Óskað er eftir tilnefningum til hvatningaverðlauna á sviði menningarmála á Suðurlandi

Merki Samtaka Sunnlenskra sveitarfélaga


Merki Samtaka Sunnlenskra sveitarfélaga

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga óska eftir tilnefningum til samfélags- og hvatningarverðlauna á sviði menningarmála á Suðurlandi. Um er að ræða samfélagslega viðurkenningu sem SASS mun veita formlega á ársþingi sínu í október 2024.

Markmiðið með verðlaununum er að vekja jákvæða athygli á menningartengdum verkefnum á Suðurlandi, en mikil gróska hefur verið á þeim vettvangi undafarin ár.

Verðlaunin má veita einstaklingi, fyrirtæki, stofnun, söfnum, hópi og/eða verkefni. Verðlaunin eru hugsuð sem hvatning á sviði menningar en menning er víða hornsteinn hvers samfélags og skiptir íbúa og gesti á Suðurlandi miklu máli.

Í rökstuðningi tilnefningarinnar skal hafa eitthvað af eftirfarandi atriðum til hliðsjónar:

Hefur tilnefndur gefið jákvæða mynd af Suðurlandi og/eða ákvæðnu svæði á Suðurlandi?
Hefur tilnefndur stuðlað að þátttöku íbúa og/eða gesta á menningarviðburðum á Suðurlandi?
Hefur tilnefndur vakið sérstaka athygli á menningararfi Sunnlendinga?
Hefur tilnefndur aukið samstöðu og virkni í tengslum við menningu meðal íbúa?
Hefur tilnefndur skapað nýtt menningartengt verkefni sem vakið hefur eftirtekt?
Hefur tilnefndur með einhverjum hætti stuðlað að aukinni menningu hjá börnum og ungmennum?

Veitt verður viðurkenning sem og peningaverðlaun sem nýta á til áframhaldandi menningarstarfs á Suðurlandi.

Tilnefningar skal senda á netfangið menningarverdlaun@sass.is eigi síðar en mánudaginn 14. október nk.