- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Hrönn Jónsdóttir, starfsmaður á skrifstofu, kom inn á fund og kynnti vinnu sem átt hefur sér stað við innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og hvað framundan er. Vinnufundur hefur farið fram og hún hefur verið að vinna að því að staðsetja sveitarfélagið innan þeirra markmiða sem fara á í innleiðingu á. Alls eru þetta 17 markmið og 169 undirmarkmið. Mikilvægt er að hafa þessi markmið í huga við alla stefnumótunarvinnu til framtíðar. Mælir hún með að innleiðingarferlið fari í gegnum vinnu allra nefnda sveitarfélagsins, að innleiðingin taki til heildrænnar nálgunar og að markmið verði sett til lengri tíma.
Auk þess kynnti hún vinnuna sem farið hefur af stað í tengslum við loftslagsstefnu. Lagt var fram tilboð sem barst vegna verkefnastjórnunar í verkið í tengslum við samstarf við hin sveitarfélögin í uppsveitunum. Sveitarstjóri og Hrönn ræddu um það að upphafsvinnan og næstu skref gæti vel verið unnin af starfsmönnum sveitarfélagsins með möguleika á að nýta verkefnastjórann á síðari stigum.
Sveitarstjórn er ánægð með vinnu Hrannar við að að greina stöðu sveitarfélagsins innan heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og er henni hrósað fyrir vel unnin störf. Sveitarstjórn tekur jákvætt í að fara í innleiðingu heimsmarkmiða og gerð loftslagsstefnu og að innleiðingin verði með heildrænni nálgun þvert á sveitarfélagið til lengri tíma. Að auki áréttar sveitarstjórn til annarra nefnda sveitarfélagsins að ferlið fari í gegnum vinnu þeirra við alla stefnumótum. Innleiðing loftslagsstefnu sé hluti af þeirri vinnu. Samþykkt er tilboð frá verkefnastjóra sem nemur vinnu á siðaru stigum og er gert er fyrir kostnaði vegna innleiðingar loftslagsstefnu í fjárhagsáætlun fyrir árið 2022. Sveitarstjórn skorar á önnur sveitarfélög uppsveitanna að gera slíkt hið sama og innleiða loftslagsstefnu til lengri tíma með heildrænni nálgun.
Tillaga að sameiginlegri svæðisáætlun fjögurra sorpsamlaga og 32ja sveitarfélaga á suðvesturhluta landsins um meðhöndlun úrgangs árin 2022-2033 lögð fram til staðfestingar.
Sveitarstjórn staðfestir með 4 atkvæðum sameiginlega svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs árin 2022-2033.
Lóðarleigusamningur fyrir Flatholt 2 og skiptayfirlýsing í tengslum við sameiginlega uppbyggingu á aðstöðu fyrir hreinsun og verkun á seyru, lagður fram til kynningar.
Drög að samþykktum húsnæðissjálfseignarstofnunar (hses) á landsbyggðinni lögð fram samhliða ákvörðun um þátttöku í stofnun húsnæðissjálfseignarstofnunarinnar.
Sveitarstjórn samþykkir að taka þátt í stofnun húsnæðissjálfseignarstofnunar á landsbyggðinni og felur sveitarstjóra að sækja stofnfund.
Persónuverndarstefna Skeiða- og Gnúpverjarhrepps, útbúin af persónuverndarfulltrúa sveitarfélagsins, lögð fram til kynningar. Stefnan samræmist 16. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um frið og réttlæti sem ætlað er að stuðla að friðsælum og sjálfbærum samfélögum fyrir alla, tryggja öllum jafnan aðgang að réttakerfi og byggja upp skilvirkar og ábyrgar stofnanir fyrir alla á öllum sviðum.
Sveitarstjórn samþykkir persónuverndarstefnu með 4 atkvæðum.
Rætt var hvort setja ætti upp rafræna mæla inn á heimili sem njóta þjónustu Hitaveitu Brautarholts. Fjárfesta þyrfti auk mæla í stýribúnaði samhliða og má ætla að kostnaðurinn nemi allt að 3,5.- 4. milljónum með uppsetningu. Núverandi mælar eru núna komnir á tíma.
Fyrirhugað er að að bora nýja holu í sumar og þarf að skoða í framhaldinu hvort farið verði í að skipta út mælum.
Tvö tilboð bárust í gerð vegar og lagnaskurðar við Nautavað, nýtt hverfi vestan Árness. Um er að ræða tilboð annars vegar frá Arnon ehf. að fjárhæð 4.594.800 kr. og hins vegar sameiginlegt tilboð frá Strá ehf. og Ólafsvöllum að fjárhæð 4.993.240 kr. Verðin eru fyrir utan lagnir. Verklok skv. útboðslýsingu er 15. apríl nk.
Sveitarstjórn samþykkir með 4 atkvæðum að ganga að tilboði Arnons ehf. og felur sveitarstjóra að ganga frá samningi við verktakann.
Lögð fram til kynningar skýrsla frá skoðunarmanni á vegum Mannvits vegna ástandsskoðunar á Þjórsárskóla og bókasafnshúsinu í Brautarholti. Niðurstaða sýna liggur ekki fyrir en fara þarf í að skipta út parketi í trésmíðastofu og laga loftaplötur á efri hæð Þjórsárskóla. Leki hefur verið í loftaglugga í bókasafnshúsinu og þarf að laga hann ásamt skemmd í millivegg v. lekans. Að öðru leyti taldi skoðunarmaður húnsæðin vera í góðu ástandi.
Lögð fram umsagnarbeiðni vegna umsóknar um leyfi til rekstrar gististaðar að Sandlæk I, fasteignanr. 225-8002.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við umsókn um rekstur gististaðar að Sandlæk I.
Lagt fram bréf frá nýstofnuðu Hestamannafélagi Uppsveita til kynningar á starfsemi félagsins með ósk um fund í framhaldinu með sveitarstjórn.
Sveitarstjórn tekur vel í erindið og felur sveitarstjóra að boða aðila úr stjórn hestamannafélagsins til fundar.
Bréf frá umboðsmanni barna lagt fram til kynningar, þar sem sveitarfélög eru hvött til að virða rétt barna til þáttöku og áhrifa og til að innleiða að fullu ákvæði Barnasáttmálans í allri framkvæmd og ákvarðanatöku á þeirra vettvangi.
Staðan á stefnu og aðgerðaráætlun í málefnum sveitarfélaga 2019-2023 lögð fram til kynningar
Bréf frá skólastjórafélagi Íslands lagt fram til kynningar.
Ástandið í samfélaginu undanfarin tvö ár sýnir að full þörf er á að setja upp aðgerðaráætlun, til framtíðar, þegar neyðarástand myndast, til að mæta slíkum álagstímum sem skólastjórnendur margra skólastofnana hafa þurft að sinna að undanförnu.
Máli frestað. Sveitarstjóra falið að afla nánari gagna.
15. Umhverfis- og tæknisvið uppsveita. Ný Gjaldskrá. Fundargerð 92. fundur stjórnar
Ný gjaldskrá kynnt vegna útgáfu byggingarheimilda, byggingarleyfis og þjónustu byggingarfulltrúa í samræmi við breytingu á byggingareglugerð.
Sveitarstjórn fór yfir nýja gjaldskrá og staðfesti með 5 atkvæðum. Fundargerð að öðru leyti lögð fram til kynningar.
16. 17. Skólanefndarfundur Þjórsárskóli
Fundargerð lögð fram til kynningar.
17. 18. Skólanefndarfundur Leikskóli
Fundargerð lögð fram. Tekin voru til umræðu eftirfarandi mál úr fundargerð:
Liður 2. Uppfærðar gjaldskrárreglur og reglur með dvalarsamningi lagðar fram til staðfestingar.
Sveitarstjórn staðfestir samhljóða uppfærðar gjaldskrárreglur og reglur með dvalarsamningi.
Liður 3. Sumarlokun 2022. Lögð var fram samhliða þessum málslið ályktun frá foreldrafélaginu Leiksteini.
Sveitarstjórn staðfestir tillögu skólanefndar að hafa lokað í 25 daga sumarið 2022 í samræmi við útgefið skóladagatal. Leikskólastjóri þarf að finna lausnir til að leysa afleysingar þeirra orlofsdaga starfsmanna sem út af standa án aukins kostnaðar. Meðal annars væri hægt að gera könnun snemma í vor um hugsanlega nýtingu foreldra á dagvistun í júní og ágúst og haga fríum eftir því. Foreldrar gætu þá fengið niðurfellingu á leikskólagjöldum yfir sumartímann í samræmi við það ef tilkynnt er með góðum fyrirvara að vistunartími verði ekki nýttur samfellt t.d. í 5 daga.
Liður 4. Undirbúningstími fyrir leiðbeinendur. Leikskólastjóri óskar eftir að undirbúningstímar fyrir leiðbeinendur verði teknir aftur upp. Um er að ræða 32. Klst. á mánuði eða 20% stöðugildi. Kostnaður við auka stöðugildi v. viðbótarundirbúningstíma er allt frá 1.300.000 kr. til 1.950.000 kr. á ári.
