Barnavernd

Öll börn eiga rétt á vernd og umönnun. Einstaklingar teljast börn til 18 ára aldurs. Þau njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska. Foreldrum ber að sýna börnum sínum umhyggju og nærgætni. Þeim ber jafnframt að gegna forsjár- og uppeldisskyldum við börn sín svo sem best hentar hag og þörfum þeirra. Foreldrum ber að búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna. Aðrir aðilar sem koma að uppeldi barna skulu sýna þeim virðingu og umhyggju.

Barnaverndarþjónusta Árnesþings starfar samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Markmið laganna er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Unnið er að því að ná þessum markmiðum með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við.

Sveitarfélög bera ábyrgð á barnavernd skv. barnaverndarlögum og skulu starfrækja barnaverndarþjónustu sem ber ábyrgð á verkefnum og ákvörðunum samkvæmt barnaverndarlögum sem ekki eru sérstaklega falin öðrum, þ.m.t. umdæmisráði barnaverndar, dómstólum eða öðrum stjórnvöldum.

Fyllsta trúnaðar er gætt við vinnslu barnaverndarmála.

Frekari upplýsingar um starf barnaverndar, tilkynningarsíða og ýmsan fróðleik um barnaverndarmál má finna hér