- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Íbúafundur verður haldinn í Árnesi miðvikudaginn 3. Maí kl. 20:00.
Dagskrá:
1. Ársreikningur Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2022.
Haraldur Örn Reynisson, endurskoðandi frá KPMG, kynnir ársreikninginn og fer yfir helstu niðurstöður.
2. Framtíðarhorfur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi – mikil uppbygging framundan
Sveitarstjóri fer yfir framtíðarhorfur og þær fjölmörgu áskoranir sem eru framundan. Hvernig sjáum við uppbyggingu næstu ára gerast og hvaða getu sveitarfélagið hefur til að tryggja að innviðir samfélagsins haldi í við aukna fjölgun íbúa.
3. Skólastefna Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
Formaður skólanefndar og sveitarstjóri kynna drög að skólastefnu.
Bókun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps 19. apríl 2023 um skólastefnu Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
Vinna við nýja skólastefnu hefur verið í gangi í allan vetur. Lögð fram drög að nýrri skólastefnu til framtíðar. Meginmarkmið þessarar skólastefnu er að í sveitarfélaginu sé framúrskarandi skólastarf. Skólarnir verði í fremstu röð um framsækið starf, lifandi og sveigjanlegt námsumhverfi. Stefnt er að því á næstu árum að leggja enn meiri áherslu á samstarf, skapandi starf, nýsköpun, fjölbreytta kennsluhætti og umhverfis- og sjálfbærnimennt í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Litið er svo á að skólastarf sé alltaf hægt að bæta og að gæðaskólastarf byggist öðru fremur á því að stöðugt sé leitað leiða til að gera það enn betra.
Í samvinnu við stjórnendur, starfsfólk, nemendur og foreldra er stefnt að því að búa skólunum fyrirmyndar aðstöðu og umhverfi. Hafinn verði undirbúningur að því að Þjórsárskóli verði í framtíðinni heildstæður grunnskóli og að styrkja enn frekar núverandi stöðu Leikholts. Endurhanna þarf Þjórsárskóla með hliðsjón af nýjum áherslum og huga að möguleikum á að reisa íþróttahús við skólann og Fablab/verknámshús.
Lykillinn að uppbyggingu sveitarfélagsins til framtíðar er öflugur skóli og eru markmiðin skýr, að búa til besta skóla á Íslandi. Í dag eru u.þ.b. 40 börn á leikskólaaldri og 70 börn á grunnskólaaldri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Gangi húsnæðisáætlun sveitarfélagsins eftir þá má gera ráð fyrir að fjölgun barna verði veruleg. Getum við gert ráð fyrir að fjöldi verði:
Eftir 5 ár, 2028, í leikskóla 65 börn, í grunnskóla 115 börn.
Eftir 10 ár, 2033, í leikskóla 90 börn, í grunnskóla 160 börn.
Mikilvægt er því að hefja undirbúning að uppbyggingu skólastarfs til framtíðar og stefna á að í sveitarfélaginu verði rekinn heildstæður grunnskóli 1-10.bekk í Árnesi, leikskóli í Árnesi og leikskólinn Leikholt í Brautarholti verður efldur.
Ársreikning Skeiða-og Gnúpverjahrepps 2022 má finna hér
Haraldur Þór Jónsson, sveitarstjóri