Sveitarstjórn

21. fundur 04. október 2011 kl. 13:00

21. fundur haldinn  í sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps þriðjudaginn  04.10.2011  í  Árnesi  kl. 13:00.

 

Mættir: Gunnar Örn Marteinsson, Jón Vilmundarson,  Harpa Dís  Harðardóttir,  Oddur Guðni Bjarnason, og Björgvin Skafti Bjarnason. 
Kristjana  H. Gestsdóttir ritaði fundargerð.
Gunnar Örn setti fund og spurðist fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboð en svo reyndist ekki vera.


1.  Fundargerð skólanefndar nr. 11 leikskólamál haldinn 07.09.2011.
Fundargerð skólanefndar nr. 11 samþykkt.

2.  Fundargerð skólanefndar nr.12 grunnskólamál haldinn 21.09.2011.
Fundargerð  nr. 12. samþykkt. En varðandi lið 6 eru lögð fram drög að svari til trúnaðarmanns kennara.

3.  Fundargerð fræðslunefndar Flúðaskóla haldinn 26.09.2011.
Fundagerð samþykkt.


4.  Fundargerð velferðarnefndar Árnesþings 2. fundur haldinn 14.09.2011.
Fundargerð  samþykkt og ennfremur samþykktar reglur um könnun og meðferð einstakra barnaverndarmála og málaflokka hjá starfsmönnum Velferðarnefnd Árnesþings og reglur  um umsókn um fjárhagsaðstoð.


5.  Fundargerð Skipulags-og byggingarnefndar 39. fundur haldinn 22.09.2011. jafnframt lagðar fram til kynningar fundargerð afgreiðslufundar byggingafulltrúa fundur nr. 70 haldinn 13.09.2011. Fundargerð Skipulags-og byggingarnefndar nr.  39 staðfest. Afgreiðslufundargerð nr. 70 lögð fram.


6.  Erindi til sveitarstjórna frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga varðandi fjármál sveitarfélaga.  Lagt fram.

 

7.  Fundargerð fundar oddvita Laugaráslæknishéraðs haldinn 20.09.2011.
 Lögð fram.

 


8.  Fyrirspurn frá Oddi Guðna Bjarnasyni til oddvita varðandi girðingarmál á Hafinu.


Á árinu 2009 var afréttagirðing á Hafinu á Gnúpverjaafrétti rifin með vitund oddvita. Girðingin er þinglesin eign Landgræðslu ríkisins. Á öðrum fundi sveitastjórnar Skeiða og Gnúpverjahrepps 30. júní 2010 var lagt fram bréf frá Landgræðslu ríkisins þar sem oddviti er beðinn um útskýringar á þessum gjörningi og hann krafinn um að girðingin verði girt áður en fé verði sett á afrétt. Sveitastjórn óskar eftir því að gert verði mat á árangri uppgræðslu í landgræðslugirðingunni. Bréf barst frá Landgræðslunni dagsett 12. júlí 2010 skrifað af Guðmundi Stefássyni sviðsstjóra  Landgræðslunnar, fór hann lauslega yfir stöðu og framtíðarhorfur gróðursins á Hafinu vísa til þriðja fundar sveitastjórnar frá 30. júlí 2010. Boðar hann nánari úttekt á svæðinu síðar á árinu skýrslu sem er heildarúttekt um svæðið dagsettu  08. desember 2010 (þessi skýrsla hefur ekki borist sveitarstjórnarmönnum).
Nú eru nokkrar spurningar sem oddvita ber að svara og upplýsa í þessu máli.
1) Hvaða ástæðu hafði oddviti til að láta fjarlæga þessa girðingu?
2)  Hvers vegna var ekki girt strax og mistökin uppgötvuðust?
3)  Af hverju var ekki búið að girða nú í vor áður en fé var sett á afrétt tveimur árum seinna?
4) Hvers vegna var ekki girt á sama stað og umsamið var?
5) Hver greiðir þennan girðingarkostnað? (Hverjir)
6) Hver er kostnaðurinn?
7) Ef sveitarsjóður greiðir  kostnaðinn er til  fjárheimild í fjáhagsáætlun?
8) Vill oddviti bera ábyrgð á, að gæðastýring bænda sé ógnað með þessum hætti?
Nú er það ósk mín að þetta erindi verði tekið fyrir á næsta fundi sveitastjórnar og skrifleg svör verði færð til bókar.

Oddur Guðni Bjarnason.

 

Svar oddvita við fyrirspurn Odds Guðna Bjarnasonar.
Vegna fyrirspurnar frá Oddi Bjarnasyni  varðandi landgræðslugirðingu á Hafinu er rétt að taka fram að þetta hefur marg oft verið rætt í sveitarstjórn og Oddi ætti því að vera kunnugt um  að girðingin var rifin vegna þess að verið var að endurskipuleggja girðingarmálinn í kringum Sultartangastöðina og ganga þar frá málum eins og til stóð í upphafi, ekki var talin þörf á að viðhalda þeirri girðingu sem rifin var enda svæðið innan hennar orðið vel gróið og girðingin þurfti orðið talsvert viðhald. Eins og Oddur tekur fram í öðrum lið spurningarinnar var um mistök að ræða þar sem samningur var til við Landgræðsluna sem hvorki sveitarstjórn né starfsmönnum Landsvirkjunar var kunnugt um, í þeim samningi er sveitarfélaginu haldið í gíslingu hvað þetta mál varðar að því leiti að sveitarfélagið verður að viðhalda girðingu á svæðinu þar til Landgræðslunni þóknast. 
Nokkur dráttur var að framkvæmdir hæfust í vor en það stafaði aðallega af því hve seint voraði. Það að girðingin sé ekki á þeim stað sem rætt var um er ekki rétt, undirritaður ásamt girðingarverktaka og fulltrúum Landgræðslunnar fóru og skoðuðu aðstæður og er ástæðulaust að vera með aðdróttanir í garð verktakans um  annað og get ég staðfest að ég hef sama skilning á framkvæmdinni og hann.
Kostnaðurinn er áætlaður milli tvær og þrjár milljónir en endanleg tala liggur ekki fyrir þar sem ekki eru komnir reikningar frá verktaka, rætt hefur verið við Landsvirkjun um að  þegar endanlegur kostnaður liggur fyrir verði rætt við þá um þátttöku í framkvæmdinni  sem er eðlilegt þar sem um sameiginleg mistök var að ræða. Framkvæmdin er í samræmi við samþykkt sveitarstjórnar frá 30.06.2010.
Hvað varðar spurningu Odds um hvort oddviti vilji bera ábyrgð á að gæðastýringu bænda sé ógnað með þessum hætti er því til að svara að ég hef aldrei fengið nein skilaboð frá Landgræðslunni um að það standi til enda veit ég ekki hvernig það mætti vera. Hins vegar hafa einstakir sauðfjárbændur haft samband við mig og sagt mér að ákveðinn starfsmaður Landgræðslunnar væri að hafa í hótunum við þá vegna þessa máls, það þykja mér skrýtnar boðleiðir af hálfu opinbers fyrirtækis ef það er á þess vegum.

 

       
9.  Erindi frá framkvæmdastjóra Fannborgar vegna vegslóða í Kisubotnum.
Sveitarstjórn vísar erindi Fannborgar til umsagnar Umhverfistofnunar.

 


10.  Erindi frá Iðnaðarráðuneyti með ósk um umsögn vegna þingsályktunar um vernd og orkunýtingu landssvæða dags. 19. ágúst 2011.

 

 

Eftirfarandi tillaga að umsögn samþykkt með fjórum atkvæðum.
Oddur Guðni Bjarnason á móti.

Sveitarstjórn Skeiða-og Gnúpverjahrepps fagnar því að vinna við rammaáætlun skuli vera á lokastigi og telur mikilvægt að faglegt mat ráði því í hvaða flokka virkjanakostir flokkast og pólitík hafi sem minnst áhrif þar á.
 Nokkrir virkjanakostir sem eru á skipulagssvæði sveitarfélagsins í Hvítá og Þjórsá eru teknir fyrir í rammaáætlun og raðað í mismunandi  flokka eftir því sem verkefnastjórnin telur viðeigandi.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við þá röðun að öðru leiti en því að við teljum að Norðlingaölduveita í 566-567,5 m y.s. án  setlóns hefði átt að fara í biðflokk en ekki í verndunarflokk eins og tillagan gerir ráð fyrir.
 Rökin fyrir því áliti er að ekki hefur farið fram sérstakt umhverfismat vegna þeirrar framkvæmdar og þess vegna liggur ekki fyrir hver áhrif hennar yrðu á umhverfið og  þá einkum Þjórsárverin. Veita í fyrr greindri hæð kæmi til með að standa utan veranna.
 Röksemdarfærsla formanns nefndarinnar á kynningarfundi um rammaáætlun á Selfossi þann 21. september 2011 fyrir því að setja veituna í verndunarflokk voru að gert væri ráð fyrir stækkun friðlandsins í Þjórsárverum í náttúruverndaráætlun en samkvæmt henni virðast mörkin til suðurs dregin talsvert útfyrir það sem fólk á þessu svæði hefur talið vera hin eiginlegu Þjórsárver.
Rétt er að vekja athygli á því að náttúruverndaráætlun 2009-2013 var lögð fram eftir að 12 manna verkefnisstjórn rammaáætlunar  var skipuð í september 2007. Þess vegna er eðlilegt að spurt sé hvers vegna verið var að taka einn kost sem var til skoðunar í rammaáætlun og útiloka hann áður en vinna verkefnastjórnar rammaáætlunar lauk?  Eins má líka spyrja hvers vegna var þá ekki þessi kostur  tekinn strax út úr vinnu verkefnastjórnar þegar náttúruverndaráætlun 2009-2013 lá fyrir ef hún útilokaði veituna?
Einnig er rétt að benda á að um nokkurt skeið hefur verið starfandi nefnd sem átti að vinna að hugmyndum um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum, áhugi á starfi þeirrar nefndar virðist hafa gufað upp eftir að í ljós kom að fulltrúar sveitarfélaganna á svæðinu töldu eðlilegast að friðlandsmörkinn réðust endanlega eftir að verkefnistjórnin um rammaáætlun hefði lagt faglegt mat á fyrirhugaða Norðlingaölduveitu í 566-567,5 m y.s. án setlóns.
Sveitarstjórn Skeiða-og Gnúpverjahrepps er ekki að taka afstöðu til þess hvort ráðast eigi í framkvæmdir við Norðlingaölduveitu í fyrr greindri hæð en telur eðlilegt að þessi kostur  eins og aðrir séu flokkaðir óháð inngripum stjórnvalda eftir að vinna verkefnastjórnar rammaáætlunar  hófst og ítrekar það álit að veitan hefði átt að flokkast í biðflokk uns fram hefði farið umhverfismat á framkvæmdinni.


Gunnar Örn Marteinsson, Harpa Dís Harðardóttir, Jón Vilmundarson, Björgvin Skafti Bjarnason.

 

Bókun frá Oddi Guðna Bjarnasyni


Athugasemdir við erindi Iðnaðarráðuneytis vegna þingsályktunar um Rammaáætlun. Ég fagna því að Norðlingaölduveita skuli vera sett í verndarflokk og að  hin umdeilda náttúruvin skuli nú vera endanlega sett í þann flokk sem vernda ber, eftir 40 ára baráttu heimamanna og þeirra  sem unna Þjórsárverunum.
Að sama skapi mótmæli ég því harðlega að virkjanirnar þrjár í neðri Þjórsá þ.e. Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun skuli flokkast í orkunýtingarflokk. Á meðan ekki er hlustað á þá aðila sem gagnrýnt hafa ýmsa þætti þessara virkjana svo sem hvernig hægt er að tryggja lífríki árinnar þannig að lax og sjóbirtingur hafi sama örugga gönguleið og nú. Þess má geta að á árinu 2010 veiddust um níu þúsund laxar í Þjórsá. Það hafa engar samfélagsrannsóknir farið fram á svæðinu. Það hlýtur að vera krafa íbúa sveitarfélagsins að fram fari rannsókn á áhrifum þess að virkjað  verði í svo mikilli nálægð við íbúana, og margt mætti fleira upp að telja. Því er það krafa mín að virkjanirnar þrjár  í neðri í hluta Þjórsár verði settar í biðflokk.

 

11. Starfsmannamál.
Samþykkt að auglýsa eftir starfsmanni  í áhaldahús sveitarfélagsins til eins árs og frekari starfslýsing  lögð fram á næsta sveitarstjórnarfundi.  Erindi vísað til endurskoðunar fjárhagsáætlunar.

 

12. Þrjú erindi varðandi opnunartíma Neslaugar.
Lögð fram.

 

13. Tjaldsvæði við Árnes. Framhald umræðna frá síðasta fundi. 
Samþykkt með fjórum atkvæðum að leigja tjaldsvæðið til Jóhanns ehf til tveggja ára. 
Oddur Guðni Bjarnason situr hjá.

 

14. Tillaga að reglum  á þátttökukostnaði sveitarfélagsins á kaupum námsmanna á strætókortum.
Sveitarstjórn samþykkir að framlengja reglurnar  um eitt ár þ.e. skólaárið 2011-2012.

 

 

Mál til kynningar


A. Fundargerð stjórnar AÞS 302. fundur haldinn 07.09.2011.

B. Fundargerð stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands 206. fundur haldinn 19.09.2011.

C. Fundargerð stjórnar Heilbrigðisnefndar Suðurlands 135.fundur haldinn 09.09.2011.

D. Fundargerð stjórnar SASS 446. fundur haldinn 09.09.2011.
E. Fundargerð stjórnar Skólaskrifstofu Suðurlands 133. fundur haldinn 15.09.2011.

F. Erindi frá Umhverfisráðuneyti varðandi landsáætlun um meðhöndlun úrgangs.

G. Fundargerð aðalfundar Vottunarstofunnar Túns.

 

Fleira ekki.  Fundi slitið kl. 16:55      
        
                     

Ítarefni fundar hér.