Sveitarstjórn

35. fundur 23. júní 2008 kl. 20:30

35. fundur var haldinn í hreppsnefnd Skeiða-og Gnúpverjahrepps mánudaginn 23. júní 2008 kl. 20:30 í Árnesi.

    

Mættir voru: Gunnar Örn Marteinsson, oddviti, Ingvar Hjálmarsson, Jón Vilmundarson, Tryggvi Steinarsson, Björgvin Skafti Bjarnason.  Auk þess mæta á fundinn Pétur Ingi Haraldsson, skipulagsfulltrúi og lögmennirnir Ingunn Agnes Kro og Garðar Garðarsson frá Landslögum, lögfræðiskrifstofu, og ritar Ingunn fundargerð í fjarveru Sigurðar sveitarstjóra.

 

Oddviti setti fund og athugaði hvort einhverjar athugasemdir væru við boðun fundarins, svo reyndist ekki vera.

 

Á dagskrá er eitt mál, breyting á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2004 – 2016 varðandi Hvamms- og Holtavirkjun.

 

Gengið er til dagskrá.

 

1.      Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga að breytingu á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2004 – 2016, Hvamms- og Holtavirkjun, sem var auglýst til kynningar frá  18. janúar til 15. febrúar 2007 með athugasemdafresti til 1. mars s.á. Athugasemdir bárust frá 279 einstaklingum og 8 lögaðilum í 92 bréfum sbr. framlagðar athugasemdir.  Jafnframt eru lögð fram bréf Umhverfisstofnunar frá 4. maí 2007, Fornleifaverndar ríkisins, dags. 27. mars 2007, Rangárþings ytra, dags. 26. mars 2007, Rannsóknarmiðstöðvar í jarðskjálftaverkfræði, dags. 2. júlí 2007, Landbúnaðarstofnunar, dags. 7. maí 2007, Atla Gíslasonar, hrl., dags. 3. febrúar 2008, tölvupóstur Sigþrúðar Jónsdóttur, dags. 10. mars 2008 og umsögn Landslaga lögfræðistofu um athugasemdir, dagsett 10. apríl 2008, bréf sveitarstjóra til Landsvirkjunar, dags. 7. maí 2008, og ódagsett yfirlýsing Landsvirkjunar ásamt staðfestingu hennar í bréfi dags. 19. júní 2008.

 

     Gunnar Örn Marteinsson, oddviti lagði fram svohljóðandi tillögu að afgreiðslu málsins:

 

Tillaga að afgreiðslu breytingar á Aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2004-2016v varðandi Hvamms- og Holtavirkjun.       

 

 

“Tillaga að afgreiðslu:

Auglýst tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Skeiða – og Gnúpverjahrepps 2004-2016 varðandi Hvamms- og Holtavirkjun samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í umsögn Landslaga lögfræðistofu, dags. 10. apríl 2008, varðandi færslu vegar við Haga og umfjöllunar um gróðurfar í Hagaey.

 

Greinargerð og rökstuðningur með tillögu að afgreiðslu:

Í gildandi  Aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2004-2016, er landnotkun þeirra svæða, þar sem nú er gert er ráð fyrir Árneslóni, vegna Holtavirkjunar, og Hagalóni, frestað. Er ástæða þess fyrst og fremst sú að ekki var samstaða með Rangárþingi ytra um hvort virkja skyldi í einu þrepi

 

eða tveimur. Skeiða- og Gnúpverjahreppur gerði ráð fyrir virkjun í einu þrepi. Nú liggur fyrir að framkvæmdaraðili vill virkja í tveimur þrepum og í ljósi þess var samþykkt að auglýsa breytingu á aðalskipulaginu.

 

Með þeim viðbótarskilyrðum sem fram koma í úrskurði Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum, dags. 19. ágúst 2003, og í úrskurði umhverfisráðuneytisins, dags. 27. apríl 2004, hafa þar til bær stjórnvöld talið matsskýrslu um umhverfisáhrif fullnægjandi. Þá liggja fyrir umsagnir Umhverfisstofnunar, dags. 4. maí 2007, og Fornleifaverndar ríkisins, dags. 27. mars 2007 þar sem fram kemur að stofnanirnar geri ekki athugasemd við breytinguna en minna á að sveitarfélaginu sem leyfisveitanda beri við leyfisveitingar að fylgja eftir þeim skilyrðum sem sett voru í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum. Í því sambandi er bent á að enginn þeirra staða, sem framkvæmdirnar hafa áhrif á og eru innan Skeiða- og Gnúpverjahrepps, hafa hátt minjagildi og enginn þeirra er friðlýstur. Engar náttúruminjar á náttúruminjaskrá munu glatast vegna framkvæmdanna. Í umsögn Landbúnaðarstofnunar (veiðimálastjórnar), dags. 7. maí 2007, kemur fram að breytingarnar hafi ekki afgerandi áhrif á afkomu laxfiska í Þjórsá.

 

Megin niðurstaða Skipulagsstofnunar í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna er að framkvæmdirnar hafi ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Í úrskurði umhverfisráðherra um mat á umhverfisáhrifum er tekið fram að ekkert hafi komið fram við umfjöllun ráðuneytisins sem bendi til að framkvæmdin fari í bága við lög, reglur eða alþjóðasamninga og að teknu tilliti til skilyrða muni framkvæmdin ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

 

Með vísan til framangreinds er það mat sveitarstjórnar að skili mótvægisaðgerðir þeim árangri sem gert er ráð fyrir verða helstu umhverfisáhrif virkjananna sjónræn þ.e. breytt ásýnd svæðisins vegna lóna, stíflugarða og minnkaðs rennslis árinnar um hluta virkjanasvæðisins. Sveitarstjórn mun tryggja við meðferð málsins, í framhaldi af samþykkt breytingarinnar á aðalskipulaginu, þ.e. við gerð deiliskipulagsáætlana og útgáfu framkvæmda- og byggingarleyfa, að farið verði í hvívetna eftir þeim skilyrðum og að ráðist verði í þær mótvægisaðgerðir sem gerð er krafa um skv. umhverfismati. Þá mun sveitarstjórn leitast við að tryggja, að við frekari hönnun framkvæmdanna verði dregið úr sjónrænum áhrifum þeirra, eins og frekast er unnt.

 

Um vatnsréttindi og rask vegna framkvæmdanna gilda að meginstefnu svokallaðir Títan samningar sem þáverandi landeigendur gerðu snemma á síðustu öld, auk ákvæða 22. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Þá liggur fyrir að samningaferli fram­kvæmdaraðila við þá landeigendur á virkjanasvæðinu sem framkvæmdin hefur mest áhrif á er langt komið og/eða lokið.  Þá hefur verið samið um farveg til að beina ágreiningi aðila í til að ljúka honum náist ekki samningar.  Hvað varðar landeigendur og hagsmunaðila sem framkvæmdin hefur minni áhrif á þá hefur framkvæmdaraðili kynnt þeim áhrif framkvæmdarinnar, mögulegar mótvægisaðgerðir og leitað eftir sjónarmiðum þeirra. Ekki hefur verið gengið frá samningum við þá enda erfitt og nánast útilokað að semja um bætur eða aðgerðir vegna sjónrænna áhrifa, tapaðrar

 

veiði eða sambærilegra þátta fyrr en ljóst verður hvort tjón hlýst af framkvæmdunum og hver áhrifin verða. Framkvæmdaraðili hefur hins vegar lýst því yfir að hann muni ráðast í tilteknar mótvægisaðgerðir og hafa frekara samráð við landeigendur þegar framkvæmdum verður lokið sbr. fyrirliggjandi yfirlýsingu framkvæmdaraðila. Sveitarstjórn bendir einnig á að samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 4. gr. raforkulaga nr. 65 frá 2003 getur leyfishafi virkjanaleyfis ekki hafið framkvæmdir á eignarlandi nema náðst hafi samkomulag við landeigendur og eigendur orkulinda um endurgjald nema ákvörðun um eignarnám, sbr. 23. gr., liggi þá fyrir. Enginn landeigandi eða hagsmunaaðili ætti því að verða fyrir fjárhagslegu tjóni vegna breytingarinnar eða framkvæmdanna.

