- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Selma og Bjössi búa núna í Árnesi, en bjuggu um tíma í noregi:
Árið 2014 héldum við okkar síðustu jól í Noregi. Við vorum sex manna fjölskylda í pínulítilli íbúð í Osló en vorum svo heppin að hafa fullan aðgang að sumarbústað utan borgarmarkanna sem við nýttum okkur óspart. Þessi jól voru eldri börnin á Íslandi svo við Bjössi vorum alein með litlu börnin okkar tvö, Loga og Hörpu. Ég man samt hversu skrítið það var að eyða fyrstu jólunum okkar ein í Noregi, þar sem við vorum vön því að hafa stórfjölskylduna í kringum okkur öll jólin, en það vandist fljótt og þessi síðustu jól okkar nutum við þess að vera bara fjögur á aðfangadag.
Við héldum íslensk jól, með hamborgarhrygg og meðlæti og íslensku jólasveinarnir þrettán fundu börnin okkar í Noregi og gáfu þeim í skóinn. Börnin fengu að opna einn pakka á hádegi til að létta þeim biðina yfir daginn. Logi fékk snjóbretti í jólagjöf og Harpa sleða, svo við fórum út að leika okkur í snjónum meðan maturinn mallaði í ofninum inn í eldhúsi. Þegar dimmdi þá kveiktum við eld í kamínunni og fórum í betri fötin okkar. Margir hlusta á jólaguðspjallið áður en pakkarnir voru opnaðir en við ákváðum að syngja lag sem er okkur kært, samið af langafa mínum, og heitir Nóttin var sú ágætt ein.
Eftir pakkaflóðið, sem var alveg mátulegt, þá voru jólakortin opnuð og lesin upphátt fyrir alla sem nenntu að hlusta. Kvöldið var notalegt, við foreldrarnir lágum í þægilegum sófanum og horfðum á krakkana leika sér með nýja dótið meðan við nutum ylsins frá kamínunni.
Það var einn merkilegur siður sem við urðum vör við á fyrstu jólum okkar í Noregi og höfðum aldrei heyrt af. Vaninn er að kaupa svokallað julenek, einskonar hafrastráknippi sem bundin voru saman með slaufu í miðjunni. Þau voru svo sett út svo fuglarnir fengju nóg að borða yfir jólin. Hjátrúin segir að fuglunum hafi verið gefin þessi hafraknippi svo þau myndu ekki eyðileggja uppskeru næsta árs. Við allavega tókum upp þennan sið og keyptum julenek öll jólin okkar úti og settum út fyrir utan bústaðinn.
Bústaðurinn okkar stóð við vatn sem var orðið ísi lagt í desember. Fólkið í húsunum kringum vatnið hafði gert skautasvell úti á miðju vatninu og skautabraut sem tengdi öll húsin við skautasvellið. Þetta er siður frá því á árum áður þegar öll húsin við vatnið voru full af börnum og kærleiksríkum foreldrum, svo samgangur var mikill á milli þeirra sem þar bjuggu.
Við létum okkar ekki eftir liggja, ruddum burt snjó á ísnum fyrir framan húsið okkar og fórum í daglegar göngur út vatnið, hvort sem það var á skautum eða skóm. Tímabilið milli jóla og nýárs er kallað romjula í Noregi og þá fengum við vini í heimsókn. Íslensk fjölskylda sem við þekktum komu á annan dag jóla, lítil systkini sem bjuggu í hverfinu okkar í Osló fengu að gista hjá okkur í eina nótt og vinkona kom í heimsókn með dóttur á sama aldri og Harpa. Alltaf var farið út á ísinn þótt frostið væri komið í 14 stig, svo börnin urðu rjóð í kinnum og þáðu heitt kakó eftir útiveruna. Harpa var á þessum tíma á þriðja ári og Logi orðinn 5 ára, svo það var ekki sjálfgefið að stuttir fætur gætu farið langt og vinir þeirra voru á svipuðum aldri. Svo við vorum með hjólakerru sem við settum inn hlýjar gærur fyrir yngri börnin og fengum lánaðan gamlan sparksleða frá nágrönnum til að að leika okkur á ísnum, svo það gerði ekki mikið til þó við værum ekki öll á skautum. Ef okkur datt í hug að vera lengur úti, þá kom sér vel að hafa geymsluhólf í hjólakerrunni sem við settum nestið okkar og brúsa með heitu kakói til að ylja okkur við úti á ísnum eða inni í skógi.
Nú nálgast jól ársins 2022 sem við munum halda á heimili okkar í Árnesi. Við vitum ekki hvort jólin verða hvít, græn eða rauð, en eitt er víst að þau verða gleðileg jól með börnum, dýrum og stórfjölskyldu.
Við óskum sveitunga okkar í Skeiða og Gnúpverjahrepp gleðilegra jóla og þökkum fyrir gamla árið, frá fjölskyldunni í Bugðugerði 1.