- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Landnámsmenn bjuggu í sveitarfélaginu og segir hér af nokkrum þeirra:
Ólafur tvennumbrúni nam Skeiðin skv. Landnámu. Kona hans var Ásthildur. Að Ólafi látnum lagði Þorgrímur örrabeinn hug á hana en sonur hennar, Helgi, var á móti ráðahagnum. Hann sat fyrir Þorgrími fyrir neðan Áshildarmýri og drap hann.
Þrándur mjögsiglandi Bjarnarson, bróðir Eyvindar austmanns, hann var í Hafursfirði mót Haraldi konungi og varð síðan landflótti og kom til Íslands síð landnámatíðar; hann nam land milli Þjórsár og Laxár og upp til Kálfár og til Sandlækjar; hann bjó í Þrándarholti. Hans dóttir var Helga, er Þormóður skafti átti.
Ölvir barnakarl hét maður ágætur í Noregi; hann var víkingur mikill. Hann lét eigi henda börn á spjótaoddum, sem þá var víkingum títt; því var hann barnakarl kallaður. Hans synir voru þeir Steinólfur, faðir Unu, er átti Þorbjörn laxakarl, og Einar, faðir Ófeigs grettis og Óleifs breiðs, föður Þormóðar skafta. Steinmóður var hinn þriðji son Ölvis barnakarls, faðir Konáls, föður Álfdísar hinnar barreysku, er Óleifur feilan átti. Son Konáls var Steinmóður faðir Halldóru, er átti Eilífur, son Ketils einhenda.
Þeir frændur, Ófeigur grettir og Þormóður skafti, fóru til Íslands og voru hinn fyrsta vetur með Þorbirni laxakarli mági sínum. En um vorið gaf hann þeim Gnúpverjahrepp, Ófeigi hinn ytra hlut milli Þverár og Kálfár, og bjó (hann) á Ófeigsstöðum hjá Steinsholti, en Þormóði gaf hann hinn eystra hlut, og bjó hann í Skaftaholti. Þorbjörn bjó sjálfur fyrst í Miðhúsum en svo í Haga.
Dætur Þormóðar voru þær Þórvör, móðir Þórodds goða, föður Lög-Skafta, og Þórvé, móðir Þorsteins goða, föður Bjarna hins spaka. Ófeigur féll fyrir Þorbirni jarlakappa í Grettisgeil hjá Hæli.
Dóttir Ófeigs var Aldís, móðir Valla-Brands.
Þorbjörn laxakarl nam Þjórsárdal allan og Gnúpverjahrepp allan ofan til Kálfár og bjó hinn fyrsta vetur að Miðhúsum. Hann hafði þrjár vetursetur, áður hann kom í Haga; þar bjó hann til dauðadags. Hans synir voru þeir Otkell í Þjórsárdal og Þorkell trandill og Þorgils, faðir Otkötlu, móður Þorkötlu, móður Þorvalds, föður Döllu, móður Gissurar byskups.
Heimildir úr Landnámabók V. hluti (98. kafli)