- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Árnesi, 6.3.2025
Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:
1. Fundarsetning og dagskrá
Vilborg Ástráðsdóttir, formaður skólanefndar setti fund kl. 15:32 og bauð fólk velkomið. Hún spurðist fyrir um það hvort einhverjar athugasemdir væru við fundarboðið. Svo var ekki.
Á fundinn voru mætt Vilborg Ástráðsdóttir, Bjarni H. Ásbjörnsson, Ingvar Hjálmarsson, Sigríður Björk Marinósdóttir, Anna María Flygenring, Bolette Höeg Koch, Ingibjörg María Guðmundsdóttir og Sylvía Karen Heimisdóttir. Forföll boðaði Elvar Már Svansson.
2. Málefni Þjórsárskóla - Opið hús í Þjórsárskóla
Skólastjóri sagði frá því að fimmtudaginn 13. mars 2025, á milli kl. 16:00 og 18:00 verður opið hús í Þjórsárskóla. Þar verður sveitungum og öðrum gefið tækifæri til að skoða þær breytingar sem hafa átt sér stað á aðstöðu nemenda og kennara í húsnæðinu. Verðandi nemendur sem og gamlir nemendur eru sérstaklega boðnir velkomnir.
Hvatt er til þess að láta gamla nemendur og aðra sem hafa tengst skólanum vita af þessum viðburði og láta orðið berast.
3. Málefni Þjórsárskóla - Niðurstöður skólapúls
Skólastjóri lagði fram nýjar niðurstöður úr nemendakönnun skólapúlsins sem gerð var í október 2024, en eftir því var óskað á 16. fundi skólanefndar.
Jafnframt var lögð fram umbótaáætlun Flúðaskóla fyrir unglingastigið sem byggir á skólapúlsinum frá því í nóvember 2024.
Málin voru rædd.
4. Málefni Þjórsárskóla - skýrsla skólastjóra
Skólastjóri lagði fram skýrslu yfir starfið í febrúar. Veðrið setti svip sinn á skólastarfið. Aflýsa þurfti skóladegi og annan dag voru börnin send fyrr heim. Elstu nemendur leikskólans hafa komið í heimsókn eins og áður. Gunnar Gunnarsson, verkefnastjóri Heilsueflandi samfélags, leiðbeindi kennurum um það hvernig börnum er kennt að nota gönguskíðin sem keypt voru fyrir veturinn. Haldinn var fundur með mið- og unglingastigi skólans þar sem rætt var um fyrirhugaðar húsnæðisbreytingar. Fram kom að áhyggjur eru af verkgreinum sem eru í húsnæðishraki. Varpað var upp teikningu af hugmynd að breytingum á húsnæðinu til hagsbóta fyrir miðstigið. Í kjölfarið kom fram að verk- og listgreinar fá inni í nýju húsi sem verður reist við hlið skólans. Sjötti og sjöundi bekkur fóru í skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði, ásamt nemendum úr öllum skólum í Árnesþingi. Það fyrirkomulag hentar mun betur, heldur en að minni skólar séu á sama tíma og stórir skólar sem mynda aðstöðumun á milli skólanna. Lagt er til að sjöundi bekkur fari á hverju ári í samstarfi við aðra skóla í Uppsveitunum til þess að viðhalda samskiptum sem hafa verið til staðar á milli nemenda. Áttundi bekkur tók þátt í Smiðjum, samstarfsverkefni grunnskólanna í Uppsveitunum. Árgangurinn hefur líka farið í heimsókn í fyrirtæki í sveitinni, ásamt kennara þeirra. Hafa þessar heimsóknir gefist vel. Áttundi bekkur fór í skíðaferð í Bláfjöll ásamt félagsmiðstöðinni Zeró og Flúðaskóla. Fyrsti til sjöundi bekkur fór í skautaferð í Egilshöll í Reykjavík.
Umræður urðu um málið.
5. Sameiginleg málefni - Skóladagatöl Þjórsárskóla og Leikholts
Anna Greta Ólafsdóttir mætti kl. 16:09. Ingibjörg Sæunn mætti kl. 16:16. Helga Guðlaugsdóttir mætti kl. 16:22.
Skóladagatöl Þjórsárskóla og Leikholts, fyrir skólaárið 2025-2026 voru lögð fram til staðfestingar. Allir lögðu sig fram við að samræma þau eins og frekast er kostur og gekk það í meginatriðum vel, en ekki tókst að hafa fullkomið samræmi á milli dagatalanna. Leikskóladagatalið er lagt fram með þeim fyrirvara að 15. maí verði skráningardagur. Gert er ráð fyrir því að lokað verði kl. 14:00 síðasta dag fyrir sumarleyfi í Leikholti til að gefa starfsfólki svigrúm að frágangi fyrir sumarið.
Umræður urðu um málið.
Skólanefnd staðfestir framlögð skóladagatöl með þeim fyrirvara sem er á skóladagatali Leikholts.
