Skólanefnd

13. fundur 13. maí 2024 kl. 15:30 - 17:30 Árnes
Nefndarmenn
  • Vilborg Ástráðsdóttir
  • Bjarni Hlynur Ásbjörnsson
  • Sigríður Björk Marinósdóttir
  • Anna María Flygenring
  • Gunnhildur F. Valgeirsdóttir
Fundargerð ritaði: Bjarni Hlynur Ásbjörnsson

Boðaðir áheyrnarfulltrúar eru:  Bolette Höeg Koch; Anna Greta Ólafsdóttir; Ingibjörg María Guðmundsdóttir; Elvar Már Svansson; Helga Guðlaugsdóttir; Halla Rún Erlingsdóttir; Gestur Einarsson. 

Árnesi, 13.5.2024
Fundanúmer í WorkPoint : F202405-0021

Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:

1. Fundarsetning

Vilborg Ástráðsdóttir, formaður skólanefndar setti fund kl. 15:30 og bauð fólk velkomið. Hún spurðist fyrir um það hvort einhverjar athugasemdir væru við fundarboðið. Svo var ekki og var gengið til dagskrár. Gunnhildur Valgeirsdóttir situr fundinn í forföllum Invgars Hjálmarssonar.

2. Þjórsárskóli - Innleiðing skólastefnunnar í Þjórsárskóla

Formaður skólanefndar sagði að halda þurfi utan um innleiðingu skólastefnunnar og tók fram að hún hefði hitt skólastjóra og starfsmenn varðandi vinnuna við innleiðinguna. Vinna við innleiðingu er skemmtileg ferli sem er faglegt og hvetjandi. Skólastjóri fór yfir það hvernig haldið verði utan um skráningu á verkþáttum sem falla undir hverja vörðu í skólastefnunni. Formaður nefndi að gagnlegt væri að upplýsa samfélagið um hvernig vinnan við innleiðinguna gengur. Lagt verður upp með að byrja að vinna í þeim þáttum sem eru nokkuð einfaldir í innleiðingu og að forgangsraða innleiðingarþáttum til þess að koma vinnunni vel af stað. Rætt var um mikilvægi þess að upplýsa um framvindu. Umræður urðu um málið.

Skólanefnd leggur áherslu á það að vinna við innleiðingu skólastefnunnar verði markviss og skýr og upplýsingum um vinnuna verði komið á framfæri við samfélagið.

3 Þjórsárskóli - Skýrsla skólastjóra

 

Skólastjóri lýsti starfi skólans frá síðasta skólanefndarfundi. Nemendur fóru í fræðsluferð á gámasvæðið þar sem Þórdís Bjarnadóttir, starfsmaður á gámasvæðinu, fræddi nemendur um svæðið og starfsemina þar. Yngstu nemendurnir fóru á generalprufu hjá börnunum í Leikholti. Nemendur í 6. og 7. bekk fengu kennslu í endurlífgun, miðstigið fór á miðstigsgleði og í Smiðjur í Reykholti. Smiðjur er samstarfsverkefni grunnskólanna í uppsveitum Árnessýslu. Sjöundi bekkur heimsótti Flúðaskóla. Lestrarátak er í skólanum sem hefur skilað sér í áberandi meiri lestrargleði nemenda. Búið er að velja lestrarhesta til að taka þátt í upplestrarkeppni uppsveitanna á Laugarvatni. Ljósmyndari tók hefðbundnar bekkjar- og einstaklingsmyndir af nemendum.Kennarar fóru á ART ráðstefnu og ráðstefnu um kynheilbrigði og fjölbreyttan taugaþroska hjá Ráðgjafar- og greiningastöð. Kynning var á skráningu og framsetningu á upplýsingum í skólakerfinu Mentor. Haldinn var fundur um skólaakstur á komandi misserum. Starfsmenn skólans eru farnir að undirbúa sig fyrir breytingar á skólahúsnæðinu. Umræður urðu um vinnu við breytingar í kjallara skólans og hugsanleg tæki sem og leikföng sem hægt væri að setjar þar upp.

Skólanefnd þakkar skólastjóra fyrir skýrsluna.

 

4. Sameiginlegt - Skólastefnan

- -

Á fundinn mættu, kl. 16:05, Anna Greta Ólafsdóttir, Halla Rún Erlingsdóttir og Gestur Einarsson í forföllum Matthildar Maríu Guðmundsdóttur.

Formaður sagði að uppfært útlit skólastefnunnar hafi verð afgreitt af sveitarstjórn og birt á vefsíðu sveitarfélagsins. Óskað verður eftir því að skólastefnan verði prentuð og gefin út.

 

5. Sameiginlegt - Kynning á uppeldisstefnunni Uppeldi til ábyrgðar

- -

Helga Guðlaugsdóttir mætti kl. 16: 19. ​

Formaður sagði frá því að Hrunamannahreppur hyggst taka upp uppeldisstefnuna Uppeldi til ábyrgðar, sem gefin er út og rekin af félaginu Uppbygging sjálfsaga, og innleiða hana víðtækt í sveitarfélaginu hjá ungmennafélagi, í félagsmiðstöð og á fleiri stöðum. Formaður sagði frá áhuga sínum á því að þessi stefna, eða sambærileg, yrði skoðuð með tilliti til þess að taka slíkt upp í skólunum. Umræður urðu um málið, uppeldisstefnur og gagnsemi þeirra.

