- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera
Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:
1. Fjárhagsáætlun 2022. Álagningarforsendur 2022
Álagningarforsendur fyrir árið 2022 lagðar fram til fyrri umræðu. Gert er ráð fyrir að íbúafjöldi hækki um tæp 10% og verði í kringum 575 manns árið 2022. Fyrir liggur að fasteignamat í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hækki um 7,1% á milli ára skv. upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands. Lagt er til að útsvar verði 14,52%.
Álagningarhlutfall v. fasteignagjalda helst óbreytt á milli ára 0,45% af heildarfasteignamati fyrir íbúðir og íbúarhús, 1,32% af heildarfasteignamati v. opinberra stofnanna og 1.65% af heildarfasteignamati vegna atvinnuhúsnæðis. Lóðarleiga innheimtist skv. lóðar-leigusamningnum.
Vatnsgjald helst óbreytt 0,2% af heildarfasteignamati íbúðarhúsi, lóða og atvinnuhúsnæði, þó að hámarki 37.000 kr. Eitt vatnsgjald er innheimt af sumarhúsum, 31.500 kr.
Gjöld v. seyrulosunar hækka um 3%. Árlegt gjald fyrir tæmingu rotþróa er 11.845 kr. Aukalosun seyru greiðist af eiganda 46.350 kr. Þar sem holræsakerfi er til staðar á vegum sveitarfélagsins er innheimt fráveitugjald, nemur gjaldið er 0,25% af fasteignamati.
Gjöld v. sorphirðu hækka um 3% en gjöld v. sorpeyðingar hækka um 7% sökum aukins kostnaðar við þann málalið.
Sorpeyðingargjald fyrir dýrahræ er óbreytt frá fyrra ári,
Öll gjöld vegna vatnsgjalds, lóðarleigu, sorphirðu og sorpeyðingargjöld, að undanskyldu sorpeyðingargjaldi vegna dýrahræja, hafa sömu gjalddaga og fasteignaskattur og fer innheimta þeirra fram á 10 gjalddögum á árinu 2022 þann 1. feb, 1. mars, 1. apríl. 1 maí, 1. júní, 1. júlí, 1. ágúst, 1. september, 1. október og 1. nóvember.
Grunnur heimæðagjalds vatnsveitu er 150.000 kr. og var samþykktur í sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepp þann 6. október 2009, m.v. byggingarvísitölu grunnvísitölu í janúar 2009, 489,6 stig. Heimæðagjald í nóvember 2021, er þá 241.912 kr. m.v. byggingarvísitölu nóvember 2021, 789,6 stig.
Sveitarstjórn samþykkir með fimm atkvæðum að vísa álagningarforsendum v. ársins 2022 til síðar umræðu.
2. Fjárhagsáætlun. Gjaldskrá Leikholts, Þjórsárskóla og Mötuneytis
Lagt er til að gjaldskrá v. vistunar barna í Leikholti hækki um 5%. Gjald vegna fæðis í Þjórsárskóla, Leikholti og fæði fyrir starfsmenn í skólamötuneyti hækka um 3%.
Sveitarstjórn samþykkir með 5 atkvæðum að vísa breytingum á gjaldskrá Leikholts, Þjórsárskóla og mötuneytis til annarrar umræðu.
3. Fjárhagsáætlun. Tómstundastyrkur
Lagt er til að tómstundastyrkur fyrir árið 2022 verði 80.000 kr. pr. barn. Styrkurinn er veittur skv. reglugerð um tómstundastyrk. Það sem af er árinu 2021 hafa verið veittar um 2,4 milljónir kr. í tómstundastyrk. Gert er ráð fyrir að greiða 3.3 milljónum kr. i tómstundastyrk í fjárhagsáætlun 2022.
Sveitarstjórn samþykkir að tómstundastyrkur fyrir árið 2022 verði 80.000 kr. pr. barn.
4. Fjárhagsáætlun. Laun kjörinna fulltrúa.
Viðmiðunartafla launa fyrir fulltrúa í sveitarstjórnum frá sambandi íslenskra sveitarfélaga lögð fram. Laun fulltrúa í sveitarstjórn fylgja töflunni m.v. tímafjölda og fjölda íbúa í sveitarfélaginu. Laun fulltrúa í sveitarstjórn samanstanda nú af fastri greiðslu auk greiðslu fyrir hvern setinn fund. Lagt er til að hækka laun kjörinna og skipaðra fulltrúa í samræmi við hækkanir kjarasamninga FOSS frá og með 1. janúar 2022. Miðað er við grunnlaun eins og þau hafa verið í öllum nefndum og ráðum fram til 31. desember 2021.
