- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Viðamiklar framkvæmdir fóru fram við Vatnsfellsstöð í sumar. Vatnsfellsskurður var lagaður fyrir neðan lokuvirki Þórisvatnsmiðlunar, auk þess sem tjakkar voru endurnýjaðir í lokuvirkinu. Við reynum ávallt að sameina nokkur verkefni ef mögulegt er, til að lágmarka þann tíma sem þarf til að stöðva vélar eða loka mikilvægum aðveituleiðum.
Lungi framkvæmdarinnar fór fram á tímabilinu 21. júní til 20. júlí, þegar lónið var tæmt og vinnulokur settar niður, þótt undirbúningur hafi staðið yfir í marga mánuði þar á undan. Á meðan stöðin var ekki í rekstri var tíminn nýttur til umfangsmikils annars viðhalds. Viðgerðin gekk mjög vel. Nýir tjakkar voru settir niður, steypuskemmdir lagaðar og skurðurinn bættur til muna.
Virkjunarleyfi í höfn fyrir Hvammsvirkjun
Orkustofnun gaf út virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun um miðjan september. Síðan þá hefur verið unnið að umsókn og útgáfu framkvæmdaleyfa hjá sveitarfélögunum,
Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Þau leyfi komu um og eftir miðjan október. Þar með eru öll leyfi sem þarf til að hefja framkvæmdir komin í hús.
Unnið hefur verið að undirbúningsframkvæmdum í kringum Hvamm 3, sem er jörð í eigu Landsvirkjunar við enda Hvammsvegar. Hreinsunarstarf á svæðinu hefur
gengið vel, en gamla íbúðarhúsið var fjarlægt ásamt útihúsum sem voru orðin illa farin. Framkvæmdir við Hvammsveg hafa einnig gengið mjög vel. Vegurinn hefur
verið uppbyggður og endurnýjaður og lagður slitlagi. Kynningarfundir um næstu skref framkvæmdanna verða haldnir í nóvember, þann 19. á Landhóteli í Rangárþingi ytra og þann 20. í Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Þeir hefjast klukkan 17.30 og standa til kl. 19.
Farið verður yfir tímalínu framkvæmda, auk þess sem Vegagerðin kynnir næstu vegaframkvæmdir.
Fallpípur tæmdar í Búrfelli
Vatn fyrir vélar Búrfellsstöðvar 1 kemur í gegnum tvær fallpípur sem ganga lárétt frá Bjarnalóni í gegnum Sámsstaðamúla og falla svo 120 metra niður að stöðvarhúsinu, þar sem þær taka 90 gráðu beygju og skiptast svo í þrjár greinar hvor; eina fyrir hverja vél. Það er er því stór aðgerð að tæma þessar pípur til að geta haft eftirlit með innra byrði þeirra. Það var
gert í sumar og þá kom í ljós að göngin og pípurnar sjálfar voru í mjög góðu ásigkomulagi. Samhliða þessu verkefni var unnið í spennuvirki stöðvarinnar. Veggir á milli spenna
voru hækkaðir til að geta betur tekist á við eld ef að hann kemur upp. Þessar úrbætur voru mögulegar þar sem margar vélar stöðvarinnar voru stöðvaðar á meðan fallpípan var tæmd.
Verkefni sem þetta er mjög flókið og umfangsmikið. Innlendir og erlendir verktakar komu að því, ásamt fjöldanum öllum af starfsfólki svæðisins og öðrum sérfræðingum úr fyrirtækinu.
Undirbúningur við Búrfellslund heldur áfram
Orkustofnun afgreiddi virkjunarleyfi vegna vindorkuvers við Vaðöldu (Búrfellslund) í ágústmánuði. Rangárþing ytra samþykkti framkvæmdaleyfi fyrir fyrstu hluta verkefnisins í september, en það tekur til vegagerðar og annars undirbúnings. Undirbúningur getur því haldið áfram af fullum krafti. Hingað til hefur hann falist í jarðtæknirannsóknum og slóðagerð.
Vegagerð hófst í september og mun ljúka næsta sumar. Útboð vegna mannvirkjagerðar hefst í desember og stefnt er að því að framkvæmdir geti hafist í apríl 2025.
Uppsetning vindmylla gæti þá hafist vorið 2026 og staðið yfir næstu tvö sumur eftir það.
Orkuslóð komin upp
Ný upplýsingaskilti voru sett upp á Þjórsársvæðinu í haust og bera þau nafnið Orkuslóð. Nú geta allir sem fara um svæðið stoppað á sjö stöðum til að fræðast um starfsemi Landsvirkjunar á svæðinu og öryggismál sem tengjast henni. Við vonumst til þess að þessi viðbót verði ferðafólki gagnleg. Verkefnið var unnið í góðu samstarfi við sveitarfélögin og aðra hagsmunaaðila á svæðinu. Orkuslóðin mun þróast áfram í framtíðinni eftir því sem þörf er á og notendur og hagsmunaaðilar hafa áhuga á.
Megum við hóa í þig?
Við hjá Landsvirkjun viljum komast í samband við minni fyrirtæki, einyrkja eða einstaklinga sem gætu tekið að sér ýmis tilfallandi verkefni með skömmum fyrirvara á athafnasvæði okkar á Suðurlandi. Við óskum eftir því að allt áhugasamt fólk, sem hefur hug á að vera á lista yfir tiltæka verktaka, skrái sig á sérstakri skráningarsíðu: landsvirkjun.is/verktakar-oskast