 

Í umfjöllun um virkjanirnar (Núpsvirkjun, eitt þrep merkt a og tvö þrep merkt b) í skýrslu verkefnisstjórnar um 1. áfanga Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma eru Núpsvirkjarnir, hvort sem væri a eða b, í flokki virkjana með minnst neikvæð umhverfisáhrif.

 

Með vísan til niðurstöðu verkefnisstjórnunar Rammaáætlunar og niðurstöðu um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna er ljóst að um er að ræða virkjunarkost sem hefur hvað minnst umhverfsáhrif virkjana á Íslandi. Með vísan til þess, fyrirliggjandi umsagnar um athugasemdir og almannahagsmuna telur sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps rétt, þrátt fyrir hin sjónrænu áhrif framkvæmdanna, að samþykkja að gert verði ráð fyrir framkvæmdunum í aðalskipulagi sveitarfélagsins. Vísar sveitarstjórnin og til markmiðs skipulags- og byggingarlaga, sem fram kemur í 2. gr. laganna, að lögunum sé ætlað „... að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða,...“.

 

 

Tryggvi tekur fram að hann styðji tillöguna og telur að það séu fyrirliggjandi rök fyrir því að samþykkja tillöguna. Þarna sé um að ræða samninga sem voru gerðir fyrir tæpri öld, Títansamningana, sem hann telur vega þungt. Ekki sé lengur tekist á um landnotkun. Fyrir liggi undirritaðir samningar við þá sem glata munu landi. Úrskurður um mat á umhverfisáhrifum sé framkvæmdinni í vil og bæði Skipulagsstofnun og ráðherra heimili framkvæmdina. athugasemdir liggi fyrir og þeim sé ætlað að hafa áhrif á endanlega ákvörðun. Margt sé í þeim sem beri að taka alvarlega en að lang mestum hluta til séu þetta athugasemdir sem hefðu þurft að koma fram við mat á umhverfisáhrifum. Tryggvi telur rétt að samþykkja tillöguna og vill hann að lokum sérstaklega þakka Landslögum lögfræðistofu fyrir þeirra vinnu. Tryggvi tekur fram að hér þetta hafi verið gríðarleg vinna og verið nauðsynlegt hafi verið að leita til sérfræðinga í þessum málum. Tryggvi tekur fram að málið sé vel unnið og faglega staðið að öllu.

 

Jón kveðst einnig styðja tillöguna. hann tekur undir allt sem Tryggvi sagði. Einnig áréttar hann að honum finnist Landslög og sérstaklega Ívar Pálsson hafa unnið vel að því að flokka og greina öll efnisatriði sem hafi komið fram varðandi málið. Jón kveðst styðja tillöguna.

 

Gunnar tekur undir ánægju með vinnu Landslaga.

 

Líkt og Jón og Tryggvi þakkar Ingvar Landslögum fyrir vinnuna við málið. Gríðarlega mikill og langur ferill hafi verið að öllu málinu. Hann lýsir yfir stuðningi við tillöguna.

 

Skafti kveðst sammála því sem komið hefur fram. Erfitt sé þó alltaf þegar þurfi að breyta stórum hlutum lands. Vinnan sem búin er að fara fram sé þannig að það sé eðlilegt framhald að samþykkja tillöguna. Auðvitað séu margir þættir sem séu varasamir í svona löguðu en miðað við aðstæðurnar sem eru telur hann rétt að samþykkja tillöguna eins og hún kemur fram.

 

Gunnar tekur fram fyrir þá sem á horfa að að tíminn sem taki að afgreiða hlutina sé mun styttri en undirbúningurinn.

 

Skafti telur undirbúninginn hafa verið það góðan að málið eigi ekki að taka langan tíma í afgreiðslu.

 

Tillaga oddvita samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

 

    

 

                                    

 

Fleira ekki gert                          Fundi slitið kl.20:52.