- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Bráðum koma blessuð jólin........
Margar tilfinningar og hugsanir fylgja þessum árstíma.
Ég man svo vel eftir því þegar ég var barn og við systkinin biðum á Þorláksmessu spennt eftir því að pabbi myndi setja seríuna á stóra flotta gervijólatréð okkar. Þetta var sko engin venjuleg jólasería; hún var mislit og á henni voru einhverskonar kerti sem í var einhver göldróttur vökvi sem fór að bubbla skömmu eftir að henni var stungið í samband. Við systkinin gátum setið endalaust og horft á þessa fallegu seríu. Oft sat pabbi lengi dags yfir seríunni til að reyna að kveikja á henni því hún var orðin svo gömul og lúin, en við systkinin vorum mjög fastheldin og því sannfærð um að jólin kæmu bara alls ekki ef serían yrði ekki á trénu.
Jólunum fylgja líka margar hefðir; ég kom einni hefð á í minni stórfjölskyldu fyrir mörgum árum. Við förum öll saman út í skóg til að sækja jólatré, við smyrjum okkur gott nesti og setjum heitt súkkulaði á brúsa og er það stór þáttur í þessari samverustund að finna notalegan stað í skóginum til að borða nestið. Það voru ekki allir alveg sannfærðir um þetta í upphafi en nú er það þannig að enginn getur hugsað sér að vera með gervitré og öllum finnst að jólin geti ekki komið fyrr en við höfum átt þessa yndislegu gleðistund saman.
Sorg og söknuður eru líka tilfinningar sem fylgja þessum árstíma því hugurinn leitar til horfinna ástvina og mér finnst gott að gefa mér tíma í þær hugsanir.
Fastheldni, hefðir, samvera, sorg og gleði eru jólin mín, flott blanda af tilfinningum sem kalla fram bros á vör þegar ég skrifa þessar línur.
Kæru sveitungar, hafið það sem allra best um hátíðirnar, vanmetum ekki töfra þess að brosa, segja falleg orð, hlusta og sýna umhyggju og umburðarlyndi.
Allt hefur þetta tilhneigingu til að snúa veröldinni á betri veg.
Ég ætla að enda þessi skrif á því að senda ykkur link á rómó jólalag þannig að nú er bara að hækka í græjunni (eiginlega skylda) og láta hugann reika um stund. Lifið heil