- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Desember er genginn í garð með öllum þeim ljóma sem hann býr yfir. Börnin eru orðin spennt yfir komu jólasveina og jólahátíðarinnar sjálfrar sem styttist óðum í. Hefðir áratugana eru margar í kringum jól og áramót. Getum við tekið sem dæmi matarhefðir þar sem sauðkindin á sterkan sess , lambalæri , hryggur og hangikjöt er eitthvað sem lang flestir landsmenn bragða á um jól og áramót. En þetta verður ekki til að sjálfu sér og er desember einmitt undirbúningur sauðfjárbóndans að næstu jólum ef við getum sagt sem svo.
Fengitíð er hafin og er þetta afskaplega skemmtilegur tími í fjárhúsum landsins þar sem fjárbændur keppast við að para ær undir þá hrúta sem þeir telja að geti gefið bestu einstaklingana hvort heldur sem er til ásetnings næsta haust eða til þess að gefa særstu og bestu lærin og hryggina til manneldis. Mikið er spáð og spökulerað því að mörgu er að hyggja í ræktun á sauðfé bændur velta mjög fyrir sér mjólkurlagni og frjósemi því það er jú undirstaðan í rekstri sauðfjárbúa að sem flest lömb komist á legg og að ærnar mjólki vel.
Hér heima í Fjalli er mikið rætt um hrúta og er hrútskráin lesin spjaldanna á milli frá því hún kemur út. Drengirnir okkar Svölu eru miklir áhugamenn um sauðfé og muna orðið öll númer í hverri kind. Held ég að þessi áhugi hafi kviknað mjög mikið á því að við höfum leyft þeim frá upphafi að eiga mislitar kindur sem skera sig úr og auðvelt er að þekkja. Það er gaman að rækta sauðfé alveg einsog önnur dýr og skemmtilegt að vera með breytileika einsog að vera bæði með hyrnt fé og kollótt einnig erum við með tölvert af forystufé . Forystufé er einstakt á heimsvísu og virkilega gaman að fylgjast með því hvernig þessir hæfileikar til að leiða hjörðina nýtast við smalamennskur. Höfum við gaman af því að vera með forystusauði og venja á þeim hornin svo þeir verði sem tignarlegastir. Sauðkindin býr yfir mörgum litaafbrigðum , hvítur, svartur , grár, mórrauður, svartbotnótt ,grábotnótt,morbotnótt, grágolsótt ,morgolsótt, svartgolsótt svo eitthvað sé nefnt en til eru enn fleiri litaafbrigði. Hér erum við byrjuð að sæða með velvöldum hrútum af sæðingarstöðinni og horfum við mest til þess að velja hrúta með góða reynslu og eru sterkir í frjósemi og mjólkurlagni. Einnig höldum við okkur við að velja hrúta sem geta gefið okkur spennandi liti.
Við fjölskyldan horfum bjartsýn á sauðfjárrækt til framtíðar.
Að lokum óska ég sveitungum mínum gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári.
Ingvar í Fjalli