Af gatnagerðagjöldum -eða sköttum

Háifoss
Háifoss

- Pistill sveitarstjóra úr Gauknum -

Á fundi sveitarstjórnar 11. ágúst sl. var tekinn fyrir úrskurður Samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytisins vegna álagningar gatnagerðargjalda í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Mig langar aðeins til að útskýra í stuttu máli hvað fólst í úrskurðinum og þá niðurstöðu sem sveitarstjórn komst að.

Forsaga málsins er að árið 2019 var lagt á gatnagerðargjald í Skeiða- og Gnúpverjahreppi á eigendur íbúða í Brautarholti og Árnesi í kjölfar þess að lokið var við að leggja bundið slitlag á götur og gangstéttir.  

Leitað var lögfræðiálits við álagninguna og var talið að heimild væri fyrir því að leggja gatnagerðargjöld á hluta þeirra eigna sem um ræddi í hverfunum, þ.e. þær eignir sem hafði verið úthlutað 2004 og síðar skv. ákvæðum þágildandi gjaldskrár sveitarfélagsins sem samþykkt var og birt í B-deild Stjórnartíðinda 10. nóvember 2004. Byggði sú gjaldskrá á þágildandi lögum um gatnagerðargjöld nr. 17/1996 sem kvað á um skyldu sveitarfélaga en ekki heimild þeirra til að leggja á gatnagerðargjöld, líkt og fyrri löggjöf hafði kveðið á um, en hins vegar var ekki skýrt í lögunum hvort þau voru raunverulega ætluð sem skattlagningarheimild eða heimild til álagningar þjónustugjalds. Munurinn þarna á milli felst í því að til að innheimta skatt verður í lögum að vera kveðið á um grunnþætti umrædds skatts, þ.e. skattskyldu, skattstofn og reglur um ákvörðun umrædds skatts, en til grundvallar á álagningu þjónustugjalds þarf einungis einfalda lagaheimild, þ.e. það þarf að koma fram í lögum að heimilt sé að taka gjald fyrir tiltekna þjónustu sem látin hefur verið í té.

Í samþykktri gjaldskrá sveitarfélagsins frá árinu 2004 er kveðið á um álagningu svokallaðs A gatnagerðargjalds, sem var innheimt áður en byggingarleyfi var veitt, og B gatnagerðargjalds, sem var innheimt þegar bundið slitlag var lagt á götur.  Í þágildandi samþykkt sveitarfélagsins var kveðið á um að heimild til að haga greiðslu gatnagerðargjalds þannig að 25% væri greitt innan þriggja mánaða frá undirritun lóðarleigusamnings eða útgáfu byggingarleyfis en 75% þegar lokið væri lagningu bundins slitlags á viðkomandi götu.

Með nýjum lögum um gatnagerðargjöld nr. 153/2006 var tekinn allur vafi af álagningu gatnagerðargjalda og skýrlega kveðið á um að gatnagerðargjald sé skattur og fékk gjaldskrá sveitarfélagsins frá 2004 því nýja lagastoð. Gjaldskráin var þó ekki uppfærð og þar enn heimild til álagningar hins svokallaða B gatnagerðargjalds sem bundið var við tiltekna þjónustu sem sveitarfélagið veitti, þ.e. þjónustugjald.

Í úrskurði ráðuneytisins er talið að þessi heimild sveitarfélagsins til að leggja á hið svokallað B gjald beri ótvírætt með sér að sveitarfélagið sé að leggja á þjónustugjald en ekki skatt líkt og gildandi lög um gatnagerðargjöld kveða á um. Ljóst er að þeirri réttaróvissu var eytt árið 2006 með setningu nýrra laga og því hafi ákvæðið í samþykkt sveitarfélagsins skort fullnægjandi lagastoð. Álagningu gatnagerðargjalda og greiðslu gatnagerðargjalda skal almennt vera lokið fljótlega eftir upphaf byggingaframkvæmda. 14 ár hafi hins vegar liðið frá því að stofn til álagningar gatnagerðargjalds myndaðist fram til þess tíma að sveitarfélagið krafðist greiðslu á 75% gjaldsins.

Leitað var álits hjá Lögmönnum Suðurlands ehf. á framangreindum úrskurði. Að mati Lögmanna Suðurlands byggist niðurstaða ráðuneytisins líklega meira á sanngirnissjónarmiðum heldur en rökstuddri lögfræðilegri niðurstöðu þó nokkuð mikill vafi sé uppi um lagagrundvöll álagningar gatnagerðargjaldanna. Það að fara í málaferli til þess að reyna að fella fyrirliggjandi úrskurð úr gildi yrði hins vegar mjög kostnaðarsamt og tímafrekt og er þannig mjög íþyngjandi fyrir sveitarfélagið og ekki síst íbúa sveitarfélagsins. Horfði sveitarstjórn m.a. til þeirra sjónarmiða við bókun sína á fyrrnefndum fundi sveitarstjórnarinnar.

Það er nokkuð ljóst að þessi úrskurður er þó þungbær fyrir rekstur sveitarfélagsins, tekið hefur verið tillit til niðurstöðunnar í viðauka við fjárhagsáætlun og uppgjör farið fram á áður greiddum gatnagerðargjöldum. Ný samþykkt um gatnagerðargjöld í þéttbýli Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur einnig litið dagsins ljós með frekari lagastoð í lög um gatnagerðargjöld nr. 153/2006.

Það er mikilvægt að við leggjum þetta mál að baki og horfum björtum augum áfram veginn við uppbyggingu og framtíðarsýn sveitarfélagsins. Skólastarf leik- og grunnskóla er nú byrjað aftur eftir sumarfrí og ánægjulegt að að sjá og heyra af börnunum í leik og starfi. Fé er nú komið að mestu af fjalli, en afréttasvæði okkar er eitt það lengsta á Íslandi, og réttir hafa farið fram. Framkvæmdir við byggingu 5 íbúða raðhúss í Árnesi er þegar hafnar og fleiri framkvæmdir fyrirhugaðar á næstunni í sveitarfélaginu. Vonandi getum við með vetrinum farið að lifa lífinu aftur óháð Covid-19 og þeim takmörkunum sem sá sjúkdómur hefur sett á samfélagið og skipulagt samkomuhald eins og þorrablót og aðrar ánægjulegar samverustundir.

Með bestu kveðju

Sylvía Karen Heimisdóttir, sveitarstjóri.