- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Frétt af www.sveitir.is
Verkefnið Fjölmenningarsamfélag í Uppsveitum Árnessýslu er á fullri ferð en verkefnið hefur það að markmiði að skapa samfélag þar sem fólk af ólíkum uppruna getur blómstrað saman. Búið er að halda fjóra vinnustofur þar sem fjallað var um fjölmenningu og voru þátttakendur beðnir um að skilgreina hvað væri fyrirmyndar fjölmenningar samfélag og hvaða verkefni sveitarfélögin og íbúar þeirra þyrftu að vinna að til að Uppsveitir Árnessýslu yrðu slíkt. Öll sveitarfélögin fjögur í Uppsveitum vinna að verkefninu og eru verkefnastjórar Gunnar Gunnarsson verkefnastjóri í Heilsueflandi Uppsveitir, Guðrún Ása Kristleifsdóttir verkefnastjóri Heilsueflandi samfélag í Grímsnes- og Grafningshreppi og Lína Björg Tryggvadóttir Byggðarþróunarfulltrúi Í Uppsveitum Árnessýslu.
Haldnar voru fjórar vinnustofur og var sú fyrsta haldin í Félagsheimilinu á Flúðum þann 12. júní. Næsta var haldin í Félagsheimilinu á Borg þann 19. júní, sú þriðja var haldin í Reykholti þann 20. júní og sú fjórða var haldin í Félagsheimilinu í Árnesi þann 21. júní og mættu í heildina 38 manns sem öll höfðu mikið til málanna að leggja. Við þökkum öllum þeim sem tóku þátt í vinnustofunum og lögðu sitt af mörkum til að móta fjölmenningarsamfélag í Uppsveitum Árnessýslu. Þeirra framlag er ómetanlegt og mun hjálpa til við að skapa betra samfélag fyrir alla.
Samhliða þessum fundum hefur verið í gangi könnun þar sem verið er að kanna upplifun íbúa á þjónustu sveitarfélaganna og hversu velkomnir íbúar Uppsveitanna upplifa sig í samfélaginu. Ennþá er hægt að taka þátt í könnuninni með því að smella hér en könnunin er á fjórum tungumálum sem eru enska, íslenska, pólska og rúmenska og hvetjum við alla til að taka þátt.
Nú þegar vinnustofurnar eru búnar tekur við að vinna út úr þeim gögnum sem safnast hafa og verður unnin skýrsla með tillögum að aðgerðum fyrir næsta vetur sem kynnt send verður til sveitarfélaganna. Einnig er stefnt að því að halda fjölmenningarveislu í vetur, þar sem íbúar geta komið saman og fagnað fjölbreytileikanum.