Undirbúningstímar í dag eru nú 204,5 klst. á mánuði.
Miðað við þær forsendur sem sveitarstjórn hefur í höndum telur hún fjölda undirbúningstíma miðað við stærð leikskólans vera rúma til að skipuleggja starfið. Kjarasamningar leikskólakennara setja sveitarfélaginu ákveðnar skorður kostnaðarlega til frekara svigrúms við auka undirbúningstíma. Sveitarstjórn telur jákvætt að ófaglært starfsfólk fái tíma til undirbúnings og hvetur til að nýta svigrúm þegar það gefst. Sveitarstjórn veltir upp hvort skoða þurfi nánar starfsemi og skipulag leikskólans í samanburði við sambærilega leikskóla á landinu öllu.
Liður 5. Aukin þörf á hækkun á stöðugildi vegna forfallaafleysinga. Afgreiðslu frestað. Afla þarf frekari gagna.
Liður 10. Framtíð Leikholts hugleiðingar stjórnenda.
Sveitarstjórn er sammála ábendingum frá stjórnendum leikskóla og telur að þörf sé komin á að greina og skoða nánari starfsemi og skipulag leikskólans. Tekið er jákvætt í ábendingar sem fram komu á skólanefndarfundi um að stofnaður verði starfshópur og að farið verði í slíka vinnu.
Að öðru leyti var fundargerðin lögð fram til kynningar.
18. Umhverfis- og tæknisvið uppsveita. Fundargerð 231. fundur skipulagsnefndar
231. fundur skipulagsnefndar
26. Búrfellsvirkjun; Endurskoðað deiliskipulag - 2112064
Landsvirkjun og Skeiða- og Gnúpverjahreppur leggja fram uppfært deiliskipulag af Búrfellssvæðinu. Gert var deiliskipulag vegna stækkunar Búrfellsstöðvar, staðfest í B-deild stjórnartíðinda 27. jan 2016 sem síðan hafa verið gerðar 4 breytingar í því skipulagi sú síðasta staðfest í B-deild 18. apríl 2018. Framkvæmdum við þá stækkun er nú að mestu lokið og hóf Búrfellsstöð II rekstur 2018. Nú er lögð fram breytt tillaga. Þar sem virkjun er fullbyggð og rekstur hennar hafinn snýr breytt skipulag að því að skilgreina núverandi stöðu svæðisins með Búrfellsvirkjun í fullum rekstri. Því tekur tillagan til núverandi stöðu svæðisins og til þeirra breytinga sem fyrirhugaðar eru frá gildandi skipulagi.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að deiliskipulagið verði samþykkt og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur liggi fyrir innan aðalskipulags sveitarfélagsins.
Sveitarstjórn samþykkir með 5 atkvæðum að deiliskipulagið verði samþykkt og það auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
27. Flatir lóð 17 L193908; Ægisbyggð; Breytt heiti lóðar - 2201009
Lögð er fram umsókn frá Ægi Rafn Magnússyni um breytt heiti lóðarinnar Flatir lóð 17 L193908. Óskað er eftir að lóðin fái staðfangið Ægisbyggð. Lóðin er innan deiliskipulags frístundasvæðisins á Flötum í landi Réttarholts.
Skipulagsnefnd mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að umsókn um breytt heiti lóðar verði skoðað í samhengi við breytingar á deiliskipulagi svæðisins þar farið var fram á lagfæringu á staðföngum innan svæðisins. Í samræmi við uppfærðan deiliskipulagsuppdrátt ætti því umrædd gata að fá nýjan staðvísi og allar lóðir við þá götu viðeigandi staðfang. Skipulagsnefnd mælist til þess að umsókn um breytt heiti lóðar verði synjað.
Sveitarstjórn synjar með 5 atkvæðum umsókn um breytt heiti lóðar.
232. fundur skipulagsnefndar
26. Árnes; Smábýla- og frístundalóðir; Skilmálabreyting; Deiliskipulagsbreyting - 2201052
Lögð er fram umsókn frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi sem tekur til smábýla- og frístundalóða að Árnesi. Í málinu felst óveruleg deiliskipulagsbreyting fyrir smábýla- og frístundalóðir sunnan Þjórsárdalsvegar. Staðföng breytast og byggingareitur á einni lóð auk skilmála er varðar mænisstefnu og þakhalla.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að samþykkja viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi.
Sveitarstjórn samþykkir með 5 atkvæðum viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins og að málið fá málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi.
27. Réttarholt L166586; Framkvæmdarleyfi - 2201028
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Í framkvæmdinni felst ný tenging Nautavaðshverfisins við þéttbýlið í Árnesi, lagning göngustíga og stofnlagna.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að ekki verði gerð athugasemd við útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli deiliskipulags svæðisins.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli deiliskipulags svæðisins.