Sveitarstjórn samþykkir með fimm atkvæðum að hækka laun kjörinna og skipaðra fulltrúa í öllum nefndum í samræmi við hækkanir kjarasamninga Foss frá og með 1. janúar 2022.
5. Fjárhagsáætlun. Laun kjörstjórnar
Erindi barst frá kjörstjórn. Skv. bókun frá fundi sveitarstjórnar 4. júlí 2018 skal kjörstjórn fá greitt 10.000 kr. fyrir hvern fund en formaður 15.000 kr. Kjörfundur vegna sveitarstjórnarkosninga er metinn sem sex fundir en aðrir kjörfundir svo sem Alþingis-kosningar sem fimm fundir.
Sveitarstjórn samþykkir með fimm atkvæðum að sveitarstjóri finni út hæfilega þóknun fyrir kjörfundi. Áfram fái kjörstjórn greidd funarlaun fyrir fundi sem þau sitja.
6. Fjárhagsáætlun 2022. Fyrri umræða
Útkomuspá fyrir árið 2021 lögð fram ásamt fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 og þriggja ára áætlun v. áranna 2023-2025. Umræður sköpuðust um fjárhagsáætlun. Gert er ráð fyrir halla á rekstri sveitarfélagsins skv. útkomuspá fyrir árið 2021. Boðað verður til vinnufundar í sveitarstjórn milli umræðna.
Sveitarstjórn samþykkir með fimm atkvæðum að vísa útkomuspá og fjárhagsáætlun v. ársins 2022 og áranna 2023-2025 til annarrar umræðu.
7. Umsóknir um lóðir
Lagðar fram umsóknir um þrjár lóðir frá þremur aðilum.
Um er að ræða lóðirnar:
Heiðargerði 1- sameiginlegir umsækjendur EKS verk ehf. og Villingur ehf.
Hamragerði 3- umsækjandi Aðalheiður Jónsdóttir
Hamragerði 9 og til vara Hamragerði 5- umsækjandi Sindri Mar Jónsson
Sveitarstjórn samþykkir með fimm atkvæðum að úthluta Heiðargerði 1 til umsækjenda EKS verks ehf. og Villings ehf., Hamragerði 3 til Aðalheiðar Jónsdóttur og Hamragerði 5 til Sindra Mar Jónssonar. Umræddar lóðir voru auglýstar þann 3. nóvember sl. Hamragerði 9 var ekki í auglýsingu þá og er þar af leiðandi ekki hægt að úthluta henni að þessu sinni.
8. Sorpmál. Lífrænt sorp, grenndargámar og gámastöðvar.
Ljóst er að finna þarf söfnun lífræns sorps farveg í sveitarfélaginu. Hingað til hefur starfsmaður áhaldahúss safnað lífræna sorpinu saman úr tunnum í þéttbýlum sveitarfélagsins og keyrt á Selfoss. Í dreifbýlinu hefur verið notast við svokallað Hörputurna sem ekki er lengur talinn vera til jarðgerðar. Lagt er fram tilboð Jarðgerðarfélagsins við innleiðingu á heimajarðgerð þar sem íbúar sveitarfélagsins sjá sjálfir um að jarðgera lífræna sorpið.
Í nýjum samningum við Íslenska gámafélagið er gert ráð fyrir grenndarstöðum í þéttbýlunum. Er um að ræða 5 framhlaðningsgáma á hverri stöð. Er von til að grenndarstöðvar muni bæta þjónustu og flokkun á sorpi í sveitarfélaginu. Gert er ráð fyrir að byrja á 2-3 grenndarstöðvum í sveitarfélaginu. Miklar umræður sköpuðust um sorpmál enda aukast kröfur á sveitarfélög við mótttöku sorps.
Sveitarstjórn vísar málinu til umhverfisnefndar.
9. Ferðamálafulltrúi uppsveita. Embættið
Samþykkt var á fundi sveitarstjórnar 3. mars sl. að segja upp aðild að samstarfi um ferðamálafulltrúa. Eftir greiningur frá SASS er vert að skoða hvort grundvöllur sé fyrir samstarfi um nýtt embætti atvinnu- og ferðmálafulltrúa sem myndi þá styðja við allar atvinnugreinar í sveitarfélaginu.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps er sammála um að í embætti ferðamálafulltrúa hafi verið unnið gott starf. Hins vegar telur sveitarstjórn að ekki sé lengur grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi og samþykkir með fimm atkvæðum að standa við fyrri bókun sveitarstjórnar. Er oddvita falið að kynna niðurstöðu sveitarstjórnar og fylgja eftir fyrri ákvörðun. Sveitarstjórn þakkar Ásborgu Arnþórsdóttur fyrir gott samstarf og mjög gott starf í þágu sveitarfélagsins.
10. Umhverfis- og tæknisvið uppsveita. Breytingar á samþykktum. Seinni umræða
Breytingar á samþykktum UTU lagðar fram til síðari umræðu. Tillögur um breytingu á áður samþykktum breytingum UTU fela eingöngu í sér framsal valds til byggingarfulltrúa, en ekki til skipulagsnefndar og skipulagsfulltrúa, eins og gert var ráð fyrir í upphaflegri tillögu. Sveitarstjórn samþykkir með fimm atkvæðum breytingar á samþykktum Umhverfis- og tæknisviðs uppsveita ásamt viðaukum 1 og 2. Gera þarf breytingar á samþykkt um stjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps til samræmis við breytingu á samþykktum UTU.
11. Búrfellsnáma
Mikil eftirspurn er eftir vikri úr Búrfellsnámu. Nokkrir aðilar hafa lýst yfir áhuga á að nýta efni úr námunni. Lagt er til að farið verði í útboð á opnum grunni til hæstbjóðanda vegna notkunar á námunni.
Sveitarstjórn samþykkir með fimm atkvæðum að fara í útboð á nýtingu námunnar og felur oddvita að vinna að því.
12. Landvernd. Námskeið í Loftslagsvernd í verki.
Lagt fram boð frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um þátttöku í námskeiðinu Loftslagsvernd í verki sem haldið verður á árinu 2022.
Sveitarstjórn vísar málinu til umhverfisnefndar.
13. Skipulagsnefnd - Fundargerð 227. fundar
22. Hagi L166550; Hagi spennistöð; Stofnun lóðar - 2110063
Lögð er fram umsókn Sigrúnar Guðlaugsdóttur um stofnun lóðar úr jörðinni Hagi L166550. Óskað er eftir að stofna 56 fm lóð undir spennistöð við Melhagaveg (3346-01) skv. meðfylgjandi lóðablaði. Fyrir liggur jákvæð umsögn Vegagerðarinnar á staðsetningu lóðarinnar.
Skipulagsnefnd UTU gerir ekki athugasemd við stofnun lóðarinnar skv. fyrirliggjandi umsókn. Skipulagsnefnd mælist til að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykki erindið.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum stofnun lóðar úr jörðinni Hagi L166550 undir spennistöð við Melhagaveg.
23. Selhöfðar í Þjórsárdal; Skipulagslýsing aðal- og deiliskipulags; Deiliskipulag - 2110091
Lögð er fram skipulagslýsing er varðar breytingu á aðalskipulagi og nýtt deiliskipulag ferðamannasvæðis Sandártungu í Þjórsárdal. Skipulagssvæðið afmarkast af tjaldsvæði við Sandártungu til suðvesturs, Sandá til norðvesturs, Selhöfðum til norðausturs og Þjórsárdalsvegi til suðausturs. Skógi vaxnar hlíðar Skriðufells mynda sterka umgjörð handan Sandár ásamt Selhöfðum, en þar er vinsælt útivistarsvæði. Svæðið hefur verið í umsjón Skógræktarinnar síðan 1938.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að samþykkja skipulagslýsingu til kynningar og umsagna í samræmi við 30. og 40 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir að skipulagslýsing verði lögð fram til kynningar og umsagna í samræmi við 30. og 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2019 en gerir athugasemd vegna akstursleiðar um svæðið.
Anna Sigríður Valdimarsdóttir sat hjá við afgreiðslu þessa máls.
24. Stekkjartún, Stóru-Mástungu 2 L166604; Breytt landnotkun; Aðalskipulagsbreyting - 2110081
Lögð er fram skipulagslýsing sem tekur til aðalskipulagsbreytingar í landi Stóru-Mástungu II. Breytingin varðar breytingu á landnotkun aðalskipulags á um 3,8 ha lands (mynd 1) austan við núverandi bæjarhús að Stóru Mástungu II úr landbúnaðarsvæði í frístundabyggð. Samhliða aðalskipulagsbreytingu áforma landeigendur að deiliskipuleggja svæðið sem um ræðir fyrir þrjár lóðir ásamt þremur byggingarreitum fyrir frístundahús.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að samþykkja skipulagslýsingu til kynningar og umsagna í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Afgreiðslu frestað
25. Breiðanes L201727; Háanes; Breytt heiti lóðar - 2111003
Lögð er fram umsókn Orra Eiríkssonar f.h. Eignarhaldsfélagsins Vöðla ehf, dags. 31. október 2021, um breytingu á staðfangi landsins Breiðanes L201727 í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Óskað er eftir því að landið fái staðfangið Háanes sem er örnefni innan landsins. Ástæða umsóknar er að jörð með heitinu Breiðanes er þegar til í sveitarfélaginu.
Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að ekki verði gerð athugasemd við nýtt staðfang landsins.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps gerir ekki athugasemd við nýtt staðfang.
14. Sjóðurinn góði- Styrktarbeiðni
Lögð fram beiðni frá Sjóðnum góða um fjárframlag til að aðstoða þá sem eiga í fjárhagsvandræðum.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða með fimm atkvæðum að styrkja sjóðinn um 100.000 kr.
15. Stígamót – Styrkbeiðni
Lögð fram beiðni frá Stígamótum um fjárstuðningi og samstarfi um reksturinn.
Sveitarstjórn samþykkir með fimm atkvæðum að styrkja Stígamót um 100.000 kr.
16. Beiðni v. Hillrally 2022
Beiðni frá Hillrally á Íslandi um leyfi til að halda keppni um vegi sem falla undir sveitarfélagið 6. og 7. Ágúst 2022. Um er að ræða eftirfarandi vegi:
a) Hluti línuvegar Sandöldum / Hvítá að Sultartanga frá sveitarfélagsmörkum við Hrunamannahrepp að afleggjaranum rétt eftir vaðið yfir Svartá. Síðasti hluti SS-9 á mynd á blaðsíðu 6 í meðfylgjandi leiðarlýsingu.
b) Vegurinn frá línuvegi rétt eftir vaðið yfir Svartá að Skáldabúðum SS-10 á mynd á blaðsíðu 6 í meðfylgjandi leiðarlýsingu.
Sveitarstjórn samþykkir með 5 atkvæðum beiðni um leyfi til að halda keppni um framangreinda vegi innan sveitarfélagsins en bendir á að fá þarf leyfi hjá viðkomandi landeigendum.
17. Sveitarfélagið Árborg. Ályktun bæjarráðs um leikskólamál
Kynnt var bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga með ályktun bæjarráðs sveitarfélagsins Árborgar um leikskólamál.
Lagt fram til kynningar.
18. Samband íslenskra sveitarfélaga. Innleiðing hringrásarkerfis
Verkefni sambands íslenskra sveitarfélaga vegna innleiðingar hringrásarkerfis kynnt.
Sveitarstjórn vísar málinu til umhverfisnefndar.
19. Umhverfis- og tæknisvið uppsveita. Ársskýrsla
Ársskýrsla Umhverfis- og tæknisviðs uppsveita lögð fram til kynningar. Rekstur embættisins hefur gengið ágætlega á árinu, Afgreiðslu mála hefur fjölgað á milli ára og gjaldskrárhækkanir sem samþykktar voru fyrr í haust eru farnar að skila sér.
20. Héraðsnefnd Árnesþings. Fjárhagsáætlanir 2022
Lögð fram fjárhagsáætlun Héraðsnefndar Árnesþings.
Fjárhagsáætlun 2022 staðfest samhljóða með 5 atkvæðum.
21. Skóla- og velferðarþjónusta. Fjárhagsáætlun 2022
Lögð fram fjárhagsáætlun Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings.
Fjárhagsáætlun 2022 staðfest samhljóða með 5 atkvæðum.
22. Skóla- og velferðarþjónustan. Aðalfundur
Lögð fram til kynningar fundargerð aðalfundar Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings sem haldinn var 2. nóvember sl.