6. Sameiginleg málefni - Gjaldskrár Þjórsárskóla og Leikholts
Formaður lagði fram tillögu að uppfærðum gjaldskrárreglum Leikholts, ásamt tillögum að breytingum á afsláttum í gjaldskrám Þjórsárskóla og Leikholts. Gjaldskrá leikskólans breytist á þann veg að veittur verður systkinaafsláttur, 25% af öðru barni og 50% fyrir þriðja barn. Þessi afsláttur gildir á milli leik- og grunnskóla. Einnig er veittur 25% afsláttur af vistunargjaldi einstæðra foreldra.
Rætt var um kosti og galla þess að vera með leikskólann gjaldfrjálsan á milli kl. 8:00 og 14:00, sem og um upphæð sektargreiðslna ef börn eru sótt of seint.
Umræður urðu um málið.
Skólanefnd staðfestir framlagðar gjaldskrárreglur Leikholts. Jafnframt staðfestir skólanefnd gjaldskrár Þjórsárskóla og Leikholts, eins og þær eru lagðar fram og vísar þeim til sveitarstjórnar til afgreiðslu.
7. Sameiginleg málefni - Frístund og verðandi 1. bekkur
Formaður ræddi möguleika þess að opna frístund í ágúst og brúa þannig bilið fyrir börn, eftir sunarleyfi og þar til grunnskólinn hefst. Skólastjóri óskaði eftir því að það yrðu þá aðrir en starfsfólk grunnskólans sem myndu sinna þeirri vinnu.
Umræður urðu um málið.
Skólanefnd vísar málinu til sveitarstjórnar til afgreiðslu.
8. Sameiginleg málefni - Erindisbréf skólanefndar
Formaður lagði fram erindisbréf skólanefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps sem hefur verið nokkuð breytt frá fyrra erindisbréfi. Ábendingar komu fram um breytingar og lagfæringar á því.
Umræður urðu um málið.
Formaður lagði til að haldinn yrði vinnufundur þar sem farið væri betur yfir þessar ábendingar og málið rætt til niðurstöðu og síðan sent til sveitarstjórnar til staðfesingar.
9. Sameiginleg málefni - Skýrsla formans skólanefndar
Formaður flutti munnlega skýrslu um starfið frá síðasta skólanefndarfundi. Farið var í það að vinna að breytingum á innra skipulagi grunnskólans eftir hugmyndum starfsmanna hans. Niðurstaða skólapúls Flúðaskóla fyrir unglingadeild var lögð fram fyrir fundinn. Næstu skólanefndarfundir verða haldnir 10. apríl og 22. maí. Starfsáætlun skólanefndar liggur fyrir og þar má sjá þau mál sem lögð verða fram. Formaður vinnur að því að haldið verði ungmennaþing í samstarfi við nágrannasveitarfélögin. Búið er að koma á fundi með ungmennaráði til að ræða málið áfram.
Umræður urðu um málin.
10. Mál til kynningar - Saman gegn fordómum
Formaður lagði fram kynningu á nýju verkfæri á vegum mennta- og barnamálaráðuneytis ásamt Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu sem dagsett er 11. febrúar 2025. Verkfærið er vefsvæði sem kallast „Saman gegn fordómum“. Hlutverk vefsins er að fræða og vekja athygli á fordómum og hatursorðræðu í samfélaginu.
11. Mál til kynningar - Kjarasamningur KÍ
Formaður óskaði kennurum til hamingju með nýjan kjarasamning.
12. Mál til kynningar - Fundargerð SVÁ
Formaður kynnti ákvörðun stjórnar Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings (SVÁ) frá 17. febrúar þess efnis að gera faglega úttekt á starfsemi SVÁ, nú þegar tvö ár eru liðin frá stofnun hennar. Jafnframt kynnti formaður að stofnaðir verði rýnihópar grunn- og leikskólakennara til þess að meta styrkleika starfseminnar og tækifæri til frekari þróunar.
Umræður urðu um málið.
14. Leikholt - skýrsla skólastjóra
Bolette og Ingibjörg María fóru af fundi kl. 17:42.
Leikskólastjóri lagði fram mánaðarskýrslu fyrir febrúar 2025. Veðurfar í febrúar setti mark sitt á starfið og var leikskólinn lokaður 5. febrúar vegna óveðurs. Leikskólinn hefur tekið í notkun nýtt fundarkerfi sem einfaldar vinnslu fundargerða sem eru sendar til allra deilda og leikskólastjóra með tölvupósti. Þróunarverkefnið Snemmtæk íhlutun er í fullum gangi og hefur tekist að virkja starfsfólk í verkefnið. Verið er að flokka efni og vinna handbók sem er lokaafurð þess. Á degi leikskólans, þann 6. febrúar, var sett upp myndlistarsýning á verkum nemenda í Skeiðalaug. Starfsfólk leikskólans fór á sýninguna Early Childhood Expo í London í lok febrúar þar sem skoðaður var allskyns kennslubúnaður, húsgögn og hugbúnaður til nota á leikskólastigi. Sameiginlegur starfsdagur leikskóla í nágrannasveitarfélögunum var haldinn í Leikholti og tókst vel til. Haldinn var fundur með foreldrum um öryggismál í Leikskólanum.
Umræður urðu um málið.
15. Fundarslit
Formaður sleit fundi kl. 18:00.
Þeir fulltrúar sem voru á fundinum staðfesta fundargerðina með rafrænni undirritun.