28. Mið- og Árhraunsvegur; Breytt landnotkun - 2201044
Lögð er fram beiðni frá Ósum ehf. er varðar breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi sem tekur til Mið- og Árhraunsvegar. Í breytingunni felst að landnotkun landsins færist til fyrra horfs með þeim hætti að skilgreind landnotkun landsins verði landbúnaðarsvæði í stað frístundasvæðis. Svæðið sem um ræðir tekur til um 19 ha. Samhliða er óskað eftir því að samþykkt verði óveruleg breyting á deiliskipulagi svæðisins í tak við breytingu á aðalskipulagi. Að mati umsækjanda er ekki um verulega breytta landnotkun að ræða þar sem mikill hluti umrædds landsvæðis innan L225283 fellur undir flóðasvæði og er því ekki byggilegt. Ætlunin er að stunda skógrækt á svæðinu auk þess sem umsækjandi ætlar sér að hafa fasta búsetu á svæðinu. Ekki er farið fram á breytingar á byggingarheimildum deiliskipulags samhliða breytingu á aðalskipulagi.
Skipulagsnefnd UTU gerir ekki athugasemd við framlagða beiðni um breytingar á skipulagi svæðisins. Skipulagnsnefnd telur að umsótt breytt landnotkun svæðisins sé óveruleg breyting á aðalskipulagi svæðisins og skuli fá málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 36. gr. og 2 mgr. 43. gr. skipulagslaga er varðar óverulegar breytingar á aðal- og deiliskipulagi þar sem að ekki er líklegt að breytingin hafi áhrif á einstaka aðila eða stórt svæði umfram þá landnotkun sem fyrir er á svæðinu, sérstaklega ef horft er til skilgreindrar flóðahættu innan þess. Nefndin mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að samþykkja framlagða beiðni á grundvelli fyrrgreindra greina skipulagsreglugerðar.
Sveitarstjórn samþykkir með 5 atkvæðum umsókn um breytta landnotkun á landi Mið- og Árhraunsvegar og að málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 36. gr. og 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga 123/2010. Sveitarstjórn áréttar þó að ef ætlunin er að fara í skógrækt umfram 10 ha er hún framkvæmdaleyfisskyld í samræmi við gildandi aðalskipulag.
19. Samband sunnlenskra sveitarfélaga. Fundargerð 577. fundur stjórnar
Lagt fram erindi samtaka sunnlenskra sveitarfélaga skv. i. lið fundargerðar, þar sem lagt er til að sveitarfélögin á Suðurlandi kanni möguleika á sameiginlegum rekstri umdæmisráðs barnaverndar í landshlutanum á grundvelli breytingar á barnaverndarlögum.
Sveitarstjórn styður að rekið verði sameiginlegt umdæmisráð barnaverndar að lámarki fyrir Suðurland. Auk þess samþykkir sveitarstjórn að stjórn Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings (NOS) verði falið að fjalla um málið og kanna vilja sveitarfélaga til samstarfs um umdæmisráð barnaverndar. Fundargerð að öðru leyti lögð fram til kynningar.
20. Bergrisinn. Fundargerðir stjórnar
Fundargerð lögð fram til kynningar.
21. Samband íslenskra sveitarfélaga. Fundargerð 905. fundur stjórnar
Fundargerð lögð fram til kynningar.
22. Skóla- og velferðarnefnd Árnesþings. Fundargerð viðbragðsstjórnar
Fundargerð lögð fram til kynningar.
23. Sorpstöð Suðurlands. Fundargerð 308. fundur stjórnar
Fundargerð lögð fram til kynningar.
24. Samband íslenskra sveitarfélaga. Fundargerðir Fræðslumálanefndar
Fundargerðir lagðar fram til kynningar.
25. Samtök Orkusveitarfélaga. Fundargerð 48. fundar
Fundargerð lögð fram til kynningar.
26. Önnur mál löglega fram borin
Leiga á fjallaskálum. Á síðasta fundi sveitarstjórnar var samþykkt að auglýsa fjallaskálana við Bjarnalækjarbotna, Tjarnarver og Gljúfurleit til leigu til eins árs í senn. Lagt er til að skálarnir verði leigðir út til lengri tíma en eins árs og allt að fimm ára.
Fyrri ákvörðun sveitarstjórnar er hér með breytt og samþykkt að auglýsa fjallaskálana til leigu í fimm ár.
Fundi slitið kl. 17.55. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 16. febrúar. kl. 14.00. í Árnesi.
Gögn og fylgiskjöl: