Loftslags-og umhverfisnefnd

15. fundur 16. ágúst 2024 kl. 17:00 Árnes
Nefndarmenn
  • Gunnhildur Valgeirsdóttir
  • Gerður Stefánsdóttir í fjarveru Sigþrúðar Jónsdóttur
  • Ísak Jökulsson
  • Haraldur Ívar Guðmundsson
  • Enginn varamaður kom í fjarveru Hannesar Ólafs Gestssonar
Fundargerð ritaði: Gunnhildur Valgeirsson
  1. Umfjöllun um hjálagða beiðni frá Umhverfisstofnun.

Sigrún Valgeirsdóttir, f.h. Umhverfisstofnunar, óskar eftir umsögn Loftslags- og umhverfisnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps um fyrirhugaða framkvæmd Rauðukamba ehf í samræmi við 1. mgr. 41. gr. laga um Náttúruvernd nr. 60/2013. Rauðukambar ehf hafa sótt um leyfi til að bora þrjár borholur eftir heitu vatni til viðbótar þeim sem þegar hafa verið boraðar í tengslum við uppbyggingu við Fjallaböð innan landslagsverndarsvæðisins í Þjórsárdal.

 

Árið 2019 veitti sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps framkvæmdaleyfi fyrir borun á heitu og köldu vatni í nálægð við Rauðukamba þar sem fyrirhugað var að reisa hótel og baðlón. Ekkert varð af framkvæmdinni á þeim tíma og var sótt um endurnýjun á leyfinu árið 2022 sem sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps veitti. Sveitarstjórn telur að áður veitt framkvæmdaleyfi sé í gildi er varðar að klára fullnaðar frágang þeirra borhola sem áður hefur verið gefið leyfi fyrir.

 

Loftslags- og umhverfisnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps tekur undir að núverandi framkvæmdaleyfi sé í gildi er varðar fullnaðar frágang á þeim borholum sem búið er að gefa leyfi fyrir.

 

Hvað varðar beiðni Rauðukamba ehf um að bora þrjár viðbótarholur til að auka sjálfbærni vatnsbúskapar svæðisins, þá telur Loftslags- og Umhverfisnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps þær framkvæmdir vera í samræmi við gildandi deiliskipulag. Einnig tekur nefndin undir sjónarmið í umsögn Náttúrufræðistofnunar Ísland um að breytt fyrirkomulag við öflun heits vatns væri jákvætt miðað við fyrri áform.

 

Í matsskylduferli Skipulagsstofnunar árið 2023 lá fyrir að ráðast þyrfti í frekari borframkvæmdir og hefur því verið fjallað um fyrirhugaðar viðbótar borholur í matsskylduferlinu sem lauk með ákvörðun Skipulagsstofnunar þann 1. ágúst 2023 um að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

 

Að mati Loftslags- og umhverfisnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur því framkvæmdin í heild sinni orðið betri með tilliti til umhverfisins og að tryggja sjálfbærni svæðisins til framtíðar.

 

Loftslags- og umhverfisnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur því engar athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir og að Umhverfisstofnun veiti Rauðukömbum framkvæmdaleyfi til bæði fullnaðar frágangs á fyrri borholum ásamt nýjum viðbótar borholum.

 

Samþykkt með 2 atkvæðum, Ísak og Gerður sitja hjá.

 

Bókun 1:

Gerður Stefánsdóttir leggur fram eftirfarandi bókun ásamt Ísaki Jökulsyni og Haraldi Ívari Guðmundssyni:


Samkvæmt lögum um rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu nr. 57/1998 þarf leyfi Orkustofnunar en í 6.gr laganna kemur fram að: Nýting auðlinda úr jörðu er háð leyfi [Orkustofnunar] 1) Ekki verður séð að slíkt leyfi liggi fyrir, mikilvægt er að ganga úr skugga um hvort þess hefur verið aflað eða með álit Orkustofnunar á framkvæmdinni.

 

Bókun 2:

Gerður Stefánsdóttir skilar bókun ásamt Ísaki Jökulsyni.

Vatnshlot:

Minnisblað Eflu 7145-003-MIN-005-V01

Í minnisblaði Eflu kemur fram að vatnstaka fari fram í grunnvatnshlotinu

103-287-G, Kerlingafjöll-Hreppar. Samtals 3.783 km2.

Þetta er ekki í samræmi við upplýsingar í vatnavefsjá stjórnar vatnamála sem vísað er í. Vatnstakan er úr grunnvatnshlotinu 103-210-G Þjórsárdalur sem er um 26 km2, sem byggir á mun minni úrkomufleti þ.e. 26 vs. 3.783 km2.

Vatnsmagn:

Í fyrirliggjandi skjölum er talsvert ósamræmi í hversu mikið vatn á að taka einnig er sýnt að ákveðinn misskilnings gætir bæði hvað varðar flatarmáls grunnvatnshlotsins, áhrif straumvatna á grunnvatnsstöðu sem og gætir talsverðs ósamræmis í áætlaðri vatnstöku.

Þar sem um umtalsverða vatnstöku og allar forsendur um jarðfræði svæðisins liggja fyrir og þannig eiginleika grunnvatnshlotsins væri eðlilegt við að lagt væri fram grunnvatns- og rennslislíkan til þess að grunnvatnshlotið verði ekki fyrir raski. . Ljóst er að bændur á svæðinu eru háðir því að grunnvatni í vatnshlotinu 103-210-G Þjórsárdalur verði ekki raskað.

Niðurveiting vatns:

Framkvæmdaraðili hyggst veita hreinsuðu affallsvatni úr baðlónum niður í jarðhitageyminn aftur. Gera þyrfti grein fyrir hvernig veita eigi vatni aftur niður í jarðhitageyminn. Ekki kemur fram hvort t.d. eigi að dæla niður vatni né heldur hvaða gæðakröfur eru gerðar um efna innnihald þess vatns sem veitt er niður.

Mikilvægt er að áætla og vakta áhrif niðurveitingar á magnstöðu og efnafræði grunnvatnshlotsins í samræmi við lög um stjórn vatnamál nr. 36/2011

Borholur

Nokkur breyting hefur orðið á þeim borholum sem áætlað var að nota og því er enn mikilvægara að vel sé að verki staðið. Bent er á upplýsingar um borholur vestan og sunnan við svæðið sem sýnt er á korti en mikilvægt er að heildarmynd sé sett fram.

 

  1. Önnur mál

Annað var ekki tekið fyrir á fundinum