- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Það er tekið að dimma en ljósin frá Útvarpshúsinu eru hátíðleg á köldum desember morgni. Það eru vandfundin meiri jólabörn á einni stofnun en á Ríkisútvarpinu, þar sem ég starfa, þó að ég teljist sjálfur seint til slíkra barna. En það er ekki annað en að hrífast með jólaljósa flóðinu sem mætir manni þegar maður gengur inn á fréttastofuna.
Í aðdraganda jóla er áralöng hefð fyrir því á fréttastofunni að halda jólaskreytingakeppni. Skipuð er 3-4 manna dómnefnd sem sker úr um hvaða vinnustöð skarar fram úr. Þegar ég hóf störf stóð ég í þeirri meiningu að þetta væri blásaklaus og hefðbundin skreytingakeppni eins og tíðkast víða. En komst fljótt að því að sú er ekki raunin. Það er ekki leiðin til sigurs að skreyta allt í hólf og gólf. Nei, það þarf að vinna dómnefndina á sitt band með smjaðri og sleikjuskap.
Metnaður samstarfsfólks míns er mikill í öllu sem þau taka sér fyrir hendur, og jólaskreytingakeppnin er engin undantekning þar, nema síður sé. Gjafir bíða dómnefndarinnar á hverjum morgni þá viku sem keppnin stendur yfir, fólk hittist í skjóli nætur til að taka upp tónlistarmyndbönd, settar eru upp ljósmyndasýningar með verkum dómara, heimabakstur er borinn upp á dómnefndina,fólki er boðið upp á nudd á milli vinnutarna og velvild á milli fólks er meiri en nokkru sinni. Og inn á milli slær í brýnu á milli skrifborða um siðgæði og siðferði þeirra aðferð sem fólk beitir til að vinna nefndina á sitt band.
Það er mikið í húfi. Montréttur í heilt ár og farandbikarinn sem hefur fylgt keppninni frá stofnun. Heimsmeistaramótið í knattspyrnu á ekki roð í þessa keppni. Úrslitin eru svo kunngjörð í vikulok á jólafögnuði fréttastofunnar, og spennan er áþreifanleg. Allt er þetta þó í mesta bróðerni og allir skilja sáttir og glaðir.
Það er ef til vill undarlegt en þessi blóðuga keppni er það sem kemur mér í jólaskapið frá því að ég byrjaði hjá RÚV. Fyrir mér er skemmtilegt að brjóta upp skammdegið með ljósum, fjöri og stemningu í bland við fréttaskrif og annað tilfallandi. Ég er passlega sigurviss í ár, en minn tími mun koma fyrr eða síðar.
Jóla kveðjur
Bjarni Rúnarsson, fréttamaður frá Reykjum