Sveitarstjórn

56. fundur 28. júní 2005 kl. 10:30

56. fundur var haldinn í hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps þriðjudaginn 6.september 2005 kl. 10:30 í Árnesi. 

Fundinn sátu hreppsnefndarmennirnir Aðalsteinn Guðmundsson oddviti, Hrafnhildur Ágústsdóttir, Matthildur E. Vilhjálmsdóttir, Tryggvi Steinarsson, Þrándur Ingvarsson, Gunnar Örn Marteinsson og Ólafur F. Leifsson.  Einnig Ingunn Guðmundsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.  Halla Sigríður Bjarnadóttir varamaður Matthildar sat hluta fundarins.

 

Í upphafi fundar minntist oddviti Steinþórs Gestssonar fyrrum oddvita Gnúpverjahrepps og alþingismanns.  Viðstaddir risu úr sætum og vottuðu honum virðingu sína.

Dagskrá:

1.     Fundargerðir til staðfestingar.  Oddviti óskaði eftir að fundargerð hreppsráðs frá 30. ágúst yrði tekin á dagskrá.  Enginn gerði athugasemd við það. 
Fundargerð hreppsráðs frá 30. ágúst 
Liður 11 varðandi laun fyrir störf hreppsnefndarmanna og nefndarmanna sem vísað var til hreppsnefndar.  Hreppsnefnd samþykkti tillöguna sem felur í sér að laun þeirra sem starfa að hreppsmálum fylgi almennum launahækkunum.

Afréttarmálanefndar Gnúpverja frá 25. ágúst 
b.      Stjórnar Hitaveitu Brautarholts frá 25. ágúst

c.       Skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu frá 25. ágúst. 

Varðandi lið 26 í fundargerð Skipulagsnefndar, landspildublað vegna Ólafsvalla.  Matthildur E. Vilhjálmsdóttir og Ólafur F. Leifsson tóku ekki þátt í afgreiðslu málsins vegna tengsla við það.

Fundargerðirnar staðfestar með framkomnum athugasemdum.

2.      Aðalskipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps.  Síðari umræða um aðalskipulagstillögu skv. 18.gr. skipulags og byggingarlaga.  Til fundarins mætti Skipulagsfulltrúi Uppsveita Árnessýslu.

Fyrir lá tillaga að Aðalskipulagi fyrir Skeiða- og Gnúpverjahrepp sem auglýst var sbr.18.gr. skipulags og byggingarlaga, einnig minnisblað sveitarstjóra þar sem ferill málsins var rakinn frá því að óskað var heimildar Skipulagsstofnunar til auglýsingar fskj.1. með fundargerð. 

Lögð voru fram drög að svörum við athugasemdum. 

Fram var lagt erindi frá Samvinnunefnd um Miðhálendi Íslands dags. 29.ágúst þar sem kynnt var breyting á Svæðisskipulagi um Miðhálendi Íslands 2015 , Sunnan Hofsjökuls.

Fram var lagt erindi frá Landsvirkjun sem dagsett var 30. ágúst og barst 2. september.  Landsvirkjun óskar eftir fundi með hreppsnefnd um Aðalskipulagið.  Oddviti lagði til að bjóða Landsvirkjun til fundar eftir miðjan september. Það var samþykkt með fjórum atkvæðum L lista gegn tveimur atkvæðum Þrándar og Ólafs, Gunnar sat hjá.

Fjallað var um athugasemd Eiríks Þórkelssonar og Unnar Lísu Schram varðandi nýtt vegarstæði um Vorsabæjarland og frestað var á fundi hreppsnefndar þann 9. ágúst og Skipulagsfulltrúa falin könnun.

Skipulagsfulltrúi gerði grein fyrir viðræðum við landeigendur, Vegagerðina og Skipulagsstofnun. 

Hreppsnefnd samþykkti samhljóða þá breytingu á auglýstri tillögu að Aðalskipulagi að vegarstæði um Vorsabæjarland verði sýnt í núverandi legu.

Oddviti gerði grein fyrir niðurstöðu Samvinnunefndar Miðhálendis varðandi hálendið og lagði til að breyting yrði gerð á auglýstri Aðalskipulagstillögu Skeiða- og Gnúpverjahrepps til samræmis við niðurstöðu Samvinnunefndar.

Þrándur Ingvarsson mælti fyrir tillögu sinni, Gunnars Arnar Marteinssonar og Ólafs F. Leifssonar: ,,Tillaga samvinnunefndar miðhálendis á eftir að fara til Skipulagsstofnunar og umhverfisráðherra til samþykktar eða synjunar.  Þá hefur Landsvirkjun farið framá viðræður við hreppsnefnd til að gera grein fyrir afstöðu fyrirtækisins.  Umhverfisnefnd hefur ekki haft tækifæri til að koma að aðalskipulaginu.  Fundarmenn höfðu ekki tækifæri til að kynna sér tillögu meirihluta eða önnur gögn er málið varðar fyrr en á fundinum.  Þá förum við framá að málinu verði frestað.”

Sveitarstjóri lagði fram svohljóðandi bókun: ,,Hreppsnefnd samþykkti á fundi sínum þann 21.júní 2004 að senda umhverfisnefnd hreppsins Aðalskipulagstillöguna til umsagnar.  Nú er hreppsnefnd að fjalla um auglýsta tillögu að Aðalskipulagi.  Þegar er búið að samþykkja breytingu varðandi Vorsabæjarveg.  Þau atriði sem eftir er að fjalla um varða niðurstöðu Samvinnunefndar miðhálendis. Fundargerð miðhálendisnefndar var send út með fundargögnum.  Það er því rangt að fundarmenn hafi ekki haft tækifæri til að kynna sér viðeigandi gögn málsins.”

