Breytt fyrirkomulag á söfnun lífræna úrgangsins

Lífræna fatan
Lífræna fatan

Eins og fram hefur komið í Gauknum og á íbúafundum stendur til stefnubreyting á vinnslu lífræns úrgangs sveitarfélagsins. Aðal markmið breytingarinnar voru tvö: annarsvegar að hætta að keyra lífrænt efni út úr sveitarfélaginu og hinsvegar að ná að þjónusta fleiri í sveitarfélaginu en við höfum náð að gera undanfarin ár. Sveitarfélagið er einnig skyldugt, samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs að flokka lífræna ruslið okkar frá blandaða ruslinu með sem bestri tækni og kostur er til að minnka álag á umhverfið. 

Nú þegar við förum að vinna lífræna úrganginn í moltu hér heima, þurfum við að breyta fyrirkomulagi á söfnuninni til þess að losna við maíspokana  og ekki síður að gera vinnuna aðeins gerlegri fyrir starfsmennina okkar. 

Þegar ný söfnun fer í gang, dreifum við litlum fötum sem hægt er að safna lífræna úrganginum í. Fatan er með þéttu loki svo ekki kemur lykt úr henni nema rétt á meðan hún er opnuð.  Íbúar fylla svo í fötuna eftir því sem fellur til hjá hverjum og einum og fara svo með hana á grenndarstöð í Árnesi eða Brautarholti eða safnskáp fyrir fötur í Áshildarmýri fyrir þá sem er á þeirri leið, -þar verður hægt að skilja fötuna fulla eftir og nálgast nýja fötu. 

Fyrir stærri rekstraraðila, eins og gistiheimili og mötuneyti er hægt að fá stærri fötur en þær sem dreift verður á heimili. 

Að vinna lífræna úrganinn sjálf, nota jarðgerðarvélina og að setja söfnunarkerfið upp eins og það er hugsað í dag er tilraunaverkefni sem ekki hefur verið gert í sveitarfélagi áður í þessari mynd.  Það er því bæði mikilvægt að nálgast verkefnið með opnum huga en ekki síður mikilvægt að koma til okkar ábendingum um hverju má breyta eða laga til að kerfið virki sem best fyrir alla.  Á heimasíðunni okkar er komin upplýsingasíða um kerfið og vinnsluna en þar má finna ýmsar upplýsingar t.d. um hvað má fara í tunnurnar, hvar er hægt að skipta út fötum, hvernig vélin virkar og svör við algengum spurningum. Þangað verður líka sett upp form til að senda ábendingar beint til okkar. Síðuna um jarðgerðina má finna á slóðinni www.skeidgnup.is/jardgerdur   -en einnig má senda ábendingar og spurningar á netfangið hronn@skeidgnup.is