Skólanefnd þakkar fyrir kynninguna.

 

6. Leikholt - Innleiðing skólastefnunnar í Leikholti

- -

Bolette Höeg Koch og Ingibjörg María Guðmundsdóttir fóru af fundi kl. 16:30.

Formaður skólanefndar óskaði eftir upplýsingum um gang mála við innleiðingu skólastefnunnar í Leikholti. Leikskólastjóri fór yfir málið og lýsti stöðunni. Innleiðingaferlið er hafið í hverri deild fyrir sig. Innleiðingavinnan á að vera skemmtileg, fagleg og hvetjandi. Umræður urðu um málið.

Skólanefnd er sammála um það að vinna við innleiðingu skólastefnunnar verði markviss og skýr og upplýsingum um vinnuna verði komið á framfæri við samfélagið.

 

 

7. Leikholt - Leikskólalóð

- -

Leikskólastjóri fór yfir stöðuna varðandi skipulag á leikskólalóð. Farið var yfir hönnun lóðarinnar. Gert er ráð fyrir að hluti breytinganna verði unnar í sumar. Umræður urðu um málið.

Skólanefnd þakkar leikskólastjóra fyrir upplýsingarnar.

 

8. Leikholt - Skóladagatal Leikholts

- -

Leikskólastjóri lagði fram leikskóladagatal 2024 - 2025 til staðfestingar. Foreldraráð hefur veitt umsögn um dagatalið og samþykkt það. Umræður urðu um málið.

Skólanefnd staðfestir skóladagatal Leikholts.

 

9. Leikholt - Skýrsla skólastjóra

- -

Leikskólastjóri sagði frá starfi Leikholts frá síðasta skólanefndarfundi. Fjöldi barna í Leikholti er nú 51 og verður svo út þetta skólaár. Búið er að leggja lokahönd á hönnun leikskólalóðarinnar og munu framkvæmdir hefjast í sumar. Á skipulagsdögum leikskólans fór starfsfólk í heimsókn í leikskóla í Hvalfjarðarsveit og haldin var vinnustofa í stúkuhúsinu á Akranesi þar sem unnið var með skólastefnu sveitarfélagsins og nýja skólanámsskrá. Árshátíð Leikholts var haldin nýverið og var nemendum í 1. - 4. bekks Þjórsárskóla, ásamt félagi eldri borgara boðið á forsýningu. Árshátíðin var mjög vel sótt, enda hefur börnum og þar með foreldrum fjölgað mjög. Að venju fara börnin í lambaferðir á þessum árstíma. Allar deildir nema Vörðufell fara að Húsatóftum, en nemendur í Vörðufelli ganga að Vorsabæ þar sem grillað verður eftir lambaskoðun og síðan gengið til baka í Leikholt. Farið var yfir skóladagatalið með foreldraráði og var þar gerð ein breyting á. Starfsmenn Leikholts sóttu um þrjá styrki í Þróunarsjóð skólasamfélags Skeiða- og Gnúpverjahrepps og fengu öll verkefnin styrk. Tvær kannanir hafa verið sendar út til foreldra varðandi starfið næsta haust. Önnur er um skráningu fyrstu bekkinga með leikskólavist í ágúst og fram að grunnskólabyrjun, eins og áður. Hin könnunin snýr að áhuga foreldra á því að breyta fyrirkomulaginu þannig að börnin sem eru á leið í fyrsta bekk fái sumarfrístund með börnum úr grunnskólanum, í stað þess að koma aftur í leikskólann um stundarsakir. Leikskólinn, ásamt foreldrum, tekur þátt í rannsókn á málþroska þriggja ára barna sem er hluti af endurgerð skimunarlista fyrir málþroska íslenskra barna. Foreldrafélagið var með fatamarkað í leiksólanum og hefur skipulagt Guggusund sem og sumarhátíð í júní. Tveir sumarstarfsmenn hefja störf í næstu viku en ekki er gert ráð fyrir breytingum í starfsmannahópnum fyrir næsta haust. Tveir starfsmenn eru í leyfi og verða eitthvað áfram. Í gangi eru starfsþróunarviðtöl. Lítið er um veikindi starfsmanna og mikill stöðugleiki í starfsmannahópnum. Vinnustytting hefur þó aðeins setið á hakanum þar sem aukastarfsmaður hefur verið að leysa af starfsmenn í leyfi. Tekið hefur verið upp samskiptaforrit sem mun leysa facebook af hólmi varðandi upplýsingagjöf og fréttir af starfinu til foreldra.

Skólanefnd þakkar leikskólastjóra fyrir skýrsluna.

 

10. Fundarslit

- -

Fleira var ekki gert og sleit formaður fundi kl. 18:10.

 

 

Þeir fulltrúar sem voru á fundinum staðfesta fundargerðina með rafrænni undirritun.