Sveitarstjórn

45. fundur 23. ágúst 2017 kl. 14:00
Starfsmenn
  • Mætt til fundar: Björgvin Skafti Bjarnason Einar Bjarnason

 

               45. fundur í sveitarstjórn Skeiða-og Gnúpverjahrepps í Árnesi miðvikudaginn 23. ágúst 2017  kl. 14:00.

Mál til afgreiðslu og umfjöllunar :

1.     Íþróttamál ungmenna- samstarf ungmennafélaga í uppsveitum. Árni Þór Hilmarsson íþróttakennari mætti til fundarins. Árni sagði frá hugmyndum um sameiginlegt keppnisfélag í íþróttum í Uppsveitum Árnessýslu. Hann lagði áherslu á ávinning af slíku samstarfi. Sveitarstjórn lýsir ánægju með hugmyndina stofnun keppnisfélags í Uppsveitum Árnessýslu og styður heilshugar við hana. Sveitarstjórn hvetur til áframhaldandi umræðna um málið.

2.     Samningamál við Rauðakamb. Oddviti greindi frá gangi mála í samningaviðræðum milli Rauðakambs og sveitarfélagsins um svæði í Þjórsárdal við Rauðakamb til uppbyggingar ferðaþjónustu. Reiknað er með að semja um verkefnið í nokkrum skrefum. Unnið verður að skipulagsmálum þegar samningar liggja fyrir.

3.     Hitaveita Gnúpverja. Framkvæmdaþörf. Lagt var fram bréf undirritað af stjórn Hitaveitunnar þar sem greint er frá þörf félagsins til framkvæmda og þar með talið borun eftir auknu vatni. Stjórnin óskar eftir að sveitarfélagið kosti borun holunnar ásamt því sem þeirri framkvæmd fylgir. Afgreiðslu málsins frestað. Sveitarstjórn samþykkir að skoða útfærslur í rekstri hitaveitna í sveitarfélaginu. Sveitarstjóra falið að boða stjórn Hitaveitu Gnúpverja til fundar og ræða um framgang framkvæmdamála hitaveitunnar.

4.     Hólaskógur- fjallaskáli. Ákvörðun um ráðstöfun. Sveitarstjórn samþykkir að auglýsa eftir rekstraraðilum að fjallaskálanum í Hólaskógi. Sveitarstjóra falið að annast auglýsingu.

5.     Hjúkrunarrými í Árnessýslu. Þörf á úrbótum. Sveitarstjóri lagði fram upplýsingar um stöðu hjúkrunarrýma á Suðurlandi. Ekki er útlit fyrir að nýtt hjúkrunarheimili verði tilbúið til notkunar fyrr en árið 2020. Rýmin á nýja hjúkrunarheimilinu verða 50. Samtals lögðust af 35 rými með lokun heimilanna á Kumbaravogi og Blesastöðum. Fjölgun nemur því aðeins 15 rýmum, af þeim sem til þekkja er það engan veginn nægjanlegt.  Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps lýsir þungum áhyggjum af skorti á hjúkrunarrýmum á Suðurlandi. Það hljóti að teljast með öllu óviðunandi að senda þurfi íbúa svæðisins í mörgum tilfellum um langan veg til vistar á hjúkrunarheimilum. Sveitarstjórn hvetur til þess að lögð verði áhersla á að flýta uppbyggingu hjúkrunarrýma í héraðinu og fjölga þeim meira en sem nemur áðurnefndum fjölda.

6.     Bréf frá Skipulagsstofnun. Varðar aðalskipulagsbreytingu. Árneshverfi, stækkun á svæði verslunar og þjónustu. Lagt fram bréf frá Skipulagsstofnun undirritað af Sigríði Björk Jónsdóttur. Í bréfinu er óskað eftir rökstuðningi við breytingarnar sem meðal annars fela í sér að ekki er gert ráð fyrir leikskóla á svæðinu. Sveitarstjóra og oddvita falið að svara bréfinu.

7.     Skipulagsnefnd fundarg. 138. fundar. Mál nr:1,2,3,4 og 5. Þarfnast afgreiðslu.

1. Stóri-Núpur 2 166610: Afmörkun og stærð lóðar – 1708022

Lögð fram umsókn Huga Baldvins Hugasonar-Briem dags. 3. júní 2017 um staðfestingu á hnitsettri afmörkun jarðarinnar Stóri-Núpur 2. Jafnframt breytist stærð jarðarinnar úr 177 ha (skráning í fasteignaskrá) í 210,7 ha.

Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við afmörkun ytri marka jarðarinnar með fyrirvara um samþykki eigenda aðliggjandi landa á hnitsetningu landamarka. Að mati nefndarinnar er þó nauðsynlegt að afmörkuð sé sérstök lóð utan um gamla íbúðarhúsið (lnr. 166608) í staðinn fyrir að jarðamörkin gangi í gegnum mitt hús án þess að fyrir liggi teikningar af húsinu sem sýnir skiptinguna. 

Sveitarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulagsnefndar.

2.   Reykholt í Þjórsárdal: Baðstaður og gisting: Deiliskipulag – 1708030

Lögð fram til kynningar tillaga að skipulags- og matslýsingu deiliskipulags fyrir Reykholt í Þjórsárdal. í lýsingunni kemur fram að fyrirhugað er að fjarlægja eldri mannvirki sem fyrir eru á svæðinu og byggja upp baðstað með laugasvæði fyrir almenning, búningsaðstöðu, veitingastað og gistingu (um 40 herbergi).  

Skipulagsnefnd bendir á að ekki er hægt að taka lýsinguna til formlegrar afgreiðslu fyrr en fyrir liggur samþykki sveitarstjórnar um breytingu á aðalskipulagi svæðisins.

Sveitarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulagsnefndar varðandi lýsingu deiliskipulagsins en felur skipulagsfulltrúa að kynna lýsingu aðalskipulagsbreytingar skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sem byggir á upplýsingum sem fram koma í fyrirliggjandi gögnum.   

3.   Sandlækur I, land 2 lnr. 201307: Íbúðabyggð og landbúnaðarsvæði: Aðalskipulagsbreyting – 1706017

 Lagt fram bréf Skipulagsstofnunar dags. 25. júlí 2017 þar sem ekki er fallist á að breyting á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps á spildu úr landi Sandlækjar geti talist vera óveruleg.

 Skipulagsnefnd mælir með að málið verði tekið fyrir í vinnu við endurskoðun aðalskipulagsins. 

Sveitarstjórn samþykkir að auglýsa deiliskipulagið að nýju skv. 1 mgr. 41. gr skipulagslaga nr 123/2010 með þeirri breytingu að lóðirnar verði frístundahúsalóðir í samræmi við gildandi aðalskipulag í stað þess að vera íbúðarhúsalóðir  

4.   Búrfellsvirkjun 166701: Lagning vinnuvegar: Framkvæmdaleyfi – 1707003

Lögð fram umsókn Landsvirkjunar dags. 30. júní 2017 um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vinnuvegar frá gangnamunna frárennslisganga til suðurs að núverandi vegslóða að Búrfellsskógi. Fram kemur að framkvæmdin hafi verið kynnt fulltrúa Umhverfisstofnunar og að í fornleifaskráningu hafi engar fornleifar verið á svæðinu.

Þar sem fyrirhugað er að vinnuvegurinn breytist í aðalaðkomuleið að Búrfellsskógi telur skipulagsnefnd að forsenda framkvæmdaleyfis sé að gerð verði breyting á deiliskipulagi svæðisins. 

Sveitarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulagsnefndar. 

5.   Holtabraut 1-7: Holtabraut 1 og 3: Fækkun lóða: Deiliskipulagsbreyting – 1704037

Lögð fram endurskoðuð tillaga að breytingu á deiliskipulagi Brautarholts sem nær til lóða við Holtabraut. Tillaga að breytingu á deiliskipulagi sem fólst í að fjórum einbýlisalóðum við Holtabraut (1,3,5 og 7) var breytt í tvær raðhúsalóðir fyrir 4-6 íbúðir í hvoru húsi var grenndarkynnt með bréfi dags. 2. maí 2017 og athugasemdabréf frá íbúum innan þéttbýlisins. Þá liggja einnig fyrir viðbrögð umsækjenda við efni athugasemda. Í endurskoðaðri tillögu hefur aðkomu að húsunum m.a. verið breytt, gert er ráð fyrir sameiginlegu bílastæði, stærð íbúða verður 40-90 fm, aðkomu frá Skeiðavegi að Malarbraut er lokað og austurmörk lóðar nr. 3 færð fjær landamörkum við Húsatóftir 2.

Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við breytingar sem gerðar hafa verið á tillögunni en telur að í ljósi þess hve miklu er breytt þurfi að kynna tillöguna að nýju. Mælir nefndin með að sveitarstjórn samþykki að auglýsa tillöguna skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að íbúum innan Brautarholts verði tilkynnt sérstaklega um auglýsinguna.

Sveitarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulagsnefndar og felur skipulagsfulltrúa að auglýsa deiliskipulagsbreytinguna skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga.

8.     Fundargerð stjórnar Bergrisans 26. Fundur.  Fundargerð lögð fram og kynnt.

9.     Fundargerð stjórnar Bergrisans 27.fundur.   Fundargerð lögð fram og kynnt.

10. Körfuboltadeild Gnúpverja. Stuðningur.  Lagt var fram bréf frá Körfuboltadeild Gnúpverja. Undirritað af Jóhannesi Helgasyni. Þar er greint frá starfsemi deildarinnar og óskað eftir samstarfi við sveitarfélagið og stuðningi frá því. Sveitarstjórn lýsir ánægju með framtakssemi deildarinnar og lýsir vilja til að stamstarfs við deildina.

11. Blindrafélagið. Beiðni um stuðning. Lagt fram bréf frá Blindrafélaginu undirritað af Halldóri Einarssyni þar sem óskað er eftir stuðningi við félagið. Sveitarstjórn samþykkir að styrkja félagið um 25.000 kr.

12. Skeiðalaug. South central, framhald leigu og aðrar hugmyndir. Mál fellt niður þar sem South central hyggst ekki halda áfram rekstri Skeiðalaugar.

13. Íbúðalánasjóður. Boð íbúðalánsjóðs um kaup á íbúð við Holtabraut. Sveitarstjórn hafnar boðinu um kaupin á íbúðinni.

14. Verksamningur um gatnagerð. Þarfnast staðfestingar. Lagður fram undirritaður verksamningur milli sveitarfélagsins og Neseyjar ehf um verkið ,,Gatnagerð 2017“

Verksamningur staðfestur með fjórum atkvæðum.  Gunnar Örn Marteinsson greiddi atkvæði gegn samningnum og lagði fram eftirfarandi bókun: Ekki er hægt að samþykkja verksamning þann sem hér er lagður fram þar sem hann byggir á tilboði sem var langt umfram kostnaðaráætlun eða sem nemur tæpum 28 miljónum, aðeins eitt tilboð barst í verkið og auk þess er búið að fresta lokadagsetningu verksins um 11 mánuði frá því sem tilgreint var í útboðinu, ég tel nokkuð ljóst ef 1.okt 2018 hefði verið lokadagsetning verksins eins og verksamningur kveður á um en ekki 1.nóv 2017 eins og útboðsskilmálar sögðu hefðu fleiri tilboð borist. Það skal tekið fram að undirritaður telur mjög nauðsynlegt að ráðast í fyrirhugaðar framkvæmdir en telur að eðlilegt hefði verið að breyta um verkáætlun og leita annar leiða til að ná niður kostnaði við verkið.

15. Önnur mál.

I.  Oddviti og Halla Sigríður sögðu frá ferð sem farin var í Gjána í Þjórsárdal 21 ágúst sl. Ásamt sérfræðingum Umhverfis-ráðuneytis. Tilefnið var undirbúningur friðlýsingar. Sveitarstjórn lýsir áhyggjum af ástandi gróðurs í Gjánni og samþykkir að sjá til þess að þegar í stað verði sett upp aðvörunarskilti í Gjánni til varnar gróðurs

Mál til kynningar

A. Fundargerð SNS og SBU.
B. Fundargerð 180. Fundar Sambands Ísl svf.
C. Áætlun refaveiðar
D. Afgreiðslur byggingafulltrúa. 17-58.
E. Afgreiðslur byggingafulltrúa. 17-59.
F. Bréf frá SÍS. Kostnaðarþátttaka sveitarfélaga samningamál.
G. Atvinnustefna uppkast endurbætt.
H. Bréf frá Skipulagsstofnun, staðfesting varðar Búrfellsvirkjun,
náma við Ísakot.

Fundi slitið kl . 17.05.

Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn  6. september  næstkomandi. Kl. 14.00.

Gögn og fylgiskjöl: