Sveitarstjórn

67. fundur 15. september 2021 kl. 14:00
Nefndarmenn
  • Björgvin Skafti Bjarnason
  • oddviti
  • Anna Sigríður Valdimarsdóttir
  • Einar Bjarnason
  • Ingvar Hjálmarsson
  • Matthías Bjarnason
Starfsmenn
  • Auk þess sat Sylvía Karen Heimisdóttir sveitarstjóri sem einnig ritaði fundargerð

Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera

Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:

1. Barnvæn sveitarfélög - Innleiðing barnasáttmála SÞ

Boð barst til Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá Stjórnarráði Íslands og Unicef um að taka þátt í innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í því felst að sveitarfélag skuldbindur sig til þess að innleiða sáttmálann, sem byggir á réttindum og þjónustu við börn, og skuldbinda sig til þess að hafa hann að leiðarljósi við skipulag og í starfsemi sinni. Um er að ræða 8 skref og tekur innleiðingarferlið að lámarki tvö ár.

Sveitarstjórn tekur jákvætt í þetta boð og samþykkir sveitarstjórn með 5 atkvæðum að taka þátt í innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ungmennaráð verður fengið með í þessa innleiðingu. Sveitarstjóra er falið að samþykkja boðið og koma ferlinu af stað.

 

2. Umsókn um námsvist utan lögheimilissveitarfélags

Umsókn barst til sveitarfélagsins frá hjónum sem hyggjast flytja tímabundið í sveitarfélagið um þátttöku sveitarfélagsins v. kostnaðar við skólagöngu tveggja barna þeirra í öðru sveitarfélagi frá janúar 2022 til loka skólaárs 2021-2022. Sveitarstjóri kannaði kostnað við slíka umsókn hjá viðtökusveitarfélagi og er rukkað eftir viðmiðunargjaldskrá grunnskóla vegna skólaársins 2021-2022 sem gefnar eru út árlega af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Í ljósi aðstæðna barnanna samþykkir sveitarstjórn að greiða skólavist barnanna tveggja til viðtökusveitarfélags í samræmi við viðmiðunargjaldskrá grunnskóla fyrir skólaárið 2021-2022 gefinni út af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, frá og með í janúar 2022.

 

3. Eignarhald á Heiðargerði

Við yfirfærslu grunnskóla til sveitarfélaga árið 1996 var eignhluti ríkisins í skólahúsnæðum afskrifaður í jöfnum áföngum og færður yfir til sveitarfélaga. Við yfirfærsluna voru hins vegar undanskildir svokallaðir skólastjóra- og kennarabústaðir, sjá 3. mgr. 3. gr. laga nr. 77/1996. Þessar eignir eru því áfram í sameiginlegri eigu ríkisins og sveitarfélaga þó að umráð þeirra hafi færst til sveitarfélaganna. Fasteignin Heiðargerði 7 er 75% eigu ríkisins og 25% eigu sveitarfélagsins. Gera þarf lóðarleigusamning um eignina til ríkisins. Í ljósi þess að ríkið hefur lítil sem engin not af þessum eignum hefur verið farin sú leið að selja sveitarfélagi eignarhluta ríkisins, er þá kaupverðið ákvarðað útfrá fasteignamati, eða setja eignina sameiginlega í almenna sölu og fer þá kaupverðið eftir markaðsverði.

Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að ganga frá eignayfirlýsingu og grunn-lóðaleigusamningi. Skoðað verður nánar með framtíðar eignarhald á húsnæðinu.

 

4. Vikurnáma Reykholti

Umsókn barst frá eigendum Hagagnúps ehf. og Garðyrkjubændum um að sveitarfélagið enduropni vikurnámu við Reykholt. Undanfarin ár hafa verið nýttir um 600 m3 af vikri úr námunni. Landgræðslan hóf vinnu við að græða upp svæðið í og við námuna vorið 2020. Haustið 2020 tók Landgræðslan afstöðu til umsóknar Garðyrkjubænda um að enduropna námuna og kom þar fram að þeir geri ekki kröfu um að námunni verði lokað en vænti þess að umgengi sé góð þannig að fok frá námunni ógni ekki gróðri eða geri öðrum landgræðsluverkefnum erfiðara fyrir.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir að auglýsa eftir umsóknum um efnistöku fyrir allt að 1000 m3 árlega á vikrum við Reykholt í Þjórsárdal að uppfylltum kröfum um umgengni og frágang svæðis í samráði við Landgræðsluna og Afréttamálafélags Flóa- og Skeiða sem hafa unnið að uppgræðslu á svæðinu. Framangreint er þó með fyrirvara um samþykki Forsætisráðuneytisins.

 

5. Ungmennaráð Suðurlands

Ungmennaráð Suðurlands óskar eftir því að hvert sveitarfélag tilnefni einn aðalmann og einn varamann til setu í Ungmennaráði Suðurlands. Í ráðinu situr einn fulltrúi frá hverju sveitarfélagi á Suðurlandi, samtals 15 aðalmenn og 15 varamenn.

Erindinu vísað til Ungmennaráðs sem tilnefnir aðila í Ungmennaráð Suðurlands.

 

6. Skipulagsmál- Nýtt hverfi í landi Húsatófta

Ósk frá landeiganda, sem hyggst skipuleggja og reisa nýtt íbúðahverfi í landi Húsatófta, um að vegur sem liggur fyrir að leggja í gegnum umrædda landareign á Húsatóftum verði færður úr landareigninni svo hægt sé að halda skipulagsferli svæðisins áfram.

Sveitarstjórn telur að umræddur vegur hindri ekki vinnslu við deiliskipulag svæðisins. Ekki verður farið í breytingar á deiliskipulagi fyrr en drög að deiliskipulagi á nýju hverfi liggur fyrir.

 

7. Fráveita- Traðarland

Umsókn frá Traðarlandi ehf. um þátttöku sveitarfélagsins við niðursetningu rotþróar í samræmi við deiliskipulag á landi þeirra í Réttarholti. Skv. deiliskipulagi skal tengja svæðið við fráveitu sveitarfélagsins við frekari uppbyggingu á svæðinu. Skv. deiliskipulagi á að vera 12.000 lítra rotþró á landinu. Skv. skipulagsfulltrúa gildir deiliskipulagið á þann veg að þegar 12.000 lítra rotþróin dugir ekki lengur til þá þurfi að tengja svæðið við fráveitukerfi sveitarfélagsins. Landið er þó ekki í eigu sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn hafnar beiðni Traðarlands um styrk. Landið er ekki í eigu sveitarfélagsins og ber það enga skyldu til að koma að fráveitumálum nema þegar kemur að tæmingu rotþróa. Veiting slíks styrks væri mjög fordæmisgefandi. Þegar kemur að frekari uppbyggingu á svæðinu umfram deiliskipulagið mun vera skoðað að tengja svæðið fráveitukerfi sveitarfélagsins líkt og kveðið er á um í deiliskipulaginu.

 

8. Reglugerð um tómstundastyrk

Ný reglugerð um tómstundastyrk sett fram. Reglugerðin gerð örlítið ýtarlegri.

Sveitarstjórn samþykkir reglugerð um tómstundastyrk og mælist til að reynt verði að stuðla að því að taka umsóknir meira inn rafrænt.

 

9. Alþingiskosningar. Kjörskrá- Umboð til sveitarstjóra

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir að fela sveitarstjóra að taka saman kjörskrá í samræmi við 22. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000.

Jafnframt er sveitarstjóra veitt fullnaðarheimild til að fjalla um athugasemdir, gera nauðsynlegar leiðréttingar og úrskurða um ágreiningsmál sem kunna að koma upp fram á kjördag vegna alþingiskosninga 25. september 2021 í samræmi við 27. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000.

 

10. Dómsmálaráðuneytið- kostnaður við alþingiskosningar

Bréf Dómsmálaráðuneytis á greiðslu kostnaðar við störf undirkjörstjórna og kjörstjórna, lagt fram til kynningar. Tekið hefur verið tillit til aukins kostnaðar sökum þess ástands sem v. Covid-19 hefur skapað.

 

11. Fjárhagsáætlun- viðauki 2021

Viðauki við fjárhagsáætlun 2021 lagður fram. Gert er ráð fyrir að tekjur hækki um 22.340.000 kr. og að útgjöld hækki um 14.670.000 kr. Er sá kostnaður kominn til v. hækkunar á kostnaði við málefni fatlaðra um 10.000.000 kr., endurgreiðslu á styrk í þróunarverkefni v. rafrænna reikninga að fjárhæð 2.270.000 kr. DK vann það verkefni með sveitarfélaginu en vegna þess umfangs sem verkefnið endaði í var ákveðið að hverfa frá því. Enginn kostnaður var lagður út af hálfu sveitarfélagsins í verkefnið fyrir utan tíma sveitarstjóra í fundarsetu. Í upphaflegri fjárhagsáætlun var ekki gert ráð fyrir rekstri á Vallarbraut 9B, þar sem það hús var komið á sölu. Það var þó ekki afhent fyrr en í byrjun júní og þar af leiðandi var rekstur hússins á höndum sveitarfélagsins í hálft ár.

Greiða þarf tilbaka um 5 milljónir v. greiddra gatnagerðargjalda sem úrskurðað var um að væri ólögleg álagning. Hækkar fjárfestingarliðurinn því sem nemur þeirri endurgreiðslu. Jafnframt er lagt til að keypt verði öryggisgirðing í kringum fráveituna í Brautarholti, kostnaður af henni er á bilinu 5.500.000 kr. Áður hafði verið gert ráð fyrir 700.000 kr. í hana. Nettó áhrif á handbært fé í viðauka III er hækkun um 1.000.000 kr.

Sveitarstjórn samþykkir viðauka III við fjárhagsáætlun 2021.

 

12. Niðurfærsla og uppgjör

Einar Bjarnason vék af fundi við afgreiðslu þessa liðar. Niðurfæra þarf kröfur vegna álagðra gatnagerðargjalda sem talin var ólögmæt álagning með úrskurði Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Niðurfærsla krafna nemur 10.407.121 kr.

Sveitarstjórn samþykkir með 4 atkvæðum að niðurfæra kröfurnar í samræmi vð úrskurð Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

 

13. Fjárhagsáætlun 2022-2026

Bréf frá sambandi Íslenskra sveitarfélaga um forsendur fjárhagsáætlana 2022-2026 lagt fram til kynningar. Sveitarstjórn og sveitarstjóri mun taka mið af markmiðum laga um opinber fjármál við vinnu komandi fjárhagsáætlunar.

 

14. Vegagerðin Umsókn um framkvæmdaleyfi v. brúar við Stóru Laxá

Bréf frá Vegagerðinni v. framkæmda við Stóru Laxá lagt fram. Breyta þarf legu vatnslagnar í eigu Hrunamannahrepps sem liggur yfir Stóru Laxá.

Sveitarstjórn samþykkir framkvæmdaleyfi til Vegagerðarinnar.

 

15. Starfs- og ársskýrsla Félags eldri borgara í Skeiða- og Gnúpverjahreppi 2020

Lagt fram til kynningar.

 

16. Samband íslenskra sveitarfélaga- lög um samþætta þjónustu í þágu barna

Lagt fram til kynningar.

 

17. Skipulagsnefnd UTU. Fundargerð 222 fundur

 

Skeiða- og Gnúpverjahreppur:

46. Brautarholt; Færsla Vallarbrautar og þétting byggðar; Deiliskipulagsbreyting - 2104010

Lögð er fram tillaga deiliskipulagsbreytingar er varðar deiliskipulag Brautarholts í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Í breytingunni felst færsla á Vallarbraut til austurs og þétting byggðar. Athugasemdir bárust á auglýsingatíma skipulagsbreytingarinnar og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins.

Skipulagsnefnd UTU tekur að hluta til undir athugasemdir íbúa er varðar skilgreiningu opinna útivistarsvæða innan deiliskipulagsins og vöntunar á betri skilgreiningu opinna svæða innan þess. Skilgreint útivistarsvæði á núverandi skipulagi hefur verið nýtt sem tjaldsvæði en telst, eftir að jarðvegskönnun var gerð á svæðinu, nýtast betur sem byggingarland. Að mati nefndarinnar eru möguleikar á skilgreiningu fyrir opið svæði í tengslum við núverandi lóð leikskólans á svæði sunnan og austan við sundlaugina þar sem er um 2.600 fm óbyggt svæði sem ætti að vera vel nýtanlegt mestan part ársins. Nefndin mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að deiliskipulagstillagan verði uppfærð með það að markmiði að skilgreina opið svæði hentugt til útivista og leikja barna með tengsl við lóð leikskólans í huga í góðum tengslum við núverandi byggð. Nefndin leggur til að málið verði auglýst á nýjan leik og kynnt sérstaklega þeim sem athugasemdir gerðu við áður auglýsta deiliskipulagstillögu. Vísað til afgreiðslu sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn samþykkir að uppfæra deiliskipulagstillögu með það fyrir augum að ekki sé verið að þrengja of mikið af opinberum eignum sveitarfélagsins í Brautarholti. Ný tillaga verður að því búnu kynnt og auglýst aftur.

 

47. Ásar L166523; Ásar spennistöð; Stofnun lóðar - 2108059

Lögð er fram umsókn eigenda jarðarinnar Ásar L166523 þar sem óskað er eftir að stofna 56 fm lóð úr jörðinni undir spennistöð fyrir dreifikerfi RARIK.

Skipulagsnefnd UTU gerir ekki athugasemd við stofnun lóðarinnar skv. fyrirliggjandi umsókn. Skipulagsnefnd mælist til þess að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykki erindið.

Sveitarstjórn samþykkir umsókn eiganda Ása L166523 um stofnun 56 m2 lóðar úr jörðinni undir spenntistöð fyrir dreifikerfi Rarik.

 

48. Löngudælaholt frístundasvæði; Breyting og samræming deiliskipulags - 2104081

Lögð er fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Löngudælaholts eftir auglýsingu. Umsagnir bárust á auglýsingatíma skipulagsins og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins. Brugðist hefur verið við umsögnum með uppfærslu breytingartillögunnar.

Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að samþykkja framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu. Brugðist hefur verið við athugasemdum og umsögnum sem bárust vegna málsins. Nefndin mælist til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010

Sveitarstjórn samþykkir framlagt deiliskipulag eftir aulýsingu og það taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

Mál til kynningar

18. Umhverfis- og tæknisvið Uppsveita. Fundargerðir 87. og 88. fundur stjórnar

Fundargerðir lagðar fram og kynntar.

 

19. Samband íslenskra sveitarfélaga. Fundargerð 900 fundur stjórnar

Fundargerð lögð fram og kynnt.

 

20. Nefnd Oddvita og sveitarstjóra. Fundargerð

Fundargerð lögð fram og kynnt.

 

21. Heilbrigðisnefnd Suðurlands. Fundargerð 213 fundur

Fundargerð og samþykkt um vatnsvernd lögð fram til kynningar.

 

22. Bergrisinn. Fundargerð 29.-31. fundur

Fundargerðir lagðar fram og kynntar.

 

23. SASS. Fundargerð 572. fundur

Fundargerð lögð fram og kynnt

 

24. Byggðastofnun. Skýrsla vinnu og skólasóknarsvæði og almenningssamgöngur

Lagt fram til kynningar

 

25. Vottunarstofan Tún. Fundargerð- aðalfundur

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

26. Skipulagsstofnun. Tilkynning v. deiliskipulags

Lagt fram til kynningar

27. Landbúnaðarháskóli Íslands. Námskeið í samræðum, samráði og átakstjórnun í umhverfis- og auðlindamálum.

Lagt fram til kynningar

 

28. Ársþing Sass

Lagt fram til kynningar

 

29. Innleiðing hringrásarhagkerfis

Lagt fram til kynningar

 

 

Fundi slitið kl 17.15. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 6. október 2021, kl 14.00 í Árnesi.

Gögn og fylgiskjöl: