- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Þegar ég var yngri var ég mjög upptekin af jólunum. Það litast örugglega helst að því hvað mér leiðist skammdegið og myrkrið, já og auðvitað kuldinn og vetrarstormar. Þegar við bjuggum í bænum var ég fyrst í götunni/blokkinni til að setja ljósin upp og síðust að taka þau niður. Í mínum huga eru jólin allan desember og aðventan það sem lyftir þessum annars litlausa mánuði upp.
Þó ekkert okkar í fjölskyldunni borði skötu hefur okkur fundist þessi hefð skemmtileg. Í minni fjölskyldu var alltaf sagt “það geta ekki komið jól fyrr en skötulyktin er komin í húsið”. Í áratugi var skötuveisla á Þorláksmessu hjá foreldrum mínum. Við mættum alltaf en það var minna um át í þeim veislum. Við enduðum svo vanalega Þorláksmessukvöld í miðbænum á rölti.
Þegar við bjuggum í bænum kallaði sveitin á okkur og helst vildum við vera í sumarbústað foreldranna. Við létum þó bara verða af því í eitt skipti. Þá var allt sett í bílinn, jólatréð, jólamaturinn, skrautið og pakkarnir og brunað út úr bænum. Við áttum einstaklega notalega stund með börnunum og fjölskyldu Halla í brunagaddi og stillu.
Það hefur margt breyst eftir að við fluttum í sveitina, bæði vegna anna og fjarlægðar við fjölskyldu. Við fluttum á Hraunvelli 19. desember árið 2014, sem er já bara nokkrum dögum fyrir jól. Þá beið okkur það verkefni að setja upp eldhúsinnréttinguna. Við höfðum það af. Það er eftirminnilegt að við bökuðum piparkökur með vinafólki í miðjum “ikea pappakassa haugnum” með ofninn á gólfinu.
Ætli það sem einkenni okkar jól sé ekki samveran og rólegheit “allt annað má breytast”. Við höfum prófað alls kyns mat þó seinni ár hafi húsbóndinn eldað sínar víðfrægu fylltu kalkúnabringur. Seinni ár hafa foreldrar okkar skipst á að vera hjá afkvæmum sínum. Stundum höfum við því verið “bara við fjögur” en líka annað eða bæði foreldrar með okkur. Hefðir foreldranna hafa fylgt þeim þegar þau eru hjá okkur. Þá er kveikt á rás 1 og beðið eftir að kirkjuklukkurnar hringja inn jólin, svo kyssast allir og óska gleðilegra jóla og setjast að borðum helst á slaginu 18:01. Þó eftirrétturinn sé ekki sá sami árlega er alltaf mandla og að sjálfsögðu pakki fyrir þann heppna.
Frá því að við opnuðum litla hótelið okkar höfum við haft opið yfir hátíðirnar. Í þau 5 ár sem við höfum haft opið höfum staðið upp frá jólamatnum til að innrita hótelgesti. Við höfum margsinnis fengið hótelgesti yfir hátíðirnar sem hafa komið að lokuðum dyrum í verslunum og ekkert haft að borða, það hafa því alls kyns veigar farið út með gestunum. Við höfum þó ekki látið það slá okkur út af laginu.
Með árunum hef ég róast nokkuð og hætt að ata heimilið allt í fjöltengjum og jólaljósum. Í dag er 7. desember og jólaskrautið er allt á háaloftinu ennþá sem hefði þótt óhugsandi fyrir nokkrum árum. Ég hugsa að eitthvað af því muni nú rata í stofuna fyrir jól. Það hefur líka styst í jólaþræðinum því ég hef tekið tréð niður fyrir áramót og bíð sjaldnast til þrettánda til að tína saman skrautið þó ljósin hafi fengið að vera lengur í gluggum.
Þegar kemur að jólahátíðinni sjálfri höfum við á seinni árum orðið afslappaðri. Ein jólin nenntum við ekki ekki einu sinni að elda á jóladag. Við höfðum afganga og graflax allir mjög sáttir við það, enda kalkúnninn eftirlætis matur bæði barnanna og okkar. Við höfum nú yfirleitt reynt að hitta systkin okkar og borða saman einhvern daginn um hátíðina, en það er bara spilað eftir eyranu.
Síðustu jól ákvað Sunneva að vinna á aðfangadagskvöld á hjúkrunarheimilinu á Selfossi. Við löguðum því hátíðina að því og héldum jólin með henni í hádeginu. Það var frekar fyndið að borða kalkúninn í hádeginu uppdressuð. Allir pakkar voru opnir fyrir klukkan 15. Kvöldið var sérlega notalegt, við spiluðum borðspil og horfðum á bíómynd í náttfötunum. Eins og við var að búast kom hótelgestur á dyrnar, aleinn yfir jólin, sem endaði hjá okkur í kaffi og spjalli um kvöldið.
Ég held að við hjónin séum meiri áramótafólk. Við lítum bæði á áramótin sem nokkurs konar núllstillingu. Litið yfir árangur og minningar ársins sem er að líða og og stefna næsta árs lögð. Við kvenpeningurinn í fjölskyldunni eigum orðið gott safn af glimmerkjólum og karlarnir eiga palíettu slaufur sem eru settar upp í tilefni dagsins, þá eru oftast systkin og foreldrar hjá okkur og glatt á hjalla.
Jólin í ár verða nokkuð óvenjuleg. Við ætlum ekki að taka á móti hótelgestum á aðfangadag og eigum því daginn alveg fyrir okkur. Sunneva verður aftur að vinna á aðfangadagskvöld og því dagskráin frá því fyrra endurnýtt. Nonni hefur oft lýst óánægju yfir því hversu fámennt er hjá okkur á jólunum, hann vill hafa fullt hús af fólki eins og á áramótum. Við ætlum því að breyta út af vananaum og borða hádeigsmat með foreldrum mínum í Hveragerði. Þau fara svo til bróður míns og hringja inn jólin með honum. Hvað við gerum um kvöldið er óráðið. Kannski förum við heim í náttfötin og njótum samverunnar eða förum í bæinn og heimsækjum systkin okkar. Hvað sem við gerum þá koma samt jól og við verðum saman.
Kæru nágrannar og vinir
Við óskum ykkur sveitungum gleðilegra jóla og vonum að þið eigið notalegar stundir. Þökkum ánægjulegar stundir á árinu sem er að líða og hlökkum til að hitta ykkur á nýju ári
fyrir hönd fjölskyldunnar á Hraunvöllum
Helga Jóhanna