- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Árnesi 04.09.2012 Fundargerð nr 34.
Mættir: Gunnar Örn Marteinsson, Jón Vilmundarson, Harpa Dís Harðardóttir, Oddur Guðni Bjarnason og Björgvin Skafti Bjarnason. Kristófer A. Tómasson, sveitarstjóri, ritaði fundargerð. Auk þess sat fundinn undir 1.lið. Helgi Bjarnason verkefnastjóri hjá Landsvirkjun.
Oddviti setti fund og spurði hvort fundarmenn vildu gera athugasemd við fundarboðið. Oddur G. Bjarnason gerði athugasemd við að fundarboð hefði borist seint. Sveitarstjóri benti á að fundarboð hefði verið sent út kl 12.00 2. September. Oddviti greindi frá að sveitarstjóri hefði sent beiðni um breytingar á fundardagskrá. 1. Breyting á deiliskipulagi í Árnesi vegna endurvarpsstöðvar Mílu. 2.Tillaga um stofnun byggðasamlags um eignarhald á fasteignum fyrir fatlaða. 3. Staða fréttaritara RÚV á Suðurlandi lögð niður. 4. Hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu. 5.Auk þess barst rétt fyrir fund fundargerð frá Afréttarmálafélagi Gnúpverja. Samþykkt að taka fyrir öll erndi nema nr. 2.Þar sem þörf væri á betri kynningu.
Dagskrá:
1. Áform Landsvirkjunar um virkjun í Stóru-Laxá. Fulltrúi Landsvirkjunar Helgi Bjarnason kynnti áform um virkjun í Stóru-Laxá. Fyrstu hugmyndir um virkjun þar komu fram árið 1960 og var opinber virkjanatillaga var sett fram 1994. Samningar um vatnamælingar.og kortagerð hafa þegar verið gerðar. Mannvirki fyrirhugaðrar virkjunar verða að mestu í Skeiða og Gnúpverjahrepps en að liltu leyti í Hrunamannahreppi. Áætlað er að forathgun ljúki fyrir lok árs 2013. Stærð fyrirhugaðrar virkjunar er um 30-35 megawött.
2. Erindi frá 4 T vegna jarðarinnar Ásbrekku.
Magnús J Árnason fyrir hönd 4T tilkynnir að hann hyggist loka reiðleið í gegnum hlaðið við bæinn Ásbrekku frá og með 1. Maí 2013.. Samþykkt að beina erindi til reiðveganefndar hestamannafélagsins Smára.
3. Fundur byggingafulltrúa frá 29.08.2012. Fundur nr. 85. Lagt fram og kynnt..
4. Fundur Skipulags og bygginganefndar frá 23.08.2012 Fundur nr. 50. Fundargerð samþykkt samhljóða.
5. Umsögn Sorpstöðvar Suðurlands um meðhöndlun úrgangs.
Lagt fram og kynnt.
6. Stuðningur við félagasamtök í sveitarfélaginu. Sveitarstjóra falið að afla gagna og tala við stjórnir félagasamtaka í sveitarfélaginu og leita eftir óskum þeirra og hugmyndum í þessum efnum.
7. Rekstrarmál í Félagsheimilinu Árnesi. Farið yfir umsóknir sem borist hafa í veitingarekstur í Árnesi og á grundvelli möguleika í veitinga og mötuneytismálum. Gunnar Örn Marteinsson oddviti vék af fundi.
A. Samþykkt að ráða Kolbrúnu Kristínu Daníelsdóttur sem matráð fyrir grunnskóla og leikskóla með aðsetur í félagsheimilinu í Árnesi.
B. Samþykkt að hafna umsóknum einstaklinga frá júní 2012 um ofangreindan veitingarekstur.
Gunnar Örn Marteinsson oddviti koma aftur til fundar.
C. Samþykkt að skipa starfshóp er vinni að framtíðarsýn veitingareksturs og ferðaþjónustu í Árnesi. Í nenfndina voru skipuð Harpa Dís Harðardóttir, Sigrún Guðlaugsdóttir og Kristófer Tómasson sveitarstjóri.
8. Fyrirkomulag sorpmála. Farið yfir minnispunkta varðandi nýjan samning um sorpmál við Íslenska gámafélagið. Samþykkt að óska eftir ítarlegri upplýsingum frá Íslenska gámafélaginu.
9. Málefni Ábótans. Framhald frá fundi 33.
Lögð fram umsögn frá Ívar Pálssyni lögmanni sveitarfélagsins. Erindi Ábótans ehf frá fundi 33 hafnað á grundvelli hennar.
10. Umsókn um styrki úr Jöfnunarsjóði til tónlistarnáms.
Lagt fram og kynnt.
11. Fundargerð Skólanefndar nr. 20. Leikskólanefnd 15.08.2012
Samþykkt samhljóða.
12. Fundargerð Skólanefndar nr. 21.Grunnskólanefnd 15.08.2012.
Samþykkt samhljóða.
13. Deiliskipulag um minkabú að Ásum.
Lögð fram að nýju að lokinni auglýsingu skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tillaga að deiliskipulagi fyrir minkabú á spildu úr landi Ása í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Tillagan var tekin fyrir í skipulags- og byggingarnefnd 25. júlí 2012 ásamt innkomnum athugasemdum sem voru fimm talsins, umsögn Landslaga, dags. 24. júlí, um innkomnar athugasemdir, umsögn Valtýs Sigurðssonar hrl. dags. 24. júlí, f.h. eigenda Ása, og eigin umsögn eigenda Ása dags. 24. júlí. Tillagan var lögð fram með lagfæringum til að koma til móts við ábendingar/athugasemdir Heilbrigðiseftirlitsins dags. 18. maí 2012. Skipulags- og byggingarnefnd vísaði málinu til afgreiðslu sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps og var skipulagsfulltrúa falið að vinna að endanlegri umsögn í samráði við lögmann sveitarfélagsins fyrir næsta fund sveitarstjórnar. Á fundi sveitarstjórnar 14. ágúst 2012 var málið tekið fyrir og lá þá fyrir umsögn Landslaga dags. 13. ágúst 2012. Sveitarstjórn samþykkti að fresta afgreiðslu málsins til næsta fundar sveitarstjórnar og bókaði jafnfram að umsækjendur þyrftu fyrir þann fund að gera betur grein fyrir tilteknum atriðum. Tillaga er nú lögð fram að nýju ásamt framangreindum gögnum. Til viðbótar er lagt fram bréf Guðjóns T. Árnasonar, formanns fulltrúaráðs Skaftholts, dags. 25. ágúst, bréf Höllu Guðmundsdóttur og Viðars Gunngeirssonar, dags. 27. ágúst, og bréf Valtýs Sigurðssonar hrl., dags. 29. ágúst 2012.
Gunnar Örn oddviti hóf umræður um tillöguna. Hann kvaðst ekki ætla að samþykkja tillöguna.
Skafti gat þess að allt láglendi í aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps fyrir utan það sem skipulagt væri fyrir annað væri landbúnaðarland. Sérstaklega sé þess getið að íbúðarhúsum sé ekki dreift um bújarðir. Frístundabyggðir skuli hafa í sérstökum svæðum. Alltaf sé val hvar hús séu sett niður. Ef eigi á annað borð að staðsetja búið nálægt búinu í Mön sé sú staðsetning sem valin hefur verið æskileg. Skafti telur rök ábúenda Ása fullnægjandi og ekki sé ástæða til annars en samþykkja deiliskipulagstillöguna.
Jón Vilmundarson tók til máls og kvaðst samþykkja tillöguna. Harpa Harðardóttir kvaðst vera tilbúin til að samþykkja tillöguna, hún myndi að sínu mati samræmast skipulagsmálum. Skafti gat þess að minkahús væru í flestum tilfellum innan 500 metra frá næstliggjandi íbúðarhúsum annarra en eigenda. Hann taldi að ekki væri um að ræða skerðingu verðmæta á nærliggjandi jarða. Gunnar oddviti lagði áherslu á að hann væri mjög mótfallin tillögunni. Hann benti á að það væri mjög líklegt að verði tillagan samþykkt muni það skapa sveitarfélaginu skaðabótaskyldu og undraðist orð Valtýs lögmanns Ásafólks um að ekki væru líkur á slíkri skaðabótaskyldu. Skafti benti á hann þekkti ekki til þess að nokkursstaðar á Suðurlandi kæmu fram kvartanir um lyktarmengun frá minkabúum. Hann taldi að menn væru því að samþykkja tillöguna að halda sig við þá stefnu sem hefur verið ríkjandi í landbúnaðarmálum. Gunnar oddviti ítrekaði að sér finndist greinargerð frá Ásafólki og Valtýs lögmanns innihaldslítil.
Skafti benti á að ekki væru til staðar íbúðarhús innan 500 metra frá fyrirhuguðu minkabúi. Gunnar benti á að með ákvörðun sem þessari væri verið að koma í veg fyrir að íbúðarhús yrðu byggð á því svæði.
Gengið var til atkvæðagreiðslu um tillöguna.
Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum gegn einu. Jón Vilmundarson, Harpa Dís Harðardóttir, Björgvin Skafti Bjarnason og Oddur Guðni Bjarnason.
Gunnar Örn Marteinsson greiddi atkvæði gegn tillögunni.
Eftirfarandi er greinargerð frá Hörpu Dís, Jóni Vilmundarsyni og Björgvin Skafta:
„Fyrirliggjandi deiliskipulagstillaga gerir ráð fyrir að heimilt verði að byggja nýtt minkabú við hlið minkabús sem fyrir er á svæðinu. Búið er á svæði sem skilgreint er sem landbúnaðarsvæði í aðalskipulagi. Fyrirhuguð starfsemi og skipulag fellur því beinlínis að landnotkun og stefnumörkun aðalskipulags á svæðinu.
Engin gögn liggja fyrir í málinu sem benda til þess að grenndaráhrif starfseminnar, lykt eða önnur möguleg óþægindi, verði umfram það sem búast má við á landbúnaðarsvæði almennt. Starfsemin mun því hvorki hafa neikvæð áhrif á verðmæti jarða eða starfsemi á svæðinu umfram það sem aðilar máttu búast við. Slík grenndaráhrif verða nágrannar að þola bótalaust. Ekki verður séð að auðvelt sé að staðsetja búið á öðrum stað innan jarðarinnar auk þess sem gild rök hafa komið fram af hálfu umsækjenda fyrir staðsetningunni. Ekki er því um brot á svokallaðri meðalhófsreglu að ræða.
Engar reglur eru til á Íslandi um lyktarmengun frá slíkum búum og því ekki hægt að gera umsækjendum skylt að gera frekar grein fyrir mögulegum áhrifum frá starfseminni en þeir hafa nú þegar gert í fyrirliggjandi gögnum. Engar kvartanir hafa borist vegna starfsemi þess minkabús sem fyrir er en draga má þá ályktun af því að ekki séu veruleg áhrif frá starfseminni. Þá er minnt á að staðsetning búsins er í töluverðri fjarlægð frá íbúðarhúsum aðliggjandi jarða. Í þessu sambandi er og minnt á að Skipulagsstofnun hefur fyrir sitt leyti fallist á auglýsingu tillögunnar og gerði ekki athugasemdir við framsetningu hennar. Teljum við málið því að fullu rannsakað og upplýst að þessu leyti og í samræmi við lög.
Því er haldið fram í athugasemdum að hin svokallaða 500m regla takmarki uppbyggingu á nágrannajörðum. Í fyrsta lagi bætir umrædd stækkun óverulega við það svæði sem þegar fellur undir slíka takmörkun miðað við takmörkunina frá því búi sem fyrir er. Í öðru lagi verður að líta til þess að umrædd svæði eru landbúnaðarsvæði. Áfram verður heimilt og mögulegt að nýta þau sem slík. Ekki er því hægt að líta til hugleiðinga landeigenda um aðra uppbyggingu í nágrenni búsins s.s. eins og fyrir sumarhús eða íbúðarhús sem ekki er gert ráð fyrir á skipulagi. Að auki, eins og upplýst hefur verið í málinu, er nú til skoðunar hjá stjórnvöldum lækka 500m regluna.
Með vísan til framangreinds og fyrirliggjandi gagna teljum við ekki hægt að leggjast gegn byggingu minkahús á landbúnaðarsvæði og samþykkjum því deiliskipulagið.“
Harpa Dís Harðardóttir, Jón Vilmundarson og Björgvin Skafti Bjarnason.
Eftirfarandi er greinargerð frá Gunnari Erni Marteinssyni:
Í málinu liggja fyrir ítarlegar og rökstuddar athugasemdir nágranna sem mótmæla samþykkt skipulagsins vegna mögulegra grenndaráhrifa m.a. lyktar og áhrifa á verðmæti jarðanna. Í umsögn Landslaga frá 13. ágúst sl. kemur fram að ekki hafi verið gerð nægilega grein fyrir mögulegum áhrifum búsins. Ekki liggi fyrir gögn um að áhrif búsins verði ekki neikvæð umfram það sem búast má við á slíkum svæðum. Ég tel enn að slík gögn liggi ekki fyrir. Þá tel ég að ekki liggi fyrir fullnægjandi rök fyrir því af hverju ekki er hægt að staðsetja húsin á öðrum stað á jörðinni þar sem áhrif þeirra, a.m.k. hvað varðar 500m regluna yrðu minni fyrir nágranna. Í umsögn Landslaga kemur einnig fram að leiði gildistaka skipulagsins til tjóns fyrir eigendur nágrannajarða geti þeir að öllum líkindum sótt slíkar bætur á hendur sveitarfélaginu. Á meðan umsækjendur hafa ekki upplýst á fullnægjandi hátt að áhrif skipulagsins verði ekki neikvæð fyrir nágranna og að engin hætta sé á að sveitarfélagið geti orðið bótaskylt vegna samþykktar skipulagsins get ég ekki samþykkt tillöguna.
Undirritaður tekur fram að ekki er um að ræða andstöðu við þá starfsemi sem hér um ræðir heldur er um að ræða blákalt mat á því að samþykkt þessarar skipulagstillögu komi til með að valda sveitarfélaginu fjárhagslegu tjóni og hún felur jafnframt í sér ákveðna ráðstöfun á landi sem er í einkaeign.
Einnig er rétt að benda á að samþykkt tillögunar kemur til með að valda þeim sem athugasemdir hafa gert við tillögunna verulegum fjárhagslegum útlátum á meðann þeir sem óskuðu eftir breytingunni á skipulaginu þurfa ekki að leggja í kostnað vegna málarekstrar þar sem sá kostnaður lendir á sveitarsjóði eins og hugsanlegar bætur sem sveitarsjóður gæti verið dæmdur til að greiða, slík áhætta með almannafé er alls ekki réttlætanleg. Að öðru leiti vísa ég til umsagnar Landslaga frá 13. ágúst sl. afstöðu minni til frekari stuðnings.
Ástæður þess að sveitarstjórn samþykkir tillöguna með svo afgerandi hætti þrátt fyrir að allar viðvörunarbjöllur hringi er ekki gott að átta sig á. Er mjög ósáttur við þá niðurstöðu að vera einn í minnihluta í þessu máli og hlýt að taka þessa niðurstöðu til skoðunar.
Gunnar Örn Marteinsson.
14. Tillaga um breytingu á deiliskipulagi vegna endurvarpsstöðvar Mílu ehf.
Lögð fram tillaga Landforms að breytingu á deiliskipulagi í Árnesi. Í breytingunni felst að endurvarpsstöð sem nú er staðsett á lóðinni Bugðugerði 1 verður færð á nýja 200 fm lóð við tjaldsvæðið, um 105 m vestan við sundlaugina. Fjarskiptamastrið er 30 m hátt og auk þess verður heimilt að reisa um 15 fm tækjahús á lóðinni. Samþykkt samhljóða að auglýsa deiliskipulagsbreytinguna skv. 41. Gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
15. Staða fréttaritara RÚV á Suðurlandi lagðar niður.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps mótmælir ákvöðun Ríkisútvarpsins um að leggja niður starf fréttaritara á Suðurlandi.
16. Hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu úr 7 % í 25,5 %.
Sveitarstjórn Skeiða-og Gnúpverjahrepps lýsir áhyggjum af fyrirhugaðri hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu.
17. Fundur í Afréttarmálanefnd Gnúpverja.
Kostnaðarliðum í fundargerð vísað til fjárhagsáætlunar. Fundargerð að öðru leyti samþykkt.
Mál til kynningar
A. 456. Fundur stjórnar SASS.
B. 457.Fundur stjórnar SASS.
C. 140.Fundur Skólaskrifstofu Suðurlands.
D. 219. Stjórnarfundur Sorpstöðvar Suðurlands.
E. Akstur utan vega.
F. Auglýsing frá skipulagsfulltrúa.
G. Breyting fjárhagsáætlana.
H. Skilgreining á skóladögum.
I. Tilmæli við notkun vélknúinna ökutækja við leitir.
J. Landsfundur jafnréttisnefnda sveirarfélaga 14. Sept.
K. Gangur mála við ljósleiðaralagningu.
L. Rammasamkomulag við Ríkiskaup.
Næsti fundur ákveðinn þriðjudag 2. október 2012.
Fundi slitið 16:30