- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Komið þið sæl
Ég ætla að lýsa fyrir ykkur hvernig undirbúningur jóla er hjá mér. Ég byrja í nóvember með því að þrífa alla glugga. Tek allar gardínur niður og þvæ og hreinsa allt í kring. Ég ólst upp við þetta ásamt því að viðra öll teppi, mottur, púða og annað sem þarfnast viðrunar. Á Þorláksmessu eru allar sængur og koddar viðraðar áður en hrein rúmföt eru sett á. Í dag baka ég minna en ég gerði á árum áður en þá bakaði ég u.þ.b. 8 sortir af smákökum ásamt því að baka lagtertur, tertubotna, marengs og ekki má gleyma jólaformkökunum sem voru með súkkulaði, rúsínum og kokteilberjum. Hér á bæ er hefð fyrir því að fjölskyldan fari upp í fjall að sækja jólatré. Að því loknu hittumst við yfir heitu súkkulaði og borðum smákökur og lagtertur.
Í dag erum við hjónin ein fyrripart aðfangadagskvölds en síðar um kvöldið fáum við hluta af fjölskyldunni í kvöldkaffi. Um hádegisbil á jóladegi kemur nánasta fjölskyldan og borðar saman möndlugraut. Deginum eyðum við saman til kvölds og endum gjarnan á að spila skemmtileg spil.
Jólin eru í mínum huga tími fjölskyldunnar og er ómetanlegt að fá að njóta samvista með sínum nánustu.
Við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og árs og friðar.
Guðrún í Þrándarholti