Oddviti bar upp tillögu Þrándar sem var felld með fjórum atkvæðum L lista, gegn þremur atkvæðum A lista.

Þá bar oddviti upp breytingartillögu sína til samræmis við breytingu á svæðisskipulagi miðhálendisins.  Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum L lista gegn tveimur atkvæðum Þrándar og Ólafs, Gunnar sat hjá. 

Hreppsnefnd samþykkti þar með auglýsta tillögu að Aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2004-2015 með ofangreindum breytingum.  Hreppsnefnd ítrekaði fyrri samþykkt frá 5. apríl 2005 um fyrirvara varðandi bótaskyldu Landsvirkjunar til landeigenda.  Hreppsnefnd samþykkti að fela hönnuðum og sveitarstjóra að ganga frá svörum við athugasemdum og leggja þau fyrir hreppsnefnd áður en þau verða send.  Þá samþykkti hreppsnefnd að fela hönnuðum og sveitarstjóra að auglýsa ofangreinda niðurstöðu og enn fremur að senda Skipulagsstofnun lokatillögu Aðalskipulags til yfirferðar og óska staðfestingar umhverfisráðherra á henni.

3.      Erindi frá Afréttarmálafélagi Flóa og Skeiða varðandi framkvæmdaleyfi vegna lagningar nýs 3,2 km vegarslóða að fjallmannahúsinu Kletti.  Var áður á dagskrá hreppsnefndar þann 9.ágúst.  Skipulagsfulltrúi gerði grein fyrir vettvangsferð og lagði fram og kynnti jákvæða umsögn Umhverfisstofnunar um málið.  Hreppsnefnd samþykkti að veita Afréttarmálafélagi Flóa og Skeiða leyfi til framkvæmdarinnar í samræmi við nýsamþykkt Aðalskipulag.  Haft verði samráð við skipulagsfulltrúa við framkvæmdina.

Skipulagsfulltrúi vék af fundinum.

4.      Fundargerðir til kynningar

        a.       Stjórnar Skólaskrifstofu Suðurlands frá 24. ágúst

        b.      Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 23. ágúst

5.      Erindi frá Félagi opinberra starfsmanna á Suðurlandi dags. 26. ágúst 2005 þar sem kynnt var námskeið fyrir starfsfólk á skrifstofum.

Lagt fram til kynningar.

6.      Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga dags. 26. ágúst þar sem kynnt var málþing sveitarfélaga um velferðarmál sem haldið verður 29. september n.k.

Lagt fram til kynningar.

7.      Erindi frá Kvenfélagi Gnúpverja dags. 9. maí þar sem óskað var viðræðna við hreppsnefnd um húsnæðismál aldraðra.

Hreppsnefnd samþykkti að fela hreppsráði að ræða við fulltrúa Kvenfélagsins.

8.      Erindi frá Matthildi E. Vilhjálmsdóttur dags. 11.ágúst þar sem hún óskar að fá að draga til baka lausnarbeiðni sína sbr. erindi á hreppsnefndarfundi 9. ágúst. Fyrir lá  afrit af svari félagsmálaráðuneytis dags. 30. ágúst, við fyrirspurn Þrándar Ingvarssonar varðandi þetta mál.  Í svarinu kemur fram að ráðuneytið telur; ,,heimilt að bera fram á hreppsnefndarfundi tillögu þess efnis að samþykkt hreppsnefndar um að veita Matthildi lausn frá og með 7. september 2005 verði felld úr gildi, enda fari sú afgreiðsla fram fyrir þann dag.”

Matthildur vék af fundi við umfjöllun og afgreiðslu málsins vegna vanhæfis og tók Halla Sigríður Bjarnadóttir sæti hennar á fundinum.

Þrándur lagði fram eftirfarandi tillögu fyrir sína hönd, Gunnars og Ólafs.  ,,Við krefjumst þess að afgreiðslu málsins verði frestað þar til meirihluti hreppsnefndar hefur kallað inn fyrsta varamann L lista samkvæmt 22.grein um stjórn og fundarsköp Skeiða- og Gnúpverjahrepps.”

Oddviti bar upp tillöguna sem var felld með þremur atkvæðum L lista gegn þremur atkvæðum A lista.

Oddviti lagði til að samþykkt hreppsnefndar frá 9. ágúst um lausn Matthildar verði felld úr gildi að því er varðar setu í hreppsnefnd.  Matthildi er veitt lausn frá setu í hreppsráði og nefndum á vegum hreppsins.

Fulltrúar A lista viku af fundi.

Oddviti bar upp tillöguna og var hún samþykkt samhljóða.

9.      Önnur mál.

        a.       Tilkynning Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga dags. 1. september um aðalfund sem haldinn verður á Kirkjubæjarklaustri dagana 25. til 26. nóvember n.k.

        b.      Tilkynning Sambands íslenskra sveitarfélaga dagsett. 31. ágúst um fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem haldin verður dagana 10. og 11. nóvember n.k.

       c.       Sveitarstjóri sagði frá störfum sameiningarnefndar Uppsveita og hvatti fólk til að mæta á fund sem haldinn verður fyrir íbúa Skeiða- og Gnúpverjahrepps í Árnesi 7.september.

       d.      Tryggvi Steinarsson sagði frá ferð Afréttamálanefndar Gnúpverja um afréttinn.  Vildi hann vekja sérstaka athygli á bágu ástandi kofans í Tjarnarveri sem talinn er ónýtur.


Fundi var slitið klukkan  14:20