Pistill frá oddvita

Hjálparfoss
Hjálparfoss

Það er ekki hægt annað en að fyllast bjartsýni með hækkandi sól og þeim hlýindum sem hafa verið undanfarna daga og vikur. Sökum hlýindanna þá eru framkvæmdir við íþróttamiðstöðina í Árnesi komnar af stað. Í síðustu viku var fyrsta steypan og í þessari viku verður reistur 45 metra langur byggingakrani. Steypuvinnan er því að komast á fulla ferð.

Það var í lok árs 2023 sem tekin var ákvörðun í sveitarstjórn að byggja íþróttamiðstöð í Árnesi. Með því móti sköpum við forsendur fyrir heildstæðum grunnskóla, frístundum og íþróttastarfi í samfellu, allt á einum stað. Á þeim tímapunkti gerðum við ráð fyrir að framkvæmdin myndi kosta 1.200 milljónir og fór sú upphæð í fjárhagsáætlun. Framkvæmd var fjárhagsleg greining af PWC á Íslandi og staðfesti fjárhagslega greiningin að við myndum ráða við slíka fjárfestingu. Í framhaldi af því hófst undirbúningur á framkvæmdinni. Við tókum strax í upphafi þá ákvörðun að hanna hagkvæmt hús og brjóta verkefnið niður í minni afmarkaða þætti. Það var okkar mat að það yrði ekki bara hagkvæmasta leiðin, heldur myndum við þannig tryggja að minni verktakar hefðu möguleika á að koma að verkefninu, enda fjölmargir öflugir minni verktakar í okkar sveitarfélagi og nágrannasveitarfélögum.
Sumarið 2024 var kostnaðaráætlun fyrir framkvæmdina tilbúin og hljóðaði hún upp á tæpar 800 milljónir eða 33% undir upphaflegu áætlun okkar. Slík breyting til lækkunar kostnaðar er sjaldséð í opinberum framkvæmdum. Fyrsta útboðið á framkvæmdinni var auglýst 7. ágúst 2024 og var það fyrir jarðvinnunni. Síðan þá höfum við klárað útboð fyrir framleiðslunni á límtréshúsinu, iðnmeisturum, steypu, kambstáli, einangrun, gluggum, hurðum og reisingunni á húsinu. Eftir því sem við höfum komist lengra í hönnuninni og útboðunum þá fækkar óvissuþáttunum og stendur uppfærð kostnaðaráætlun í dag í 834 milljónum. Við höfum klárað útboð og samninga fyrir 70% af kostnaðaráætluninni og er niðurstaða útboðanna að við erum 12% undir kostnaðaráætlun. Það verður virkilega gaman á næstu mánuðum að sjá framkvæmdina raungerast og í lok sumars verður steypuvinnunni lokið og límtréshúsið mun rísa.


Á sama tíma og við erum byrjuð að byggja íþróttamiðstöð í Árnesi, þá eru við á lokametrunum í öllum þeim framkvæmdum sem hafa átt sér stað í Skeiðalaug. Endurbygging Skeiðalaugar hefur heppnast vel og nú eru liðnir um 8 mánuðir síðan við opnuðum alla daga vikunnar frá 16-22. Það er ánægjulegt að sjá að aðsóknin hefur margfaldast og heldur áfram að aukast. Það sem hefur komið á óvart er hversu mikil aðsókn er um helgar, þá sérstaklega frá fólki sem kemur langt að, en Skeiðalaug er líklega eina sundlaugin sem er opin á kvöldin um helgar á Suðurlandi. Viðbyggingin sem mun innihalda æfingasal er langt komin og verður tekin í notkun fyrir vorið. Í nóvember á þessu ári eru 50 ár síðan Skeiðalaug var tekin í notkun og það er sérstaklega ánægjulegt að við verðum búin að endurbyggja og betrumbæta þetta einstaka mannvirki á þeim merku tímamótum.
Þjórsárskóli tók miklum breytingum fyrir síðasta skólaár ásamt því að í lok síðasta árs kláruðust framkvæmdir í kjallaranum þar sem komin er félagsmiðstöð og fablab. Fljótlega er stefnt að því að hafa opið hús í Þjórsárskóla og hvet ég öll til að koma og sjá hversu góð aðstaðan er í skólanum okkar. Opna húsið verður auglýst á næstu dögum.


