Sveitarstjórn

8. fundur 24. október 2018 kl. 09:00
Starfsmenn
  • Mætt til fundar: Björgvin Skafti Bjarnason Einar Bjarnason

              8. fundur í sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps í Árnesi miðvikudaginn 24. október 2018  kl. 09:00.

                      Mál til afgreiðslu og umfjöllunar :

  1. Fossá útboð. Sveitarstjóri greindi frá því að samningur um veiðirétt í Fossá auk Rauðár í Þjórsárdal væri útrunninn og því tilefni til að bjóða veiðiréttinn út að nýju. Sveitarstjórn fer með forræði yfir ánum auk Skógræktarinnar og Forsætisráðuneytis. Land ánna er að mestu tilheyrandi þjóðlendu. Auk þess lagði sveitarstjóri fram drög að útboðsgögnum um veiðiréttinn. Samþykkt að bjóða út veiðirétt í ofangreindum ám til áranna 2019- 2022 að báðum árum meðtöldum. Úboðsgögn samþykkt samhljóða. Sveitarstjóra falið að auglýsa og annast úboðið í samráði við Skógræktina og Forsætisráðuneytið.
  2. Erindi frá Önnu Sigríði Valdimarsdóttur. Lagt fram erindi sem barst frá Önnu Sigríði í tölvupósti. Þar er óskað eftir að heræfing í Þjórsárdal 19 og 20. október sl. verði tekið til umræðu. Auk þess er óskað eftir að útskýrt verði hvernig upplýsingagjöf til sveitarstjórnar sé háttað. Oddviti vísaði til 10. greinar samþykkta sveitarstjórnar varðandi það hvernig upplýsingagjöf til sveitarstjórnar sé háttað.

Anna Sigríður lagði fram eftirfarandi greinargerð og bókun.

Um hernaðarbrölt og stjórnsýslu.

Greinargerð:

Það er margt sem vekur konu til umhugsunar varðandi æfingu hermanna í Þjórsárdal um nýafstaðna helgi; margt í aðdragandanum einnig, um verkferla og stjórnsýslu. 

Sveitarstjórn bárustu fregnir af - þá fyrirhuguðum - æfingum fyrst til eyrna utan dagskrár í lok sveitarstjórnarfundar þann 3. október sl. kynntu af oddvita sem hafði verið upplýstur um áformin einhverju áður. Þá var - líkt og síðar í aðdragandanum - gert fremur lítið úr gjörningnum og þótti mér það strax óviðeigandi og ógeðfellt, vegna þess hve tilfinning mín gagnvart herjum og stríði hvers konar er hryllileg. Hernaði og stríðum fylgja hörmungar. Hörmungar í lífi allra sem að þeim koma. Ég fylltist í sannleika sagt óhug við þessi tíðindi. Ekki endilega vegna þess að æfingarnar væru fyrirhugaðar í bakgarði okkar sveitar, einhvers konar griðastað okkar Skeiða- og Gnúpverja, heldur fyrst og fremst af því ég upplifði að með þessu værum við að veita einhvers konar blessun á að hér gæti fólk æft sig í að drottna og deyða (þó vitaskuld hafi sá liður ekki verið æfður við þetta tiltekna tilefni. Sem betur fer). Án þess að hafa mörg fleiri orð um þetta á þessum vettvangi, þá væri hægt að hafa mun lengra mál um hernað og stríð en afstaða Íslendinga er ekki á eitt í því máli.  

Því kemur aftur að þeim vinkli í þessu erindi er snýr að forminu. Að þetta mál sé kynnt sveitarstjórn fyrst með þeim hætti sem áður er getið. Eftir að ég ásamt fleiru fólki spyrst ítrekað fyrir um þetta mál, þá er sveitarstjórn ásamt völdum aðilum boðið til kynningarfundar, tveimur dögum fyrir fyrirhugaðar æfingar. Til að kynna efnið mæta tveir fulltrúar frá sérsveit ríkislögreglustjóra, fulltrúi frá lögreglunni á Suðurlandi og fjórði fulltrúinn frá Utanríksiráðuneytinu. Á fundinum er farið nokkuð afgerandi yfir helstu atriði er að fyrirkomulagi þessara æfinga snýr. Aftur á þessum fundi er hins vegar gert lítið úr þessum æfingum og þ.a.l. hverjir æfa og að hvaða tilefni. Fæst fundargesta, þó ekki öll, virðast hafa nokkuð út á þetta að setja en ég næ að lýsa yfir minni skoðun m.a. á aðdragandanum, upplýsingaskorti og léttúð sem sum virðast hafa um jafn alvarlegt mál.  

Fara síðan í Þjórsárdal um liðna helgi og mæta hverjum lögreglu- og sérsveitarbílnum í hjólfari annars. Koma að hópum hermanna, undantekningarlaust, utan vegar, í tjöldum, hlaupandi um í hópum í afar viðkvæmum uppgræðslum í vikur- og sandorpnu landi. Þvert á það sem hafði verið útlistað á fundinum nokkrum dögum áður. En þetta er ekki mælt í fjölda hektara. Afar viðkvæmur frumframvindu gróður, jarðvegsskán og holdgervingur fáránleikans í hugum sumra, tættar birkiplöntur. Ef til vill, þó ekki nema táknmynd þessara hörmunga og eyðileggingar sem eiga sér stað í stríðum. En fyrir stjórnsýsluna og formið, þá er þetta þó að minnsta kosti forsendubrestur frá því sem rætt hafi verið.  

------------------------------------------------------------------------- 

Bókun: Ég harma að æfingar í þágu hernaðar hafi verið leyfðar í sveitarfélaginu, Skeiða- og Gnúpverjahreppi og myndi kjósa að slíkar æfingar færu ekki fram hér framar. Í mínum huga er hvers kyns stuðningur við hernað, stuðningur við valdbeitingu og ofbeldi. Ef ekki væri ójöfnuður og misskipting í heiminum, tel ég að ekki væri þörf á hernaði og vil ég því frekar beina kröftum mínum í að stuðla að jöfnuði í samfélögum manna. Að hafa æfingar í tengslum við hernað í flimtingum lýsir firringu okkar sem vesturlanda þjóð blindaðri af forréttindum okkar, hafandi ekki upplifað slíkar hörmungar á eigin skinni. Það er hvort tveggja ósmekklegt og meiðandi. 

Jafnframt tel ég mikilvægt að sveitarfélagið marki sér stefnu um farveg sem mál fari í, óháð því hvaða vægi einstaka fulltrúar gefa því. 

Talsverðar umræður urðu málið í sveitarstjórn í framhaldi af bókuninni. Oddviti óskaði eftir fundarhléi til að semja bókun.

Bókun: vegna bókunar Önnu Sigríðar Valdimarsdóttur telur oddviti rétt að fram komi: Sveitarstjórn, sveitarstjóri og oddviti sveitarstjórnar hafa ekki gefið leyfi fyrir heræfingum í Þjórsárdal. Haft var samband við oddvita fyrir nokkrum vikum og hann látinn vita að hugsanlega yrði hluti heræfinga sem fyrirhugaðar voru hafðar í Þjórsárdal. Ekki voru nein önnur samskipti við yfirvöld Skeiða- og Gnúpverjahrepps fyrr en eftir að oddviti frétti daginn fyrir sveitarstjórnarfund að heræfing stæði fyrir dyrum. Haft var samband við Utanríkisráðuneytið. Þar fengust þær upplýsingar að um gönguæfingu væri að ræða og væri búið að hafa samband við landeigendur. Oddviti kynnti sveitarstjórnarmönnum í lok sveitarstjórnarfundar daginn eftir þessa niðurstöðu. 

Þrátt fyrir að umræður um heræfinguna hefðu mátt eiga sér stað áður en hún fór fram er það ekki skylda að taka á dagskrá slíkt málefni.  

Vísað er til 10. greinar um stjórn og fundarsköp Skeiða- og Gnúpverjahrepps.  Einar Bjarnason og Matthías Bjarnason tóku undir bókunina.

  1. Fjárhagsáætlun 2018 viðauki. Máli frestað.
  2. Leikskólapláss. Barn búsett utan sveitarfélags. Lögð fram beiðni um vist barns starfsmanns sveitarfélagsins sem búsettur er í öðru sveitarfélagi. Erindi samþykkt samhljóða. Ekki kemur til aukakostnaður vegna vistar barnsins.
  3. Skólavist í grunnskóla. Beiðni vegna barns búsettu utan sveitarfélags. Sveitarfélagið sem barnið kemur frá lýsir sig reiðubúið til að greiða kostnað samkvæmt viðmiðunargjaldskrá Sambands íslenskra sveitarfélaga auk umsamins viðbótarkostnaðar.
  4. Styrkir til félaga og samtaka. Drög að reglum. Framhald frá síðasta fundi. Sveitarstjóri lagði fram drög að reglum og styrkjum til félaga og samtaka. Reglur samþykktar samhljóða. Sjá nánari í fylgiskjali.
  5. Heildarfjárhæð styrkveitinga innan árs. Sveitarstjóri lagði fram tillögu um að heildarfjárhæð til styrkveitinga samkvæmt máli nr. 6 verði kr. 80.000 til loka árs 2018. Rúmast innan fjárhagsáætlunar. Samþykkt samhljóða.
  6. Nemendafélagið Mímir. Beiðni um styrk. Erindi frá stjórn nemendafélagsins Mímis, undirritað af Ástráði Unnari Sigurðssyni. Þar er óskað eftir styrk til að halda söngvakeppni. Samþykkt samhljóða að veita styrk til keppninnar að fjárhæð 40.000 kr.
  7. Staða loðdýrabænda. Lagt var fram minnisblað unnið af Arnari Má Elíassyni og Snorra Má Sigurðssyni hjá Byggðastofnun um stöðu loðdýrabænda. Fram kemur í minnisblaðinu að búgreinin eigi við mikinn vanda að stríða um þessar mundir.  Oddviti lagði fram eftirgreinda bókun :

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps skorar á landbúnaðarráðherra að hlutast til um að gerðar verði ráðstafanir til aðstoðar fyrirtækjum sem stunda minkarækt á Íslandi.