23. Menningar- og æskulýðsnefndar. Fundargerðir 14. og 15. fundar.
Fundargerðir lagðar fram og kynntar. Menningarnefnd óskar eftir fjárframlagi að fjárhæð 300.000 kr. fyrir sveitahátíðina Upp í sveit og 100.000 kr. fjárframlagi fyrir átthagaverkefni sem fyrirhugað er árið 2022. Varamann vantar í nefndina eftir úrsögn.
Sveitarstjórn samþykkir að gera ráð fyrir fjárframlögum til sveitahátíðarinnar Upp í sveit og til átthagaverkefnis í fjárhagsáætlun 2022. Önnu Sigríði Valdimarsdóttur er falið að finna varamann í Menningar- og æskulýðsnefnd. Að öðru leyti voru fundargerðir lagðar fram og kynntar.
24. Sorpstöð Suðurlands. Fundargerð 306. stjórnarfundur
Fundargerð lögð fram og kynnt.
25. Samband sunnlenskra sveitarfélaga. Fundargerð 573. fundar stjórnar
Fundargerð lögð fram og kynnt.
26. Samband íslenskra sveitarfélaga. Fundargerðir 901. og 902. fundar stjórnar
Fundargerðir lagðar fram og kynntar.
27. Önnur mál löglega fram borin
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Auglýsing til að tryggja starfhæfi sveitarstjórna og auðvelda ákvarðanatöku við stjórn sveitarfélaga
Vegna fjölgunar COVID-19 smita í samfélaginu hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra veitt sveitarstjórnum tímabundna heimild til að ákveða að sveitarstjórnarmönnum sé heimilt að taka þátt í fundum sveitarstjórna eða nefnda og ráða á vegum sveitarfélaga, þrátt fyrir að um annað sé getið í samþykktum þeirra. Heimildin gildir til 31. janúar 2022.
Lagt fram.
Skipulagsnefnd Umhverfis- og tæknisviðs uppsveita. Umsókn um framkvæmdaleyfi
Umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu 1,3 km ljósleiðararörs í eigu Orkufjarskipta sem áætlað er að leggja um 1,3 km leið til að ná að tengja saman fyrirliggjandi ljósleiðarakerfi í eigu Orkufjarskipta. Lögnin mun liggja með vegi nr.: 32, ca. 1,3 km frá Sandá að tengistað í landi Ásólfstaða. Samtals er lögnin um 1,3km. Ljósleiðararörið verður plægt beint í jörðu. Engar tengingar verð á leiðinni. Brunnar eru til staðar í sitt hvorn endann. Lagnaleiðin er samsíða vegi 32, Þjórsárdalsvegi og liggur fyrir samþykki Vegagerðarinnar. Við leiðarvalið var tekið mið af landslagi og forðast var eftir megni að fara um viðkvæm svæði. Einnig var leitað upplýsinga um bestu leiðir hjá heimamönnum sem þekkja vel til á svæðinu.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps gerir ekki athugasemd við útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir lagningu 1,3 km ljósleiðarrörs á grundvelli framlagðrar umsóknar. Skipulagsfulltrúa UTU falið að ljúka málinu.
Fundarboð. Aðalfundur Bergrisans
Fundarboð á aðalfund Bergrisans sem haldinn verður í fjarfundi miðvikudaginn 24. nóvember n.k. er kynnt auk beiðnar um tilnefningu á fulltrúum á fundinn. Sveitarstjórn samþykkir að fulltrúar Skeiða og Gnúpverjahrepps á fundinum verði Björgvin Skafti Bjarnason, Einar Bjarnason og Matthías Bjarnason.
Skeiðalaug- framtíð húsnæðisins
Ingvar Hjálmarsson óskaði eftir því að sveitarstjóri kalli arkitekt af Brautarholtslaug til fundar við sveitarstjórn til umræðu um breytingar á húnsæðinu til framtíðarnotkunar laugarinnar með það fyrir aukum hvort möguleiki sé að sveitarfélagið geti rekið hana áfram fyrir íbúa Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
Sveitarstjórn tekur vel í erindið og felur sveitarstjóra að hafa samband við arkitekt húsnæðisins.
Fundi slitið kl. 18.10. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 9. desember, kl 14.00. í Árnesi.
Gögn og fylgiskjöl: