Loftslags-og umhverfisnefnd

16. fundur 07. október 2024 kl. 20:00 - 21:15 Árnesi
Nefndarmenn
  • Hannes Ólafur Gestsson
  • Gunnhildur Valgeirsdóttir
  • Sigþrúður Jónsdóttir
  • Haraldur Ívar Guðmundsson
  • Birna Þorsteinsdóttir í fjarveru Ísaks Jökulssonar
Fundargerð ritaði: Hannes Gestsson

Mætt til fundar:

Hannes Ólafur Gestsson, Gunnhildur Valgeirsdóttir, Sigþrúður Jónsdóttir, Haraldur Ívar Guðmundsson og Birna Þorsteinsdóttir í fjarveru Ísaks Jökulssonar

Fundargerð ritaði Hannes Ólafur Gestsson

 

Athugasemd við fundarboð kom frá Sigþrúði Jónsdóttur með hve stuttum fyrirvara fundurinn var boðaður, miðað við þau miklu gögn sem lágu fyrir.

 

1. Umfjöllun um Hvammsvirkjun vegna umsóknar um framkvæmdaleyfi

Sveitastjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps óskar eftir því að Loftlags- og umhverfisnefnd taki til umfjöllunar umsókn frá Landsvirkjun um framkvæmdarleyfi vegna Hvammsvirkjunar.

 

Meirihlutinn lagði fram eftirfarandi bókun:

Á fundi sveitarstjórnar þann 18. september 2024 var umsókn um framkvæmdaleyfi Hvammsvirkjunar á dagskrá. Sveitarstjórn vísaði umsókninni til umfjöllunar í Loftslags- og umhverfisnefnd. Lögð fram umsókn Landsvirkjunar, dags. 13. september 2024, ásamt fylgiskjölum, eldri umsókn Landsvirkjunar, dags. 14. desember 2022, ásamt fylgiskjölum hennar. Einnig lögð fram drög að umsögn sveitarstjórnar um umsóknina, dags. 14. júní 2023, uppfærð 4. október 2024. 

Meirihluti Loftslags- og umhverfisnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps telur umsótta framkvæmd, eins og henni er lýst í umsókn og fylgiskjölum, í samræmi við skipulagsáætlanir, matsskýrslur, úrskurð og álit Skipulagsstofnunar og umhverfisráðherra um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Nefndin samþykkir umsögn sveitarstjórnar, dags. 14. júní 2023, uppfærða 4. október 2024.

Nefndin leggur til við sveitarstjórn að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir hinni umsóttu framkvæmd, með þeim skilyrðum sem fram koma í skipulagsáætlunum, úrskurði og áliti Skipulagsstofnunar, úrskurði umhverfisráðherra og fram koma í umsögnum annarra stofnanna og leyfisveitenda, eins og nánar er gerð grein fyrir í framlagðri greinargerð sveitarstjórnar, varðandi mótvægisaðgerðir, vöktun og frágang vegna framkvæmdarinnar.

Tillagan samþykkt með fjórum atkvæðum

 

Sigþrúður Jónsdóttir greiðir atkvæði á móti og leggur fram eftirfarandi bókun:

Bókun vegna afgreiðslu erindis um framkvæmdaleyfi Hvammsvirkjunar

Ég mótmæli að Skeiða- og Gnúpverjahreppur gefi út framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun af eftirfarandi ástæðum:

Hvammsvirkjun mun hafa veruleg og óafturkræf áhrif á náttúru, lífríki og landslag og mat á áhrifum á nærsamfélag sem og áhrif á hagrænum áhrifum eru ekki fullnægjandi.

Lífríki er stefnt í voða. Sem dæmi má nefna að í Þjórsá er einn stærsti villti stofn laxa í Norður-Atlantshafi, honum er stefnt í voða með Hvammsvirkjun sem og annarra ferskvatnsfiska sem lifa í ánni.

