Loftslags-og umhverfisnefnd

17. fundur 16. desember 2024 kl. 20:00 - 20:55 Árnesi
Nefndarmenn
  • Gunnhildur F. Valgeirsdóttir
  • Hannes Ólafur Gestsson
  • Haraldur Ívar Guðmundsson
  • Ísak Jökulsson
  • Sigþrúður Jónsdóttir boðaði forföll
Fundargerð ritaði: Hannes Gestsson

1. Umfjöllun að beiðni Sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps um breytingu á framkvæmdaleyfi

Umhverfisstofnun hefur borist umsókn frá Rauðukömbum ehf. dags.  6. desember 2024 um undanþágu frá friðlýsingarskilmálum landslagsverndarsvæðisins Þjórsárdals. Sótt er um að bæta við einni borholu í viðbót við þær sem leyfi var veitt fyrir þann 26. ágúst 2024. 

Í samræmi við 1. mgr. 41 gr. Laga nr. 60/2013 um náttúruvernd óskar því Umhverfisstofnun eftir umsögn loftlags og umhverfisnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps um umsókn þessa.

Í júlí 2024 sóttu Rauðukambar ehf um leyfi til þess að ljúka við borun til vatnstöku og niðurdælingar vegna byggingar og reksturs hótels og baðstaðar Fjallabaðanna við Rauðukamba og heimild fyrir fullnaðar frágang á holunum. Leyfi barst þann 26. ágúst:

Boranir við Rauðukamba hófust þann 3. september 2024 og hefur borinn Karl Gústav, sem er vörubíll með bormastri og öðrum búnaði sem þarf til jarðborana verið notaður til verksins. Fyrirliggjandi slóðar hafa við nýttir til aðkomu að holunum og akstri utan þeirra haldið í lágmarki. Þrír bormenn hafa starfað við verkið en auk þess voru jarðfræðingur og verkefnisstjóri kallaðir til eftir þörfum.

 

Á svæðinu er fyrir borhola SL-03, boruð árið 2022. Langtímamælingar hafa sýnt að rennslismagn og hitastig vatnsins úr þeirri holu er stöðugt, með um 20 l/s af 25°C heitu vatni. Vatn úr SL-03 er nauðsynleg fyrir rekstur Fjallabaðanna ásamt hinum heitari kerfunum sem sótt verður í. Langtímamælingar hafa einnig sýnt að í henni verður óásættanlegur niðurdráttur við dælingu, þar sem holan er einungis 7“ að stærð. Því er talið nauðsynlegt að bora nýja 14“ holu, 100 m djúpa niður í sama vatnskerfi um 20m vestan við SL-03. Sú hola er innan lóðar Fjallabaðanna og í sama umhverfi, merkt SL-10 á meðfylgjandi teikningu. SL-10 er ekki innan þeirra leyfa sem áður hafa verið gefin út af sveitarfélagi og Umhverfisstofnun og því er nú sótt um breytingu á fyrirliggjandi leyfum. 

 

Staðsetningar á borholum á gildandi skipulagsuppdrætti er leiðbeinandi. Forsendur fyrir vatnstöku hótels og baðstaðar er óbreytt. Borun SL-10 mun ekki hafa nein áhrif á vatnsbúskap svæðisins, umfram áður uppgefnar forsendur, og er tilgangurinn með boruninni einungis ætlaður til aukningar á stöðugleika kerfisins í heild. Því er ekki um forsendubreytingu eða aukningu á vatnstöku að ræða heldur tilfærslu á staðsetningum á vatnstöku.

 

Í samræmi við friðlýsingarskilmála svæðisins og verklag það sem hefur verið við haft í umsóknum og leyfisveitingum Fjallabaðanna hefur verið sótt um breytingu á áður útgefnu framkvæmdaleyfi(L234185) til skipulagsfulltrúa Uppsveita þar sem borun á SL-10 er bætt við

fyrirliggjandi leyfi. Þar sem framkvæmdir eru í fullum gangir var óskað eftir flýtimeðferð frá sveitarfélaginu svo ekki komi til stöðvunar á framkvæmd.

 

Loftslags- og umhverfisnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur ekki athugasemdir við framkvæmdina og að veitt verði leyfi fyrir viðbótar borholu, enda er framkvæmdin í samræmi við gildandi deiliskipulag og kallar ekki á aukna vatnstöku á svæðinu miðað við fyrra framkvæmdaleyfi.

 

2. Samþykkt um meðhöndlun úrgangs

Farið yfir samþykktina, athugasemdir teknar niður og sendar til sveitarstjóra

 

Önnur mál

Engin önnur mál