- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Fyrir þá sem vita ekki hver ég er þá heiti ég Melissa og bý í Reykjahlíð ásamt kærasta mínum Ingvari Hersi og dóttur okkar Iðunni Sögu.
Ég flutti til Íslands fyrir tæpum 9 árum og hef eytt flestum jólum, áður en dóttir mín fæddist 2019, með fjölskyldu minni í Þýskalandi og byrja þess vegna að segja frá jólunum okkar þar.
Jólin í Þýskalandi eru mjög svipuð og jólin hér. Fyrir mér snúast jólin aðallega um samveru með mínum nánustu, borða góðan mat og bara njóta tímans saman. Svo má ekki gleyma að jólin koma ekki fyrr en að maður er búin að hitta vini sína á jólamarkaði og fá sér ristaðar möndlur, ‘Schmalzgebäck’ og Glühwein. Fjölskyldan mín er mjög afslöppuð þegar það kemur að jólum og við förum ekki að kaupa jólatréð fyrr en á þórláksmessu eða jafnvel aðfangadag og nýtum svo aðfangadaginn í það að skreyta jólatréð,fara til hestanna okkar og gefa þeim eitthvað gott ‘jólanammi’ og förum í göngutúr. Amma og afi koma í kaffi á aðfangdag, við opnum svo pakkana í kringum fjögur, því við bróðir minn gátum aldrei beðið lengur þegar við vorum lítil og eftir það varð það einhvern veginn hefð að vera búin að opna þá fyrir kvöldmat. Svo borðuðum við fjölskyldan kartöflusalat með vínarpylsum í kvöldmat, já ég veit frekar óspennandi, en samt mikið borðaður jólamatur í Þýskalandi. Eftir kvöldmat fórum við systkinin að hitta vini okkar og aðfangadagskvöld endaði oftast niður í bæ á góðu jóladjammi, enda er ég frá Hamborg sem er nokkuð þekkt fyrir næturlífið og eru jólin engin undantekning þar. Maður varð samt að vera hress fyrir fyrsta í jólum þar sem amma stóð allan daginn í eldhúsinu og eldaði gæs með rauðkáli og kartöflum fyrir okkur, annar mjög þekktur og örugglega enn vinsælli jólamatur.
Ég sjálf er mjög hrifin af íslenskum jólum, enda mikið jólabarn og elska allar skreytingarnar og öll ljósin. Þó að mér finnst skammdegi alls ekki skemmtilegasti tími ársins, þá er eitthvað svo fallegt við öll jólaljósin í myrkrinu. Ég er svo heppin að Ingvar hefur mun meiri gaman að svona stúss eldamennsku og sér þess vegna meira og minna um jólamatinn og ég um fjósið á aðfangdegi. Við reynum samt að hafa sem mest rólega daga og eyðum tíma með Iðunni Sögu og öllum þeim fjölskyldumeðlimum sem eru hjá okkur í hvert skipti. Jólamaturinn hefur verið breytilegur hingað til en við vorum ánægð með hamborgarhrygginn í fyrra og ætlum við að hafa hann aftur í ár. Hver veit nema að þetta verði bara fastur jólamatur eftir nokkur ár.
Ég er eiginlega bara spennt að sjá hvernig jólin okkar þróast og hlakka til að sjá hvaða hefðir munu skapa okkar jól í framtíðinni, ég held þó mjög fast í eina ‘hefð’ úr minni fjölskyldu og það er að stressa sig ekki um jólin, enda enginn tilgangur í því og eins og íslendingar segja best: ‘þetta reddast’ hvort eð er.
Frohe Weihnachten frá okkur í Reykjahlíð Til baka