Gæðafelling Vatnshlota. Úrvinnsla Umhverfisstofnunar hvað varðar mat á samfélagslegum og efnahagslegum þáttum er ekki ásættanleg og ekki í samræmi við þær kröfur sem settar eru fram í vatnatilskipun Evrópusambandsins. Samkvæmt þeim þarf að greina efnahagslegan og samfélagslegan ávinning af framkvæmdum fyrir samfélagið Ísland. Þetta hefur ekki verið gert. Fara þarf fram á að þær hagfræðilegu og samfélagslegu greiningar sem liggja til grundvallar greiningu Umhverfisstofnunar liggi fyrir.

Áhætta á landsvísu. Of stór hluti orkuvinnslu hér á landi er nú byggður á jarðfræðilega virku svæði og nú þar að auki í miðri byggð. Slíkt getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Áhættumat sveitar vegna virkjanaframkvæmda er ekki ásættanlegt. Áhættumat virkjunar í byggð þarf að byggja á bestu fáanlegu gögnum. Matið sem nú liggur fyrir er frá 2008. Síðan þá hafa komið mun betri landupplýsingagögn sbr. ArcticDEM (2014) þar sem hæðalíkön lands eru verulega bætt og er grundvallar atriði í sveit sem okkar. Áhrif stíflurofs við mismunandi álags aðstæður er ekki metin með fullnægjandi hætti í skýrslunni eða með tilliti til þess að um landbúnaðarsvæði er að ræða þar sem dýr og viðeigandi húsnæði, sem sveitin byggir afkomu sína á, eru staðsett. Reglur er varða ofanflóð sem miða einungis við íbúðarhúsnæði er ekki ásættanlegt.

Rennslisbreytingar gífurlegar. Miklar rennslibreytingar verða í Þjórsá vegna virkjunar sem hefur áhrif á vatnsstöðu og þar með lífríki, t.d. í friðlýstir Viðey.

Umhverfismat. Sá þáttur umhverfismatsins er varðar lífríki er byggt á umhverfismatsskýrslu frá 2003, rúmlega 20 ára gömlu mati. Skýrslan er þannig barn síns tíma þar sem margþætta liði vantar s.s. gögn um fisk og áhrif framkvæmdar á votlendi, hugtakið loftslag kemur t.d. ekki fyrir í skýrslunni. Á þessum 20 árum hefur mikið safnast til af frekari þekkingu og göngum. Samkvæmt matslögum eiga skýrslur ekki að verða eldri en 10 ára og matið því orðið óásættanlegt með öllu. Svo umfangsmikið inngrip í náttúru Íslands þarf að byggja á bestu fáanlegu gögnum og löngu ljóst að bæta þarf umhverfismatið.

Á þessu rúmlega 20 ára tímabili hefur Ísland undirgengist fjölda alþjóðlegra samninga er m.a. varða vernd vistkerfa og líffræðilega fjölbreytni, sett hafa verið ný lög og önnur endurskoðuð á tímabilinu m.a. lög er varða stjórn vatnamála (nr. 36/2011). Framlagt umhverfismat stenst á engan hátt þær gæðakröfur og þekkingu sem er til staðar í dag og óeðlilegt að byggja framkvæmd á því.

Frekara mat sem með ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 20.06.2016 snerist einvörðungu um ferðaþjónustu og útivist og landslag og ásýnd lands. Niðurstaða þess mats (2017) var að

framkvæmdin hafi verulega neikvæð og umfangsmikil, varanleg og óafturkræf áhrif. Einnig er vert að benda á að forsendur ferðþjónustu í sveitarfélaginu breyst verulega m.a. með friðlýsingu Þjórsárdals bæði sem landslagsverndarsvæðis (2020) og margþættrar uppbyggingar ferðaþjónustu síðustu árin.

Kæruferli landeigenda. Eðlilegt er að ljúka því kæruferli sem nú er hjá dómstólum fyrir hönd landeigenda áður en framkvæmdaleyfi er gefið út.

 

2. Önnur mál

Engin önnur mál

Fundi slitið kl. 21:15