Fréttamolar frá Landsvirkjun á Þjórsársvæði

Búrfell í Þjórsárdal
Búrfell í Þjórsárdal

Bætt vatnsstaða hefur jákvæð áhrif

 Vatnsstaðan á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu hefur batnað töluvert í leysingum og vatnsveðri síðustu vikna, en sem kunnugt er hefur vatnsbúskapurinn verið með lakasta hætti að undanförnu og vatnsárið sem endaði í október það versta í sögu Landsvirkjunar. Skerðingum sem voru í gangi fyrir áramót hefur nú verið hætt með bættum horfum. Raforkuvinnsla Þjórsársvæðis árið 2024 var um 6.200 GWst, en til samanburðar var hún 6.860 GWst árið 2023 og 6.800 GWst árið þar á undan

Ný bílkrani

 Eftir að hafa þjónað Búrfellssvæðinu frá upphafi, eða frá árinu 1968, hefur American grindarbómukrananum verið lagt. Það má heita ótrúleg ending á svona tæki, en þennan langa líftíma má þakka því að alla tíð var hugsað mjög vel um kranann og viðhaldi sinnt samviskusamlega. En allt hefur sinn tíma og endurnýjun var orðin brýn, enda úrelda öryggiskröfur nútímans þessi gömlu tæki. Eftir vel heppnað útboðsferli var gengið til samninga við Rukó um kaup á nýjum Liebherr Ltm 1090-4.2 krana. Nú á bara eftir að koma í ljós hvort ending nýju græjunnar verði eins góð og á Ameríkananum.

 Styrkir til flottra verkefna úr samfélagssjóði

 Í desember var úthlutað úr samfélagssjóði Landsvirkjunar í þriðja sinn á árinu 2024. Fjöldi flottra verkefna á svæðinu fékk styrk, þar á meðal Skákverkefni Laugalandsskóla, Leikdeild Ungmennafélags Gnúpverja og verkefnið Hreyfing alla ævi hjá Ungmennafélagi Hrunamanna. Fjölmörg önnur verkefni víðs vegar um landið hafa fengið styrki úr sjóðnum, en áhersla er lögð á samfélagslega mikilvæg verkefni í nærsamfélögum Landsvirkjunar.

Umsóknarfrestur vegna næstu úthlutunar er til 31. mars, en um sjóðinn má lesa á vefnum:

landsvirkjun.is/samfelagssjodur

Samningur  FSu og Landsvirkjunar framlengdur

 Samningur um stuðning Landsvirkjunar við iðnnnám við Fjölbrautaskóla Suðurlands hefur verið framlengdur til þriggja ára, en hann var gerður til reynslu á síðasta ári. Samningurinn gerir ráð fyrir að tekið sé á móti allt að tveimur iðnnemum á hverju sumri á Sogssvæðinu, öðrum í rafmagnsgreinum og hinum í vélgreinum. Þessir nemar eru ekki aðeins í sumarvinnu á Sogssvæðinu heldur eru þeir einnig studdir við gerð ferilbókar sinnar. Ferilbók er núna orðin hluti af iðnnáminu og forsenda þess að nemendur geti klárað sveinsprófið. Í bókina er færð staðfesting á ýmsum verkefnum sem nemarnir vinna að í starfi sínu, en þar er einnig fjallað um öryggismál og vinnustaðarmenningu. Þar hefur Landsvirkjun mjög margt fram að færa.

Stuðningnum hefur verið mjög vel tekið í Fsu, nemendur jafnt sem kennarar verið mjög ánægðir með framlag Landsvirkjunar og starfsfólk okkar að sama skapi ánægt með að geta orðið að liði.

Unnið að vinnubúðum við Hvamm

 Undirbúningsframkvæmdir vegna Hvammsvirkjunar halda áfram af fullum krafti, þrátt fyrir óvissu í leyfismálum. Aðalverktakar framkvæmdanna, Fossvélar, vinna að því að koma upp eigin vinnubúðum og stefnt er að því að þær verði tilbúnar í vor. Verktaki vinnur einnig að undirbúningi efnisvinnslu úr efsta hluta frárennslisskurðar virkjunarinnar, svokallaðri námu A, auk þess sem unnið er að vegagerð með fyllingarefni úr námunni. Verkefnið gengur því vel þrátt fyrir tímabundnar tafir, en óveðrið þann 6. febrúar setti strik í reikninginn og hægði tímabundið á framkvæmdum. Fjarskiptamastur hefur verið reist á vinnusvæðinu og mun það auka öryggi í samskiptum til muna. Reiknað er með því að nýr fjarskiptabúnaður verði virkur í vor eða snemmsumars.

Búrfellslundur heitir nú Vaðölduver

 Framkvæmdir við Vaðölduver, sem áður var kallað Búrfellslundur, hófust á síðasta fjórðungi ársins 2024. Skrifað var undir samning við Borgarverk vegna vegaframkvæmda í byrjun október og þann 23. þess mánaðar hófust verkframkvæmdir formlega, þegar orku- og umhverfismálaráðherra sáði fyrstu vindmyllufræjunum.

 

Vegaframkvæmdir héldu áfram eins og veður leyfði, en undanfarið höfum við ásamt Vegagerðinni skoðað hvaða vegbætur þurfi að fara í á vegakerfi Suðurlands, eins og til dæmis að styrkja Landveg, til að tryggja örugga flutningaleið. Gert er ráð fyrir að farið verði í þær framkvæmdir á árinu 2025.

Stórum áfanga var náð í nóvember, þegar samið var við Enercon Gmbh um hönnun, framleiðslu og uppsetningu á vindmyllunum. Einnig var samið við fyrirtækið um þjónustu við vindorkuverið til að minnsta kosti 15 ára.

Haldnir voru kynningarfundir vegna verkefnisins í Árnesi og Landhóteli í nóvember. Fundirnir voru vel sóttir og góðar umræður spunnust. Þá var einnig haldinn fundur í janúar þar sem kynnt var hvernig hægt væri að taka þátt í útboði um gistingu í nærsamfélagi í tengslum við framkvæmdirnar.

Metfjöldi umsókna um sumarstörf

 Mikill og ánægjulegur áhugi er á sumarstörfum ungmenna á aflstöðvum Landsvirkjunar. Metfjöldi umsókna barst þetta árið, eða um 330, sem er mikil fjölgun frá fyrra ári. Það er ljóst að því miður getum við ekki orðið við beiðnum allra, en við munum vinna hratt og vel úr umsóknum á næstu dögum