- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Jólin okkar í Glóruhlíð eru orðin frekar íslensk, enda eru bæði börnin alin upp á Íslandi og vilja þar af leiðandi halda alvöru íslensk jól með jólasveinum 13, jóla(möndlu)graut og góðu hangikjöti frá Ólafi í Geldingaholti í jólamat. Það er hefð fyrir því að fara eftir kaffið út í útihúsin og færa öllum skepnum eitthvað gott: hrossin fá brauð, kanínur gulrætur, hænurnar soðin spaghetti, snjótittlingar fá maiskurl, dúfurnar fá sólblómafræ og hvuttinn og kisan fá sitt hvorn pylsubita. Jólin geta eiginlega ekki byrjað fyrir okkur fyrir en þetta verk er unnið!
Anna-Lovisa fæddist í Skotlandi en var of ung til að hafa minningar af því en við foreldrar munum eftir fallegum jólamörkuðum í skoskum kastalagörðum og christmas mince pie kökunum „with a wee port or brandy“!
En auðvitað höfum við foreldrar líka minningar um jól í Þýskalandi. Jólin í fjölskyldum okkar í Þýskalandi voru að mörgu leyti mjög svipuð og jólin hér. Þetta eru fjölskylduhátíðir þar sem allir koma saman, borða vel og njóta samverunnar.
Í minni fjölskyldu var hefð fyrir því að jólin voru haldin heima hjá okkur, ömmur og afar komu til okkar yfir hátíðina. Foreldrar mömmu sem bjuggu í Rhön héraði gistuðu yfirleitt hjá okkur enda langt að keyra fyrir þau. Jólin byrjuðu eiginlega með komu þeirra um 3 leyti á Aðfangadegi. Þá var fjölskyldukaffi með heimabökuðum smákökum. Mamma var yfirleitt í stresskasti að skúra og taka til rétt áður en þau gömlu kæmu og afi átti það til að grínast að þau myndu ávallt stoppa á kaffihúsi við Autobahn “hraðbrautina” til að drepa tímann því hann vissi að dóttir hans væri með allt á síðasta snúning…Foreldrar pabba bjuggu nær og gátu skroppið heim um kvöldin en mættu svo aftur daginn eftir. Maturinn á aðfangadagskvöldi var yfirleitt einfaldur, kartöflu- og síldarsalöt með allskonar bjúgum og pylsum. Gjafir voru opnaðar sama kvöldið og mamma lagði áherslu á það að ömmur og afar fengu ávallt eitthvað heimagert, eitthvert föndur eða slíkt.
Um miðnætti var gengið í Miðnæturmessu í kirku sem var göngutúr í um það bil 2 km hvora leið en veðrið var yfirleit gott og mild, sjaldnast snjór eða frost. Afi sem var bóndi og vann hörkuvinnu á búinu þeirra átti það til sofna í messunni alveg eins og hann var vanur á sofanum heima á sama tíma kvöldsins. Amma, sem var pínu “fín frú” - og var kölluð “The Countenance” af okkur krökkum þegar hún heyrði ekki til - gaf honum kröftugt olbogaskot um leið og hún tók eftir því. Það var aðalspennan hjá okkur krökkum að fylgjast með hvenær afi myndi sofna í kirkjunni og hve lengi það tæki að hann fengi umtalað olbogaskot. Ég ætla ekki að útiloka að á unglingsárum var stundum stofnað veðbanka í kringum þetta mál. Að messunni lokinni var gengið heim og sonur prestins spilaði á básunni og hljómurinn bar með okkur þangað til við vorum komin heim. Þetta var mjög hátíðlegt!
Á jóladegi og annan í jólum var mikið spjallað, borðspilin voru ávallt vinsæl og jú auðvitað var mikið borðað alveg eins og tíðkast á Íslandi. Oft var farið í göngutúr í skóginum nær okkur og kíkt á hrossin í næsta þorpi. Látum hér fylgja uppskrift af skoskum mince pies og þýska jólabrauði:
Traditional Mince Pies | Recipes | Delia Online & Þýska stollenbrauðið ómissandi konfekt á jólunum (mbl.is)
Gleðileg jól, kæru vinir! Fjölskyldan í Glóruhlíð