Auglýsing um skipulagsmál

Samkvæmt 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér kynnt eftirfarandi skipulagslýsing vegna breytinga á aðalskipulagi auk tillögu aðalskipulagsbreytingar:

1. Aðalskipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps; Minni-Ólafsvellir og Vesturkot; Aðalskipulagsbreyting – 2310031
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti á fundi sínum þann 22. maí 2024 að kynna skipulagslýsingu sem tekur til breytingu á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017-2029. Aðalskipulagsbreytingin nær yfir hluta Minni-Ólafsvalla L166482 og hluta Vesturkots L166500. Gert er ráð fyrir að hluta landbúnaðarsvæðis verði breytt í íbúðarbyggð (um 0,4 ha) og verslunar- og þjónustusvæði (5 ha). Heimilt verður að vera með 2 ný íbúðarhús og 3 íbúðir og gistingu í allt að 10 gestahúsum. Hvert hús getur verið allt að 60 m2 að stærð og heildarfjöldi gesta allt að 70. Einnig er stefnt að því að vera með ýmiss konar afþreyingu, einkum tengda hestum. Fyrir er á Minni-Ólafsvöllum íbúðarhús, skemma og geymsluhúsnæði og verður áfram heimiluð föst búseta. Samhliða breytingu aðalskipulags verður lagt fram deiliskipulag fyrir svæðið.

2. Sandártunga; Skilgreining efnistökusvæðis; Aðalskipulagsbreyting – 2401008
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti á fundi sínum þann 22. maí 2024 að kynna tillögu aðalskipulagsbreytingar sem tekur til skilgreiningar á nýju efnistökusvæði í Sandártungu í Þjórsárdal. Efni úr námunni verður einkum nýtt í fyrirhugaða færslu á hluta Þjórsárdalsvegar. Bæði er þörf á efni í veginn og einnig grjót í grjótvörn utan á hann. Hluti efnis verður nýttur í nýjan Búðaveg og eftir atvikum í aðrar framkvæmdir í sveitarfélaginu. Heimilað verður að taka allt að 200.000 m3 af efni á u.þ.b. 4 ha svæði.
Samkvæmt 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér auglýst tillaga aðalskipulagsbreytingar eftirfarandi skipulagsáætlunar:

3. Flóahreppur og Árborg; Selfosslína 1; Breytt lega loftlínu SE1; Aðalskipulagsbreyting – 2311074
Sveitarstjórn Flóahrepps samþykkti á fundi sínum þann 7. maí 2024 að auglýsa tillögu aðalskipulagsbreytingar er varðar breytta legu raflínu innan aðalskipulags Flóahrepps og Árborgar. Landsnet ráðgerir að Selfosslína 1 (66 kV) verði tekin niður á kaflanum frá núverandi tengivirki á Selfossi að mastri nr. 99 sem er norðan við Hellisskóg, norðan Ölfusár. Í staðinn verði lagður 132 kV jarðstrengur. Nýr jarðstrengur mun í megindráttum fylgja nýrri legu Suðurlandsvegar norðaustan við Selfoss og fara um nýja brú yfir Ölfusá, fylgir þaðan Ölfusá til norðurs. Áætluð lengd jarðstrengs frá tengivirki á Selfossi að mastri nr. 99 er um 3,1 km. Núverandi háspennulína og fyrirhugaður jarðstrengur liggja um sveitarfélagið Árborg og Flóahrepp. Breytingin nær til þéttbýlis á Selfossi og dreifbýlis beggja vegna Ölfusár, norðan og austan við Selfoss. Breytingin nær einnig til dreifbýlis í Flóahreppi. Samhliða eru sveitarfélagsmörk innan aðalskipulags Flóahrepps leiðrétt í takt við skilgreind mörk sveitarfélaganna innan aðalskipulags Árborgar. Að öðru leyti en því sem hér er greint frá gilda skilmálar gildandi aðalskipulags.

 


Samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru hér auglýstar tillögur eftirfarandi deiliskipulagsáætlana:

4. Háifoss og Granni; Áningarstaður ferðamanna; Deiliskipulag – 2403048
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti á fundi sínum þann 22. maí 2024 að auglýsa tillögu sem tekur til áningarstaðar við Háafoss, innst í Þjórsárdal, á Gnúpverjaafrétti. Háifoss og Granni eru á náttúruminjaskrá sem friðlýst náttúruvætti. Stærð skipulagssvæðisins er um 23,5 hektarar. Markmið með gerð deiliskipulags er að setja ramma utan um uppbyggingu svæðisins og setja skilmála um framtíðaruppbyggingu á innviðum s.s. bílastæða, göngustíga, útsýnissvæða og byggingarreits fyrir þjónustuhús.

5. Giljabakki (Minni-Bær land) L169227; Skilgreining landsspildu; Íbúðarhús, hesthús og skemma/skýli; Deiliskipulag – 2405018
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkti á fundi sínum þann 22. maí 2024 að auglýsa tillögu nýs deiliskipulags sem tekur til landsspildunnar Minni-Bæjar L169227, sem verður Giljabakki, í samræmi við stefnumörkun skipulagsins. Í skipulaginu eru skilgreindar heimildir sem taka til uppbyggingar íbúðarhúsa, hesthúss og skemmu/skýlis.

Ofangreindar skipulagstillögur liggja frammi til kynningar á skrifstofu skipulagsfulltrúa, Hverabraut 6, Laugarvatni á skrifstofutíma embættisins. Að auki er hægt að nálgast tillögur á vefslóðinni www.utu.is og á skipulagsgátt Skipulagsstofnunar skipulagsgatt.is/.


Mál 1 - 2 innan auglýsingar eru skipulagsmál í kynningu frá 30. maí 2024 með athugasemdafresti til og með 20. júní 2024.
Mál 3 - 5 innan auglýsingar eru skipulagsmál í auglýsingu frá 30. maí 2024 með athugasemdafrest til og með 12. júlí 2024.

Athugasemdum og ábendingum skal skila skriflega á skrifstofu UTU Hverabraut 6, Laugarvatni eða með tölvupósti á netfangið skipulag@utu.is. Bendum jafnframt á að málin eru aðgengileg á skipulagsgátt Skipulagsstofnunar skipulagsgatt.is/.

Vigfús Þór Hróbjartsson
Skipulagsfulltrúi UTU