- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir í vorúthlutun Uppbyggingarsjóðs Suðurlands 2025. Sjóðurinn veitir styrki til atvinnuþróunar, nýsköpunar og menningar á Suðurlandi og hefur hann sannað mikilvægi sitt fyrir þau sem vilja þróa og efla fjölbreytt verkefni á Suðurlandi.
Í flokki atvinnuþróunar og nýsköpunar eru styrkir veittir til verkefna sem stuðla að atvinnusköpun og/eða verkefni sem auka framleiðni. Einnig er lögð áhersla á nýsköpunarverkefni sem stuðla að aukinni fjölbreytni í atvinnulífi á svæðinu. Í flokki menningar er markmiðið að efla menningarstarfsemi og listsköpun á Suðurlandi.
Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér úthlutunarreglur sjóðsins, áherslur, markmið og mat á umsóknum áður en umsókn er lögð fram. Úthlutunarreglur fyrir 2025 byggja áfram á þeim reglum sem giltu á árunum 2020-2024. Þar sem sjóðurinn er samkeppnissjóður, skiptir máli að verkefni séu vel mótuð og umsóknir skýrar og vandaðar til að auka líkur á styrkveitingu.
Hægt er að sækja um styrki fyrir verkefni sem uppfylla eina eða fleiri áherslur sjóðsins, en skilyrði er að öll verkefni uppfylli að lágmarki markmið þess flokks sem þau tilheyra. Byggðaþróunarfulltrúar SASS veita ráðgjöf og aðstoð við mótun verkefna og eru staðsettir víða um Suðurland og er hægt að ná í þá á vef SASSS hér eða senda byggðaþróunarfulltrúa í Uppsveitum póst á lina@sveitir.is . Íbúar Uppsveitanna eru hvattir til að nýta sér þessa þjónustu, hvort sem er í tengslum við Uppbyggingarsjóð eða önnur verkefni sem snúa að atvinnuþróun, nýsköpun eða menningu.
Allar umsóknir þurfa að berast rafrænt í gegnum umsóknarvef sjóðsins. Umsækjendur skrá sig inn með íslykli eða rafrænum skilríkjum. Fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök sem sækja um styrk þurfa að nota rafræn skilríki viðkomandi lögaðila en ekki persónulegan aðgang verkefnastjóra. Mikilvægt er að hafa í huga að kennitala og nafn umsækjanda er óbreytanlegt eftir að umsókn hefur verið stofnuð.
Nánari upplýsingar um sjóðinn og umsóknarferlið má finna á heimasíðunni www.sass.is/uppbyggingarsjodur.is
Umsóknir skulu berast fyrir kl. 16.00 þann 4. mars 2025.