Það má telja líklegt að sveiflur verði áfram í greininni hér eftir sem hingað til. Takist að koma á sveiflujöfnunarsjóði og leggja greininni til fjárupphæð til að leysa  úr bráðavanda má telja líklegt að greinin rétti úr kútnum og verði aftur arðbær.

Búið verði svo um hnútana að þegar betur árar greiði greinin til baka það fjármagn sem fer í bráðaaðgerðir. Ingvar, Einar og Matthías tók undir bókunina, Anna Sigríður sat hjá.

  1. Umsókn frá Rarik um lóð við Suðurbraut. Lögð fram beiðni frá Sigurði Jakobssyni fyrir hönd Rarik um lóð undir spennistöð við Suðurbraut nr. 6. Samþykkt samhljóða og máli vísað til Skipulagsnefndar.
  2. Fundargerð Skipulagsnefndar nr. 164. Lögð fram og kynnt. Ekki voru mál til afgreiðslu frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi á fundinum.
  3. Fundargerð stjórnar 55. Fundar. BS. UTU. Fundargerð lögð fram og staðfest.
  4. Verkfundur. Gatnagerð 02.10.18. Fundargerð lögð fram og kynnt.      Sveitarstjórn leggur áherslu á að malbikun á götum í Brautarholti verði lokið á næstu vikum.
  5. Samningur um landskerfi bókasafna. Samningur lagður fram og staðfestur. Sveitarstjóra falið að undirrita samninginn fyrir hönd sveitarfélagsins.
  6.  Strætókort. Framhald frá síðasta fundi. Samþykkt samhljóða að styrkur til framhalds- og háskólanema til kaupa á strætókortum verði kr. 20.000 fyrir hvern einstakling.  Skólaárið 2018- 2019. Skilyrði fyrir styrkveitingu er staðfesting viðkomandi skóla um námsvist. Sjá nánar í fylgiskjali.
  7.  Samgönguáætlun. Beiðni um umsögn. Máli frestað til næsta fundar.
  8.  Persónuverndaryfirlýsing SKGN. Lögð fram drög að persónuverndaryfirlýsingu fyrir sveitarfélagið, unnin af sérfræðingum hjá Dattaca labs. Samþykkt að fresta afgreiðslu yfirlýsingarinnar. Sveitarstjóra falið að leita nánari útskýringa á nokkrum atriðum í yfirlýsingunni.
  9.  Ársfundur náttúruverndarnefnda 2018. Boð á ársfund náttúruverndarnefnda. Fundarboði vísað til Umhverfisnefndar.
  10.  Samkomulag um lóð við Hjálparfoss. Skógræktin óskar eftir afnotum að lóð við Hjálparfoss landnr. 226798 undir salernisaðstöðu.  Samkomulagið samþykkt samhljóða.
  11. Önnur mál löglega fram borin.
  1. Anna Sigríður Valdimarsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun: Suðningsyfirlýsing og baráttukveðjur til kynsystra minna í tilefni að Kvennafrídeginum. Með von um að samfélagsbreytingarnar séu réttu megin við hornið en ekki handan þess eins og svo lengi áður. Aðrir sveitarstjórnarmenn tóku heilshugar undir bókunina.

    Mál til kynningar :

  1. Skipulagsstofnun. Mannvirki á hálendinu.
  2. Afgreiðslur byggingafulltrúa.
  3. Stjórn Sambands Ísl sveitarfélaga fundur nr. 863.
  4. Stjórn Sambands Ísl sveitarfélaga fundar nr. 864.
  5. Þingskjal 0020. Breyting á barnalögum. Nr. 76 2003.
  6. Þingskjal 0019. Stofnun ráðgjafastofnunar.
  7. Staðgreiðsluáætlun 2019.
  8. Vinátta fréttabréf.
  9. Stjórn Byggðasafns Árnesinga.
  10. Fundur stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands 01.10.2018.
  11. Fundur stjórnar Tólistarskóla Árnesinga nr. 189.
  12. Fundur stjórnar SASS nr. 537.
  13. Breytilegir vextir Lánasjóðs sveitarfélaga.
  14. Synjun á gistileyfum.

Fundi slitið kl. 12:00. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn  7. nóvember, næstkomandi. Kl. 09.00.

 

 

Gögn og fylgiskjöl: