Nýárspistill frá oddvita

Haraldur Þór Jónsson oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps
Haraldur Þór Jónsson oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps

Ég vil óska öllum gleðilegs nýs árs með þakkir fyrir góðar stundir á liðnu ári. Upphaf á nýju ári markar alltaf tímamót, bæði með því að gera upp liðið ár ásamt því að setja sér ný markmið fyrir komandi ári. Við getum verið bjartsýn fyrir framtíðinni enda mikil uppbygging framundan í okkar samfélagi.

Gaukurinn kom ekki út síðasta haust, en eftir að Íslandspóstur hætti að dreifa fjölpósti síðustu áramót fundum við vel fyrir því að lesturinn minnkaði verulega. Eitt af áramótaheitunum er því að efla upplýsingamiðlun í gegnum samfélagsmiðla á nýju ári. Framvegis mun ég skrifa mína pistla reglulega á heimasíðunni og samfélagsmiðlum. Við munum því sjá breytingar á komandi vikum, en öllum fréttum og upplýsingum verður miðlað í gegnum heimasíðu sveitarfélagsins ásamt helstu samfélagsmiðlum. Ég vil því hvetja sem flesta til að fylgja Skeiða- og Gnúpverjahreppi á samfélagsmiðlum ásamt því að líta reglulega inná heimasíðuna okkar.

Nú er hafið mikið framkvæmdatímabil í sveitarfélaginu og á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Rauðukambar hafa verið í miklum framkvæmdum í haust með veglagningu frá Selhöfða upp að Rauðukömbum, uppsetningu á vinnubúðum ásamt því að bora fyrir heitu og köldu vatni. Þar mun uppsteypa Fjallabaðanna hefjast næsta vor. Landsvirkjun er komin af stað með framkvæmdir við Hvammsvirkjun og Búrfellslund ásamt því að framkvæmdir við Sigölduvirkjun eru áætlaðar að hefjist á árinu. Vinna við Búðafossveg hefst strax í vor og einnig styttist í að framkvæmdir við færslu á Þjórsárdalsvegi fari í gang. Við munum því finna áþreifanlega fyrir auknum framkvæmdum og umsvifum á svæðinu næsta sumar.

Framkvæmdir við íþróttamiðstöðina eru komnar vel af stað. Steypuvinna hefst í janúar, en auðvitað mun veðrið stýra ferðinni yfir háveturinn. Í vor verður framkvæmdin komin á fulla ferð. Búið er að bjóða út og semja um rúmlega 50% af verkefninu og klárum við öll útboð fyrir vorið, en það verður Límtré Vírnet sem framleiðir burðarvirkið og yleiningarnar í húsið. Það er ánægjulegt að íslensk framleiðsla Límtré Vírnets hafi verið hagkvæmust í útboðinu.

Framkvæmdum við félagsmiðstöðina og fablab í Þjórsárskóla er að mestu lokið og hefur tekist að búa mikinn ævintýraheim sem Hans Alan Tómasson á heiður af því að skapa, búa til og láta verða að veruleika. Búið er að ráða Þórarin Guðna (Tóta í Zero) til að byggja upp starfið sem hefst núna í janúar. Virkilega spennandi að starfið sé að komast í gang og við stefnum á að halda opið hús fyrir alla íbúa fljótlega til að sýna aðstöðuna og kynna starfið.

Nú er búið að mynda nýja ríkisstjórn og við getum verið bjartsýn á komandi tíma. Í þeirri baráttu sem við höfum staðið í um að nærsamfélag orkuvinnslu njóti sanngjarns ávinnings, þá eru áherslur nýrrar ríkisstjórnar í takt við okkar áherslur. Í stjórnarsáttmálanum kemur fram að móta eigi auðlindastefnu um sjálfbæra nýtingu og réttlát auðlindagjöld sem renni að hluta til nærsamfélagsins. Ég hlakka því til að eiga samskipti við forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar þegar kemur að orkumálunum og að tryggja nærsamfélaginu sanngjarnan ávinning til framtíðar.

Við erum langt komin í vinnunni með að móta nýtt skipulag fyrir Árnes til framtíðar þar sem markmiðið er að tryggja nægt lóðaframboð fyrir íbúðir og atvinnuhúsnæði. Við vorum sannarlega heppin að fá Pál Jakob Líndal, dr. í umhverfissálfræði til að hanna og þróa skipulagið með okkur þar sem þarfir íbúanna eru í forgrunni. Með alla þá umræðu sem á sér stað í dag um þéttingu byggðar í höfuðborginni þar sem við sjáum allt að 250 íbúðir á hektara, þá erum við að leggja upp með 11-13 íbúðir á hektara sem mun skila góðu rými fyrir íbúa, birtuskilyrði og náttúruna. Við héldum þrjá íbúafundi á síðasta ári um skipulagið og munum halda næsta íbúafund í kringum mánaðarmótin janúar/febrúar. Markmiðið er að skipulagið klárist fyrir vorið og hægt verði að hefja gatnagerð í Árnesi í sumar.

Rekstur sveitarfélagsins hefur gengið vel á kjörtímabilinu. Þrátt fyrir töluverðar framkvæmdir höfum við ekki þurft að taka nein lán, heldur höfum við greitt niður lán samhliða öllum þeim framkvæmdum sem hafa átt sér stað. Skuldahlutfallið hefur lækkað veruleg og stefnir í að vera í kringum 35% um áramótin. (Meðal skuldahlutfall sveitarfélaga á Íslandi er um 112%) Við erum því í sterkri stöðu til að takast á við þá uppbyggingu sem er fram undan hjá okkur. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 og 2026-2028 sem samþykkt var í sveitarstjórn þann 4. desember kemur skýrt fram hversu mikið reksturinn mun styrkjast á næstu árum með aukinni íbúafjölgun ásamt því að mikil hagræðing felst í því að frá og með haustinu 2026 verður Þjórsárskóli orðinn heildstæður grunnskóli 1.-10. bekk. Allt mun þetta leggja grunninn að því að byggja upp innviði sveitarfélagsins og halda úti góðri þjónustu.

Það er því bjart fram undan í okkar góða samfélagi.

Ég hlakka til verkefnanna sem eru framundan á nýju ári og hlakka til áframhaldandi samstarfs við íbúa og starfsfólk sveitarfélagsins.

Haraldur Þór Jónsson