AUGLÝSING UM SKIPULAGSMÁL

Gróinn garður
Gróinn garður

Bláskógabyggð, Grímsnes-og Grafningshreppi, Hrunamannahreppi, Skeiða-og Gnúpverjahreppi, Flóahreppi og Ásahreppi

Aðalskipulagsmál

Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér kynnt lýsing fyrir eftirfarandi aðalskipulagsbreytingu:

1. Breyting á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2004-2016. Reykholt í Þjórsárdal

Lögð fram til kynningar lýsing vegna breytingar á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps sem nær til svæðis við Reykholt í Þjórsárdal, umhverfis Þjórsárdalslaug. Fyrirhugað er að fara í uppbyggingu baðstaðar, veitingahúss og gistingu á svæðinu. Í gildandi aðalskipulagi er svæðið skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota en með breytingunni er fyrirhugað að breyta því í svæði fyrir verslun- og þjónustu.

Deiliskipulagsmál

Samkvæmt 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru hér kynntar lýsingar fyrir eftirfarandi deiliskipulagsverkefni:

2. Deiliskipulag fyrir nýtt lögbýli, Hólmasel 2, á um 58 ha svæði í Flóahreppi.

Kynnt er lýsing vegna fyrirhugaðs deiliskipulags fyrir nýtt lögbýli sem stofnað verður á um 58 ha spildu úr landi Hólmasels og mun fá nafnið Hólmasel 2. Deiliskipulagið sjálft mun ná til 14,3 ha svæðis næst Villingaholtsvegi og verður þar gert ráð fyrir byggingu íbúðarhúss, hesthúss og skemmu ásamt húsnæði fyrir gesti og starfsfólk.

3. Deiliskipulag fyrir nýtt lögbýli, Leyndarholt, á 7,5 ha spildu úr Brjánsstöðum í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Kynnt er lýsing vegna fyrirhugaðs deiliskipulags fyrir nýtt lögbýli sem stofnað verður á um 7,5 ha spildu úr landi Brjánsstaða og mun fá nafnið Leyndarholt. Fyrirhugað er að byggja á landinu íbúðarhús, skemmu og hesthús.

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru hér auglýstar tillögur að eftirfarandi deiliskipulagsáætlunum:

4. Deiliskipulag smáhýsa með náttúrulaugum á svæði úr landi Tjarnar í Bláskógabyggð.

Auglýst er tillaga að deiliskipulagi sem nær til um 14,5 ha svæðis í landi Tjarnar rétt norðan við vegamót Reykjavegar og Tjarnarvegar. Samkvæmt tillögunni er fyrirhugað að byggja smáhýsi með setlaugum, meðferðarhús, móttöku- og þjónustuhús auk starfsmannaíbúða.

5. Deiliskipulag fyrir nýtt lögbýli sem kallast Sæholt úr landi Dalbæjar í Flóahreppi.

Auglýst er tillaga að deiliskipulagi fyrir nýtt lögbýli á 25,4 ha svæði úr landi Dalbæjar í Flóahreppi sem gert er ráð fyrir að fái heitið Sæholt. Landið liggur að Gaulverjabæjarvegi nr. 33 norðan við bæjartorfur Vestri- og Eystri-Hellna. Gert er ráð fyrir byggingu íbúðarhúss auk landbúnaðarbygginga.

6. Deiliskipulag fyrir tvö lögbýli úr landi Lækjarbakka í Flóahreppi.

Kynnt er tillaga að deiliskipulagi fyrir tvö ný lögbýli úr landi Lækjarbakka land 1 lnr. 210365. Skipulagssvæðið nær til um 11,5 ha svæðis sem liggur að Villingaholtsvegi nr. 305 en heildarstærð lögbýlana tveggja er um 67 ha. Gert er ráð fyrir að á hvoru lögbýli fyrir sig verði heimilt að byggja íbúðarhús, hesthús, skemmu og reiðhöll.

Ofangreindar skipulagstillögur liggja frammi til kynningar á skrifstofu skipulagsfulltrúa, Dalbraut 12, Laugarvatni á skrifstofutíma frá 9-16. Að auki er hægt að nálgast nánari lýsingu á tillögunum og tillögurnar sjálfar á vefslóðinni http://www.sbf.is.

Skipulagstillögur 1-3 eru í kynningu frá 5. til 19. október 2017 en tillögur 4-6 frá 5. október til 17. nóvember 2017. Athugasemdir og ábendingar við tillögur 1-3 þurfa að berast skipulagsfulltrúa í síðasta lagi 19. október 2017 en 17. nóvember fyrir tillögur 4-6. Athugasemdir og ábendingar skulu vera skriflegar.

 

Pétur Ingi Haraldsson

Skipulagsfulltrúi

petur@utu.is