22. desember Jólasaga úr Gaulverjabæjarhrepp

Vilborg hestakona á Eystri Hellum
Vilborg hestakona á Eystri Hellum

Hér kemur saga frá aðfangadagskvöldi í Gaulverjabæjarhreppi (í kringum 1980).

Það var um frostkalt kvöld í svarta myrkri .. rok og snjóhraglandi beljaði á gluggum .. og á þeim tíma voru þeir þannig að maður var óviss um hvort þeir ætluðu inn eða út í heilu lagi með hverri vindhviðu. Það var hreinlega bandbrjálað veður. Klakahröngl hlóðst á glugga og vindurinn hvein og beit og hristi gamla húsið okkar eins og borðtusku.

Mamma horfði oft á rafmagnsmælirinn, passaði upp á að hitakúturinn (sem m.a. hitaði vatnið fyrir sturtuna) eldavélin og bakarofninn væru ekki að keyra allt í botn á sama tíma. Mælirinn þessi bjó yfir lykilupplýsingum um hegðunarmynstur fjölskyldunnar í rafmagnsnotkun og mamma horfði yfirleitt stíft á þennan mæli á kvöldi sem þessu.

Það er fremur óljóst hvaða ár þetta var .. hvorki ég né pabbi munum það ..og mamma er látin, hún var sem sé sú sem allt man. Bróðir minn var a.m.k. ekki fæddur og systir mín man ekki baun frá þessu kvöldi.

Foreldrar mínir höfðu mikið dálæti á rjúpum .. var sjálf því reyndar ekki sammála en tók þátt í gleði þeirra. Pabbi hamaðist við að hamfletta þær og fannst tilvalið að kenna frumburðinum taktana, jú ég tók þátt í þeim gjörningi fyrir pabba .. mögulega vegna þess að það var miklu skemmtilegra að hlusta á sögurnar á meðan heldur en að tileinka mér handbragðið – man þó klárlega enn lyktina, fjaðrirnar sem þvældust fyrir manni og fleira um innra innihald þessa fallega fugls.

Hefð var fyrir því að það væri matreidd bragðgóð sveppasúpa í forrétt og á meðan við hin skruppum í sturtu þá eldaði mamma súpuna. Að venju vorum við öll komin með vatn í munninn því mamma eldaði besta mat í heimi og þá sérstaklega góða sveppasúpu – sú súpa er jólin fyrir mér.

Held að öll höfum við hugsað það sama .. að veðrið væri að gefa í .. stöku sinnum tók maður í næstu borðbrún ef vera skyldi að maður fyki nú út með húsinu sem virtist vera að fara. Húsið var þó timburhús, byggt á þrítugasta áratugnum og hafði þolað ýmislegt. Veðurhamurinn gaf í og gaf í,.. allt hristist meira og skalf og klakahrönglið hlóðst enn meira á gluggum eftir því sem við sáum.

Og þá kom að því – allt húsið sem áður var baðað í ljósi og öllum þeim jólaskreytingum sem tilheyra varð svart, fyrir utan stöku kertaskreytingu. Það má vera að mamma hafi dæst og hvæst því að rjúpurnar áttu að fara næst á eldavélina í rafmagnsskipulaginu.

Andartak var hljótt í húsinu .. en síðan var hlaupið til, kveikt á fleiri kertum og leitað að batteríum fyrir útvarpið ,, .. í hvaða skúffu eru batteríin Erlín mín ?” Við vorum svosum ekki óvön rafmagnsleysi ef maður segir svo og smám saman birti aftur að hluta til.

Pabbi og mamma voru vön að ferðast mikið á sumrum um hálendið á fornfálegum Bronco og áttu einnig gaseldavél sem nú var dregin fram. Þau voru því pollróleg að elda rjúpurnar, lögðu sparistellið á borð og gerðu klárt fyrir hið heilaga aðfangadagskvöld með messuna í bakgrunni.

Mitt í þessu öllu sáu þau bílljós keyra heim afleggjarann og varð hvelft við .. hver væri nú á leiðinni ..hvað væri nú að gerast mitt í þessu bálvirði?

Bílarnir keyrðu síðan upp að rafmagnsstaurunum sem voru á heimatúninu og við öll reyndum að sjá út um glufu til að sjá hvað væri um að vera. Úr bílunum stigu hraustir kappar, vonandi klæddir í síðhaldið og lopavettlinga og hófu að klífa upp staurana. Þarna voru þeir mættir, rafmagnsveitu-karlarnir og vígbúnir að takast á við ísinguna sem var í óða önn að brjóta niður staura og slíta línur í sundur.

Og þessir menn hömuðust og börðu á klakabrynjunum sem voru að sliga allt– börðu sem óðir væru og voru í okkar augum hetjur kvöldsins. Pabbi og mamma hlupu til sem áður, fund til koníaksflösku, makkintos og smákökur í box – og pabbi klæddi sig upp í sinn mesta hamfaraklæðnað og óð til þeirra .. stóð með þeim með staup og nammi og hvatti þá áfram í óveðrinu. Pabbi kom inn seint og um síðir klakabrynjaður en brosandi yfir því að hafa veitt þeim smá þakklætisvott.

Þegar þeir fóru frá okkur var verki þeirra hvergi lokið heldur héldu þeir áfram á næsta bæ og næsta bæ þar á eftir. Man eftir að mamma þakkaði fyrir að engin hefði fengið botnlangakast eða að það væri yfirvofandi keisara - því á þeim tíma var hún í útkallsliði skurðstofunnar á sjúkrahúsinu á Selfossi, átti það til að bruna á ljóshraða (eftir því sem við heyrðum) upp á Selfoss og skvera sig upp í grænmálaðan búning fyrir það sem þurfti að takast á við á þeim tíma.

Skemmst er frá því að segja að kvöldið var fyrir okkur einstakt, maturinn sérstaklega góður (reyndar töluðu foreldrar mínir um það að elda eftir þetta rjúpurnar bara á ferðagaseldavélinni) og kertaljósin ljómuðu um allt. Það má vera að húsið hafi verið orðið kalt og okkur líka, þegar rafmagnið kom aftur á undir morgun.

Oft og mörgum sinnum eftir þetta minntumst við þessa kvölds - og hvað við vorum þakklát þessum ósérhlífnu starfsmönnum rafmagnsveitunnar.

 

Es.

Þegar foreldrar mínir voru í námi í Munich þá sótti pabbi minn um að fá ríkisjörð – og um jólin 1974(sirka) fékk hann símtal um að það hefði gengið eftir og jörðin Eystri Hellur í Gaulverjabæjarhreppi væri hans, á næstu fardögum. Og þá átti hann eftir að segja mömmu frá þessu.. skemmst er frá að segja að hún taldi hann vera alveg vitlausan.. hún væri uppalin á Laugaveginum og annað hvort myndu þau vera þar með sín börn eða áfram í Munich þar sem hún hafði numið skurðstofuhjúkrun. Sem betur fer hafði pabbi þá ótrúlegan sannfæringarkraft. Það má vera að hún hafi dæst og hvæst en fór þó þá með pabba austur fyrir fjall, stoppuðu í Fossnesti, tóku bensín og spurðu til vegar. Pabbi hélt nefnilega að hann væri á leið í Gnúpverjahrepp (eina svipaða nafnið sem hann hafði heyrt) má ske að veröld hans hafi snúist um Njálsgötuna, Munich og Lundarreykjardal/Hvanneyri – að svo komnu máli (ef hann les þetta þá fæ ég eflaust skammir fyrir því ég hef heyrt margar sögur um ferðalög hans til Írlands, Feneyja, Danmerkur .. flugnámið og gröfuvinnuna víða um land en ég læt það liggja á milli hluta).

Þetta gamla, litla og fallega (og þá endurnýjaða) hús brann að nóttu til í september 1995. Í vikunni áður hafði ég farið á fjall, kynnst Sigurði Unnari í Skarði, húsasmið og hestamanni. Ég sjálf flutti ekki heim aftur – en Sigurður Unnar byggði nýtt hús með pabba mínum og fluttu þau, pabbi og mamma inn í nýtt íbúðarhús í maí 1996 á Eystri Hellum.