- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Þjórsárhraunið rann fyrir um 8000 árum og hefur þakið öll Skeiðin, nema horn við vestur rætur Vörðufells. Upp úr hrauninu standa tvö há holt, Húsatóftaholt og Skeiðháholt og svo fjallið Vörðufell sem er 391 m á hæð.
Þjórsárhraunið kemur upp fremst þar sem heitir Merkurhraun og ofar Gróuhelluhraun. Síðan hraunið rann hefur myndast gróðurþekja á landinu sem er nú um 1-2 metrar að þykkt. Þetta voru áður fyrr mest blautar mýrar, en með Skeiðaáveitunni og framræðslu síðari ára hefur landið þornað og breyst í góða bithaga eða töðuvöll.
Þjórsárhraunið er mesta hraun á Íslandi og vafalaust hið mesta sem runnið hefur á jörðinni síðan ísöld lauk. Talið er að hraunið sé um 40 km3 (rúmkílómetrar). Hraunið átti upptök sín í gossprungu, sem skerst norður Tunguöræfi vestan Vatnaalda, nánar til tekið í nágrenni Veiðivatna á Landmannaafrétti, líklega í Heljargjá, en hún er talin hluti eldstöðvarkerfis Bárðarbungu. En ekki er samt vitað nákvæmlega hvar. Hraunið hefur runnið meðfram Tungnaá og síðan Þjórsá, um Þjórsárdal, Landsveit, Eystri hrepp, Skeið og Flóa og til sjávar milli Ölfusar og Þjórsár um 100 km leið og út í sjó, og þar er 50 metra hraunkambur neðansjávar út af Eyrabakka og Stokkseyri. Bergtegund hraunsins er basalt, og er hún alls staðar söm, en mjög sérkennileg og auðþekkt frá öðrum hraunum í nágrenninu, vegna hvítu eitlana sem er í grjótinu.
Hraunið er víðast um 15-20 m þykkt, um 40 m þar sem það er þykkast, en að jafnaði um 25 m. Víða í hrauninu eru dældir og bollar sem kallaðar eru dælur. Þó að hraunið sé víðast hulið þykku jarðvegslagi þá má sums staðar enn sjá hraunið, t.d. í Stokkseyrarfjöru og við Búðafoss en hann steypist fram af hraunbrúninni.