- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Örnefnanefnd hefur kveðið upp úrskurð um hver þeirra átta nafna sem tillögur bárust um sé heimilt að nota. Sveitarstjóri sendi nefndinni fyrir hönd sveitarstjórnar erindi í byrjun nóvember þar sem þess var óskað.
Tillögurnar eru eftirtaldar : Eystribyggð · Eystrihreppur · Skeiða- og Gnúpverjahreppur · Vörðubyggð · Þjórsárbakkar · Þjórsárbyggð · Þjórsárhreppur og Þjórsársveit.
Í sjónarmiðum Örnefnanefndar er getið um seinni nafnliði sveitarfélaga.
Hrepps- og sveitar endingar eiga við um sveitarfélag þar sem byggð er að mestu eða öllu leyti í dreifbýli. Endingin byggð á betur við þar sem byggð er blönduð af dreifbýli og þéttbýli.
Nefndin hafnar því að nafnið Vörðubyggð verði notað. Rökin eru þau að nafngiftin sé ekki í samræmi við byggðamynstur sveitarfélagsins og íslenskar orðmyndunarreglur. Auk þess sé það kennileti sem vísar til Vörðufells sem er að hluta utan sveitarfélagsins.
Þær tillögur þar sem ,,Eystri“ er í fyrri lið, telur nefndin ekki vera heppilegar. Það geti gefið til kynna vísun til Austurlands eða Austfjarða. Að auki sé þar vísað til gamallar óformlegrar nafngiftar á eingöngu öðrum gömlu hreppanna. Gnúpverjahrepps.
Þau nöfn sem tengjast Þjórsá gefa skýrt til kynna að mati nefndarinnar að Þjórsá sé eitt af stórum einkennum svæðisins sem sveitarfélagið nær yfir. En bent er á að fleiri sveitarfélög liggi að Þjórsá.
Í niðurstöðu nefndarinnar segir að nefndin að hún telji núverandi heiti sveitarfélagsins, Skeiða- og Gnúpverjahreppur vera heppilegustu nafngiftina. Vísar nefndin til þess að nafnið eigi fornar rætur og að það samræmist íslensku máli fullkomlega. Uppfylli það auk þess kröfur um vernd örnefna og nafngiftahefða.
Umsögn nefndarinnar verður tekin til umfjöllunar á næsta fundi sveitarstjórnar. Það má vera ljóst út frá ofangreindu að nöfnum sem kosið verður um hefur í það minnsta fækkað um eitt.
Kynningarfundur um kosninguna og ferlið í heild verður haldinn í Árnesi mánudaginn 30. nóvember næstkomandi kl 20:30. Stefnt er að kosningu í desember.
Sveitarstjóri.