Fram undan er upphaf mikilla framkvæmda. Vinna við langþráðan Búðafossveg og nýja brú yfir Þjórsá hefst í vor. Framkvæmdir við Hvammsvirkjun verða einnig komnar á fullt í sumar. þrátt fyrir að á þessu ári verði framkvæmdir við Hvammsvirkjun að mestu í Rangárþingi Ytra, þá munum við sannarlega finna fyrir áhrifum þeirra. Einnig munum við finna fyrir framkvæmdum við Búrfellslund og Sigölduvirkjun, en Landsvirkjun vinnur nú að því að setja upp varanlegar vinnubúðir í Búrfelli fyrir meira en 80 starfsmenn. Rauðukambar áætla að hefja uppsteypu á Fjallaböðunum í vor og eru vinnubúðir í Rauðukömbum fyrir 40 starfsmenn tilbúnar ásamt því að gert er ráð fyrir að framkvæmdir Rauðukamba á gestastofunni við Selhöfða fari í gang í sumar. Það eru því gríðarlega miklar framkvæmdir að hefjast og munu þær standa yfir næstu árin.
Nú er liðið á annað ár síðan við hófum vinnu við nýtt deiliskipulag í Árnesi. Við héldum þrjá íbúafundi á síðasta ári og höfum haft virkt samráð við íbúa á öllum fundunum. Allar upplýsingar frá íbúafundunum hafa verið nýttar í þróun skipulagsins og birtar á heimasíðu sveitarfélagsins ásamt vídeó kynningum af vinnunni. Páll Jakob Líndal, doktor í umhverfissálfræði hefur leitt þessa vinnu fyrir okkur og hefur mikil áhersla verið á að skapa umhverfi þar sem þarfir íbúanna eru í forgrunni. Miðað við þá fjölmiðlaumræðu sem hefur verið um þéttingu byggðar síðustu mánuði í Reykjavík, þá erum við sannarlega að skapa umhverfi sem við teljum að verði eftirsóknarvert að búa í. Vinnan er á lokametrunum og formlegt deiliskipulagsferli á nýju deiliskipulagi fer í gang á næstu dögum. Við stefnum á að nýtt deiliskipulag fyrir Árnes verði orðið samþykkt í sumar og í framhaldi af því verði hægt að fara í gatnagerð og úthluta lóðum.


Oft eru það litlu atriðið sem við verðum meira var við. Fyrir rúmu ári síðan keyptum við traktorsgröfu fyrir áhaldahúsið okkar. Þannig værum við meira sjálfbjarga í hinum ýmsu verkefnum sem þarf að leysa. Nú höfum við keypt götusóp sem við getum sett framan á traktorsgröfuna okkar. Íbúar í Brautarholti og Árnesi hafa því væntanlega tekið eftir því á síðustu dögum að búið er að sópa göturnar, eitthvað sem ekki hefur verið gert áður í febrúar og hingað til hefur verið sópað aðeins einu sinni á ári. Framvegis verður umhverfið í Brautarholti og Árnesi sópað reglulega.
Að lokum vil ég minna á að Hjónaballið verður haldið laugardaginn 15. mars í Árnesi. Hingað til hefur það verið haldið í Brautarholti, en eins og við öll vitum þá er aðstaðan í Árnesi mun betri fyrir slíka viðburði og rúmar fleiri gesti. Einnig getum við gert ráð fyrir því að frá og með árinu 2027 verði hægt að halda bæði þorrablót og Hjónaball í nýju íþróttamiðstöðinni okkar, en þá verðum við loksins komin með stað sem rúmar stóra viðburði fyrir alla íbúa sveitarfélagsins.


Haraldur Þór Jónsson