Reykjaréttir

Reykjaréttir eru skammt fyrir sunnan bæinn Reyki. Þær voru byggðar að stofni til árið 1881. Þar rétta Skeiða- og Flóamenn fé sínu.

Um langan aldur hafa Reykjaréttir verið einar fjárflestu réttir á Suðurlandi, en nú hefur fé heldur fækkað þótt fjöldi fólks sem sækir Reykjaréttir sé ennþá mikill.

Á aldarafmæli Reykjarétta voru þær að mestu leyti hlaðnar að nýju og færðar til hinnar upphaflegu gerðar. Veggir réttanna eru axlarháir (1.50 m), hlaðnir úr hraungrýti og tyrfðir ofan. Við hliðina er svo nátthagi, girtur hringlaga hraungrýtisgarði.

Réttað er nú á laugardegi en áður fyrr var það gert á föstudegi.

Ekki er lengur rekið inn í Skaftholtsréttir í fjallsafni eins og áður var gert en Flóa- og Skeiðamenn draga sitt fé í Reykjaréttum.

Í daglegu tali er oftar talað um Skeiðaréttir en Reykjaréttir.