hin forna Sprengisandsleið, og ríða fjallmenn Flóa, Skeiða- og Gnúpverja hér um á leið sinni til leitir að hausti. Það er siður þeirra að senda nýliða hópsins til að setja stein í vörðu sem stendur í syllu einni þar.
Sandártunga dregur nafn sitt af Sandá. Sléttir balar með birkihríslum og kjarrgróðri mynda fallegt svæði sem nýtt er sem tjaldsvæði fyrir ferðamenn með góðri salernisaðstöðu og skemmtilegum leiktækjum. Svæðið liggur austan Sandár, ofan Sandárbrúar á Þjóðvegi 32. En áin rennur aftur á móti glaðleg í Þjórsá nokkru neðar. Jóhannes Hlynur Sigurðarson á Ásólfsstöðum hefur umsjón með tjaldsvæðinu. Á Sandártungu er friðsælt og þægilegt að tjalda og stutt í allar áðurnefndar náttúruperlur dalsins, í Árnes er um 15 km og þar er sundlaug, skóli, verslun, upplýsingamiðstöð, íþróttavöllur, bifvélaverkstæði og annað tjaldsvæði.