Þjórsárskóli hlýtur styrk úr Sprotasjóði

Í gær 30 maí úthlutaði Sprotasjóður leik- grunn- og framhaldsskóla 59,8 millj kr. í styrk til 32 skólaþróunarverkefna fyrir skólaárið 2024-2025, en sprotasjóður er ætlaður til að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi í leik- grunn- og framhaldsskólum í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrár viðkomandi skólastiga.

Alls bárust 67 umsóknir í sjóðinn og er ánægjulegt að segja frá því að Þjórsárskóli hlaut styrk upp á 830.000 kr. fyrir verkefnið Hugræn atferlisfræði í grunnskóla.

Verkefnið snýr að því að innleiða hugræna atferlismeðferð í almennt skólastarf Þjórsárskóla sem forvörn við geðrænum erfiðleikum nemenda og er um leið liður í innleiðingu farsældar í þágu barna og geðræktar. Með verkefninu er stuðlað að forvörnum í geðheilbrigði og andlegri heilsu nemenda sem og að styrkja nemendur, foreldra og starfsfólk í að nýta gagnreyndar aðferðir. Hugmyndafræði hugrænnar atferlilsmeðferðar verður innleidd í kennslustundir með því að nýta fræðslu til nemenda og æfingar við að takast á við líðan og aðstæður og styrkja þau um leið í samtali um geðheilbrigði og sjúkdóma. Rannsóknir hafa sýnt að nemendur þeirra skóla sem hafa innleitt hugmyndafræði hugrænnar atferlismeðferðar í kennslu sýna minni einkenni kvíða, vanlíðunar og annarra tilfinningalegra erfiðleika og eiga auðveldara með að hafa áhrif á viðbrögð sín við krefjandi aðstæður með því að tengja saman hugsun, líðan og hegðun og eru þannig betur í stakk búin til að takast á við erfiðar aðstæður sem upp geta komið. Slík færni eykur farsæld barna og eflir þau í að takast á við lífið með viðurkenndum og gagnreyndum verkfærum.

Verkefnastjóri verkefnisins er Ingibjörg María Guðmundsdóttir, Inga Maja okkar, sem er deildarstjóri Þjórsárskóla. Inga Maja menntaður grunnskólakennari og sálfræðingur.

Óskum við Ingu Maju og starfsfólki Þjórsárskóla innilega til hamingju með styrkinn og hlökkum til að fylgjast með þróun verkefnisins.