Umhverfis- og tæknisvið uppsveita BS. tengist pósthólfinu á island.is

Gluggi út í alheiminn
Gluggi út í alheiminn

Umhverfis- og tæknisvið Uppsveita bs. hefur tengt málakerfi embættisins við stafrænt pósthólf á island.is, sem er miðlæg þjónustugátt stjórnvalda. Um mikið framfaraskref er að ræða í þjónustu embættisins sem eykur hraða og skilvirkni birtinga á afgreiðslubréfum og öðrum gögnum sem embættinu ber að birta samkvæmt lögum.

Allir einstaklingar sem fá útgefna kennitölu og allir lögðilar sem skráðir eru í fyrirtækjaskrá hafa aðgang að sínu eigin stafræna pósthólfi.

Samkvæmt lögum 105/2021 er opinberum aðilum, þ.e. ríki, sveitarfélögum, stofnunum þeirra og öðrum opinberum aðilum, skylt að birta gögn i stafrænu pósthólfi stjórnvalda eigi síðar en 01.01.2025. Samkvæmt sömu lögum teljast gögn birt viðtakanda þegar gögnin eru aðgengileg í pósthólfi hans og á ábyrgð viðtakanda að fylgjast með hvort þeir eigi skjöl frá hinu opinbera í pósthólfi sínu.

Unnið er að innleiðingu pósthólfsins samkvæmt sérstakri innleiðingaráætlun og er UTU bs. fyrsta stofnunin á sveitarstjórnarstiginu til að tengjast þessu pósthólfi, en áður hafa sveitarfélögin Reykjavík og Akureyri sent launaseðla starfsmanna sinna inn í pósthólf þeirra.

UTU bs. mun frá og með deginum í dag, 16. maí 2022, hefja birtingu afgreiðslubréfa byggingarfulltrúa og skipulagsnefndar í stafrænu pósthólfi umsækjenda.

Á næstu vikum mun embættið jafnframt senda önnur gögn og bréf, sem embættinu ber að birta skv. lögum, í pósthólfi viðkomandi. Á meðan embættið vinnur að því að auglýsa þetta nýja fyrirkomulag verður birtingin í pósthólfinu til viðbótar við hefðbundna birtingu embættisins í tölvupósti og/eða útsend bréf send með landpósti.

Stefnt er að því að frá og með 1. september 2022 verði birting sértækra skjala, þ.e. skjala sem beint er sérstaklega til einstaklings eða lögaðila, eingöngu birt í pósthólfi viðkomandi.

Lög um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda nr. 105/2021

Ísland.is – Öll opinber þjónusta á einum stað