Skömmu fyrir jól greindist mygla í húsnæði leikskólans Leikholts. Í ljósi þeirra aðstæðna var það metið svo að ekki væri um annað að ræða en flytja starfsemina úr húsnæðinu. Nokkrir húsnæðiskostir hafa verið skoðaðir og metnir að undanförnu af því tilefni. Það var tekin ákvörðun um það síðastliðinn föstudag að flytja starfsemi leikskólans að Blesastöðum á Skeiðum í húsnæði sem áður hýsti dvalarheimili fyrir aldraða og hefur undanfarin ár hýst ferðaþjónustu. Núna um helgina hefur verið unnið af miklum krafti að flutningi á búnaði úr leikskólanum að Blesastöðum.